Fréttir

Rannsókn á vinnuumhverfi, heilsu og líðan íslenskra bænda

4.4.2004

Ný rannsókn sett í gang ? þátttaka bænda nauðsyn

Heilsufar íslenskra bænda hefur nokkuð verið til umræðu á undanförnum misserum og árum í ljósi breyttra búskaparhátta og breyttrar stöðu bænda í þjóðfélaginu. Bændur, sem áður störfuðu yfirleitt eingöngu að búskap, hafa nú oft annað og jafnvel þriðja starf meðfram auk þess sem makar vinna oft að öðru en búskap. Afkoma bænda er að mörgu leyti erfiðari og tekjumöguleikar minni en áður var. Mögulega leiðir þetta til aukinnar streitu og álags, meira en áður þekktist. 

Búskaparhættir hafa breyst umtalsvert á síðastliðnum 20 árum, sérstaklega með tilkomu rúllubagga. Notkun rúllubagga hefur valdið því að rykmengun í landbúnaði hefur minnkað.  Þar sem ryk í umhverfi er ein helsta ástæða öndunarfæravandamála meðal bænda ættu merki þess að sjást í lægri tíðni langvinnrar berkjubólgu, heymæði, heysóttar og astma en allir eru þessir sjúkdómar nátengdir magni ryks í umhverfi. Þess má geta að athuganir hafa sýnt að bændur hafa reykt minna en almennt gerist en ekki er unnt að fullyrða að svo sé enn. Dánarmein og krabbamein íslenskra bænda voru rannsökuð fyrir rúmum áratug en síðasta könnun á lungnasjúkdómum og almennu heilsufari bænda var gerð fyrir hartnær tveimur áratugum og endurspeglar því ekki þær breytingar sem að ofan greinir. Mikil þörf er því á að kanna hvort heilsufar bænda hefur breyst og hvort þær breytingar sem gerðar hafa verið á starfsumhverfi hafa skilað þeim árangri sem ætlað var. 

Nýlega var stofnaður starfshópur til könnunar á heilsufari bænda með þátttöku Kristins Tómassonar, yfirlæknis Vinnueftirlits ríkisins, Gunnars Guðmundssonar lungnalæknis Landspítala háskólasjúkrahúsi og Sigurðar Þórs Sigurðarsonar lungna- og atvinnusjúkdómalæknis við Iowa háskóla í bandaríkjunum. Frumkvæðið má rekja nokkur ár aftur í tíma til þess að Sólrún Ólafsdóttir, bóndi á Kirkjubæjarklaustri skrifaði grein í  Bændablaðið 2001 um að taka þyrfti á þunglyndi meðal bænda og vernsandi andlegri heilsu þeirra.

 Á vegum starfshópsins hefur verið sendur út spurningalisti til  bænda á lögbýlum á Íslandi og samanburðarhóps 1500 Íslendinga. Áherslur eru lagðar á vinnuumhverfi, líðan og heilsu og sérstaklega á geðheilsu, vinnuslys, og lungnaheilsu. Mikilvægt er að bændur og aðrir þátttakendur taki vel í að svara spurningarlistanum hið fyrsta til þess að góð  yfirsýn fáist um heilsufar bænda.  Auk þessa er ætlunin að gera öndunarpróf og húðpróf á hópi sjálfboðaliða á lögbýlum til greiningar á hvaða skaðleg efni gætu verið í vinnuumhverfi bænda. Jafnframt verður gerð ryksöfnun á nokkrum býlum.

Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að geta varpað skýrara ljósi á hvernig heilsufari bænda er háttað, og í  framhaldi af því hvaða leiðir geta verið færar til úrbóta og forvarna. Rannsóknarverkefnið er styrkt af RANNÍS, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Sjóði Odds Ólafssonar, University of Iowa auk Vinnueftirlitsins og Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
 
Ef einhverjar spurningar vakna um verkefnið skal hafa samband við Kristinn Tómasson (
kristinn@ver.is) hjá rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins.