Fréttir

Ráðstefna fólks sem starfar að upplýsingamiðlun um vinnuvernd

15.4.2004

Fólk sem starfar að upplýsinga- og útgáfustörfum hjá norrænum stofnunum, sem tengjast vinnuvernd, hittist árlega á ráðstefnu til að bera saman bækur sínar, fræða hvert annað um nýjungar og nýjar rannsóknir og skiptast á skoðunum. Jafnframt er á ráðstefnunni sýning á nýjasta útgáfuefni um vinnuvernd á Norðurlöndunum.

 

Ráðstefnan er haldin til skiptist á Norðurlöndum og að þessu sinni verður hún á Íslandi, nánar tiltekið að Bifröst dagana 6.-8. júní nk. Síðast var hún haldin á Íslandi árið 1999.

 

Á Íslandi er aðeins ein stofnun sem sinnir vinnuvernd, Vinnueftirlitið. Á vegum hennar fer fram eftirlit, fræðsla, útgáfa, mælingar, rannsóknir o.fl. Á öðrum Norðurlöndum er þessu öðruvísi farið. Þar sinna margar stofnanir þessum þáttum, þ.e. sérstakar stofnanir sinna eftirliti, aðrar sinna fræðslu og útgáfu og enn aðrar stunda rannsóknir. Flestar þessara stofnana senda fulltrúa sína á ofangreinda ráðstefnu.

 

Á ráðstefnunni verður einkum fjallað um aðferðir við að koma upplýsingum á framfæri við almenning og til ákveðinna hópa og um fjárhagslegan ávinning af því að fræða fólk á vinnustöðum um öryggi, aðbúnað og hollustuhætti. Greint verður frá rannsókn um rafrænt eftirlit á vinnustöðum sem unnið er að á Íslandi. Einnig verður fjallað um hvernig rannsakendur og fólk í upplýsingastörfum getur starfað saman að því að koma niðurstöðum rannsókna á framfæri við almenning.

 

Áhugasamir hafi samband við Hönnu Kristínu Stefánsdóttur, deildarstjóra fræðsludeildar Vinnueftirlitsins, í síma 550 4600; netfang: hanna@ver.is.