Fréttir

Rannsókn á öryggishegðun í byggingariðnaði

24.11.2005


Fyrirlögn á Norrænum spurningarlista um öryggi við mannvirkjagerð

Verulegur munur á algengi óhappa í byggingarvinnu milli fyrirtækja og milli landa hefur verið mönnum ráðgáta og áhyggjuefni. Þetta varð enn ljósara í vinnu við brúarsmíði milli Danmerkur og Svíþjóðar. Í þeirri vinnu slösuðust sænskir verka ? og iðnaðarmenn mun minna og sjaldnar en danskir, að því er mönnum virtist við sambærilegar vinnuaðstæður. Beindi þetta sjónum manna að hegðun starfsmanna og stjórnenda gagnvart hættum. Í framhaldi af þessu hefur verið unnið að öflun upplýsinga á Norðurlöndunum um slys í byggingariðnaði og rannsóknir á þeim. Skýrslu af fundi sem haldin var um efnið má finna á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar http://www.norden.org/pub/velfaerd/arbetsmiljo/sk/TN2004520.pdf

Í kjölfar fundarins var ákveðið að þróa Norrænan spurningarlista um öryggi við mannvirkjagerð, þar sem skoðuð yrðu sérstaklega viðhorf starfsmanna til öryggis á vinnustaðnum. Búið er að grunnprófa listann á litlum hópi manna í byggingar og mannvirkjagerð.

Í framhaldi af því er nú áformað að fá 150 starfsmenn í bygginga- og mannvirkjagerð til að svara spurningarlistanum til þess að þróa hann enn frekar og leggja grunn að styttingu hans. Markmiðið er að endanleg útgáfa af spurningarlistanum geti  nýst sem tæki til að meta öryggishegðun innan fyrirtækja og þar með lagt grunn að frekara vinnuverndarstarfi innan fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að að endanlegur listi liggi fyrir í lok árs 2006 eða snemma árs 2007. Þá er gert ráð fyrir að þessi vinna leggi grunn að námskeiðsefni um öryggishegðan innan fyrirtækja í bygginga- og mannvirkjagerð.

Verkáætlun

Gert er ráð fyrir að leggja listann fyrir starfsmenn 2-3ja stórra fyrirtækja í mannvirkjagerð og 3-7 minni fyrirtækja. Hefur Vinnueftirlitið óskað eftir samstarfi við nokkur byggingarfyrirtæki þar að lútandi. Eingöngu er gert ráð fyrir að íslenskumælandi starfsmenn svari. Fyrirhugað er að eftirlitsmaður frá Vinnueftirlitinu muni dreifa listanum á vinnustaðnum og starfsmenn skili honum síðan í kassa merktum Vinnueftirlitinu, þegar þeir hafa svarað. Það tekur um 15 ? 30 mínútur að svara listanum.
Svör við spurningalistanum verða hvorki rakin til fyrirtækjanna né einstakra starfsmanna.

Vinnueftirlitið vonast eftir jákvæðum viðbrögðum forráðamanna fyrirtækja og starfsmanna við þessari rannsókn.

Kristinn Tómasson
yfirlæknir Vinnueftirlitsins
netfang: kristinn@ver.is