Fréttir

Rannsókn: örorka meðal kvenna á Íslandi

15.9.2008

   Í nýlegri rannsókn sem unnin var við Háskóla Íslands og hjá Vinnueftirliti ríkisins var þróun örorku meðal kvenna á Íslandi skoðuð. Kannað var hvaða einkenni konur sem metnar eru með örorku hjá TR hafa. Sérstaklega var skoðað hvernig þróun hefur verið meðal kvenna sem fengið hafa metna örorku vegna vefjagigtar. Jjafnframt voru tekin viðtöl við 9 konur með vefjagigt og þær spurðar hvað aftrar þátttöku þeirra á vinnumarkaði.

     Fleiri konur en karlar fá metna örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Árið 2005 voru konur 60% þeirra sem metin voru með örorku. Þróunin hefur verið sú að konum hefur fjölgað umfram karla á síðustu árum og æ fleiri konur eru metnar með hærra stig örorku, þ.e. meira en 75% örorku.

     Algengustu ástæður örorku hjá konum eru stoðkerfisraskanir og geðraskanir. Árið 1996 voru geðraskanir algengasta ástæða örorku meðal kvenna, eða í 28% tilvika og það ár komu stoðkerfisraskanir þar næstar eða í 24% tilvika. Árið 2005 voru stoðkerfisraskanir hins vegar orðnar algengari eða í 35% tilvika en geðraskanir í 31% tilvika. Vefjagigt tilheyrir flokki stoðkerfisraskana. Árið 2001 var algengi vefjagigtar meðal kvenna sem metnar voru með örorku 4,7%. Árið 2005 hefur algengi vefjagigtar aukist í 10,7% sem er veruleg aukning. 

      Það sem einkennir vefjagigt eru t.d. útbreiddir verkir, þreyta og stirðleiki. Eitt af því sem getur haft áhrif á einkennin er álag. Algengt er að starfsþrek þeirra sem þjást af vefjagigt minnki eða þverri. Til að kanna hvað aftrar konum með vefjagigt að fara aftur á vinnumarkað voru tekin viðtöl við 9 konur sem fengið hafa metna örorku vegna vefjagigtar. Í viðtölunum kom fram að sumar konurnar höfðu strítt við vefjagigt allt frá unga aldri en aðrar höfðu fyrst farið að finna fyrir einkennum á fullorðinsárum í kjölfar veikinda, áverka eða álags. Varðandi álag var bæði nefnt að álag í daglegu lífi og álag tengt vinnunni hefði haft áhrif á veikindin. 
      Þættir í vinnufyrirkomulagi sem tengdust álagi voru t.d. of miklar kröfur, lítið sjálfræði, skortur á stuðningi stjórnanda, lítil umbun í starfi og líkamlega erfið störf. Einnig kom fram að lítill sveigjanleiki til að hagræða verkefnum í vinnu hafði áhrif. Konurnar áttu það sameiginlegt að hafa unnið eins lengi og heilsan leyfði og það reyndist þeim þungbært að hverfa af vinnumarkaði. Áður en til örorkumats kom var algengt að þær reyndu að minnka við sig í vinnu eða fækka verkefnum í því skyni að draga úr álagi. Það gat reynst erfitt þar sem á sumum vinnustöðum var ekki boðið upp á hlutastörf. Einnig kom í ljós að hjá þeim konum sem gátu lækkað starfshlutfallið var ekki þar með sagt að álagið í starfinu væri minna. Þannig var til dæmis háttað hjá þeim sem voru ofhlaðnar verkefnum að þótt starfshlutfall væri lækkað var verkefnum ekki fækkað nægjanlega svo hæfði starfshlutfalli. 
     Það sem viðmælendur nefndu að aftraði þeim helst frá því að fara aftur á vinnumarkað eru heilsufarsástæður og þá einkum verkir og þreyta. Hafa ber í huga að reynsla kvennanna af vinnumarkaði áður en til örorkumats kom hefur að öllum líkindum áhrif á viðhorf þeirra til þess að fara aftur á vinnumarkað. Þær hafa reynslu af því að vinnan valdi þeim álagi. Einnig að það reyndist þeim erfitt að hagræða í vinnunni til að draga úr álagi. Að lokum má nefna að reynsla þeirra er sú að erfitt er að stunda vinnu þegar heilsan er ekki góð alla daga. Þær telja því að ef í boði væru fleiri hlutastörf eða ef þeim væri gert kleift að hafa sveigjanlegan vinnutíma þannig að þær gætu unnið meira þá daga sem heilsan leyfir en aftur minna þá daga þegar heilsan er verri, ættu þær auðveldari leið inn á vinnumarkað. Eins var nefnt ef viðvera væri sveigjanleg og þær gætu t.d. stundum unnið heiman frá sér. Konurnar nefna að að æskilegt væri að reglur almannatryggingakerfisins væru sveigjanlegri í því að gera þeim kleift að prófa sig áfram í vinnu og hafa meiri tekjur, án þess að til skerðingar á örorkulífeyri komi eða hætta sé á að réttur til örorkulífeyris falli niður. Þeim finnst áhættan við að fara á vinnumarkað og eiga á hættu að það hafi áhrif á lífeyri letja til vinnu. Hafa ber í huga að viðtölin fóru fram áður en skerðingarmörk voru hækkuð þann 1. júlí sl. 
     Leyfi fyrir þessari rannsókn fékkst hjá Vísindasiðanefnd og var hún tilkynnt til Persónuverndar. Einnig fékkst leyfi frá TR til notkunar gagna úr örorkuskrá. Rannsókn þessi var styrkt af Rannsóknanámssjóði Rannís.

Heimildir:
Ásta Snorradóttir (2008). Örorka meðal kvenna á Íslandi. Óbirt MA-ritgerð: Háskóli Íslands, Félags- og mannvísindadeild.

Sigurður Thorlacius, Sigurjón Stefánsson og Stefán Ólafsson. (1998). Umfang og einkenni örorku á Íslandi árið 1996. Læknablaðið, 84, 629-635.

Sigurður Thorlacius, Sigurjón Stefánsson, Stefán Ólafsson og Vilhjálmur Rafnsson (2001). Breytingar á algengi örorku á Íslandi 1976-1996. Læknablaðið, 87(3), 205-209.

Sigurður Thorlacius, Sigurjón B. Stefánsson, Mohamed I. Ranavaya og Robert Walker (2002). Vefjagigt og kvíðaröskun. Læknablaðið, 88(11), 815-818.

Sigurður Thorlacius og Sigurjón B. Stefánsson (2004). Algengi örorku á Íslandi 1. Desember 2002. Læknablaðið, 90(1), 21-25.

Sigurður Thorlacius, Sigurjón B. Stefánsson og Stefán Ólafsson (2007). Algengi örorku á íslandi 1. desember 2005. Læknablaðið, 93(1), 11-14.