Fréttir

Rannsóknarverkefnið Áhrif upplýsingatækni á vinnuumhverfi og persónuvernd hlýtur styrk frá Rannís

18.6.2002

Rannsóknarverkefnið Áhrif upplýsingatækni á vinnuumhverfi og persónuvernd hlaut 10 m.kr styrk (til tveggja ára) í nýlegri úthlutun Rannís úr markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, félagsfræðingur hjá Vinnueftirlitinu veitir verkefninu forstöðu en aðrir starfsmenn Vinnueftirlitsins, sem munu vinna að verkefninu, eru Margrét Lilja Guðmundsdóttir, félagsfræðingur og Sigrún Kristjánsdóttir, lögfræðingur.

Rannsóknin felur í sér verulegt nýnæmi bæði hérlendis og í hinum alþjóðlega rannsóknarheimi. Markmið hennar er að rannsaka umfang og markmið rafræns einstaklingseftirlits, birtingarform, nýtingu upplýsinganna og áhrif þess á vinnuumhverfi, réttarstöðu og líðan starfsmanna. Með rafrænu eftirliti er átt við nákvæma rafræna tölvuskráningu á verkferlum starfsmanna og afkastamælingum, myndbandsupptökur í vinnurrými og eftirlit með tölvupósti, netnotkun og símtölum starfsmanna.

Upplýsingatæknin hefur að nokkru leyti breytt samskiptum stjórnenda og starfsmanna og gert stjórnendum betur kleift að fylgjast með og halda skrá yfir afköst og hegðunarmunstur/vinnuferla starfsmanna. Á sama tíma og þetta eftirlit hefur að einhverju leyti aukið skilvirkni í rekstri fyrirtækja þá hefur það jafnframt breytt að vissu marki verkferlum starfsmanna og vakið auk þess upp nýjar spurningar um persónuvernd og líðan starfsmanna sem í hlut eiga.

Ör þróun í þessa veru á sér stað í hinum ólíkustu starfsgreinum, sem hefur leitt til þess að erfitt hefur verið fyrir stjórnvöld, eftirlitsaðila og aðra þá er málið varðar að hafa yfirsýn yfir hvert stefnir í rafrænum eftirlitsiðnaði og hvað sé leyfilegt. Má ætla að niðurstöður rannsóknarinnar muni skapi umræður um líðan og réttarstöðu starfsmanna sem vinna undir rafrænu einstaklingseftirliti og verði liður í stefnumótun á sviði vinnu- og persónuverndar.