Fréttir

Ráðstefna um heilsueflingu á vinnustöðum 18. september n.k

11.9.2008

Ráðstefna um heilsueflingu á vinnustöðum verður haldin þann 18. september n.k. í Háskólanum í Reykjavík, Ofanleiti. Vinnueftirlitið, Lýðheilsustöð og Háskólinn í Reykjavík standa að henni.

Á ráðstefnunni verða flutt fjölmörg áhugaverð erindi þar sem sjónum verður beint að ávinningi heilsueflingar á vinnustöðum í dag. Fjallað verður um gildi heilsueflingarinnar m.a. útfrá hagfræðilegum og samfélagslegum áhrifum ásamt því hvernig auka megi þekkingu á þessu sviði.
 
Ráðstefnan er í senn alþjóðleg og íslensk. Tungumál ráðstefnunnar verður enska fyrir hádegi og íslenska eftir hádegi. Meðal annars munu fjórir erlendir sérfræðingar halda erindi um málefnið. Auk þess sem stýrihópur Evrópska samstarfsnetsins um heilsueflingu á vinnustöðum (ENWHP) mun taka þátt í ráðstefnunni (www.enwhp.org).

Heilbrigðisráðherra mun ávarpa ráðstefnuna og kynna um leið þá stefnumótun sem er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu í tengslum við heilsueflingu á vinnustöðum.  Einnig verða haldnir fyrirlestrar um heilsueflingu innan ólíkra íslenskra vinnustaða.

Markhópar ráðstefnunnar eru stjórnendur á vinnustöðum, aðilar er vinna að málefnum er tengjast lýðheilsu og vinnuvernd og allir þeir sem hafa áhuga á heilsueflingu almennt.

Ráðstefnan er haldin í tengslum við verkefnin Heil og sæl í vinnunni og Healthy Together en hið síðarnefnda er styrkt af Leonardo da Vinci starfsmenntaáætluninni.

Nánari upplýsingar veita Þóra Björt Sveinsdóttir og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir