Fréttir

Raddmein - atvinnusjúkdómur talandi stétta

22.2.2006

Raddmein - atvinnusjúkdómur talandi stétta
Hvað er til ráða?

Kristinn Hilmarsson talmeinafræðingur hjá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar, október 2001.

Grein þessi var skrifuð að beiðni skólastjórnenda Heiðarskóla. Beiðnin kom í framhaldi af námskeiði í Heiðarskóla í ágúst 2001 um raddheilsu kennara. Markmiðið með námskeiðinu var að kennarar þekktu einkenni góðrar raddmyndunar, þekktu einkenni raddar sem væri að gefa sig vegna álags, gætu brugðist við með einföldum ráðum, færu vel með röddina sína og vissu hvenær ástæða væri til að leita til læknis og/eða talmeinafræðings.

Raddþreyta hjá starfsfólki sem vinnur störf sem krefjast mikillar raddnotkunar hefur lengi verið þekkt. Vandamálið var í eina tíð kallað "prestasýki" og var fyrst lýst um 1600. Í byrjun 20. aldar var raddþreyta staðfest hjá fleiri stéttum, söngvurum, kennurum og herforingjum (Fritzell 1996). Könnun Björn Fritzell í Svíþjóð sýndi að á sex mánaða tímabili 1992 -´93 leitaði stafsfólk úr þessum stéttum til heilsugæslunnar vegna raddvandamála: kennarar, skrifstofufólk, heilbrigðisstarfsfólk, sölumenn, söngvarar, símaverðir, starfsfólk veitingahúsa, leikarar, félagsráðgjafar, lögfræðingar, og prestar. Raddþreyta er skilgreind sem afleiðing af of mikilli raddnotkun eða misbeitingu raddar. Hún á sér ekki líffræðilegar orsakir. Raddþreyta getur hins vegar haft í för með sér líffræðilegar meinsemdir eins og raddbandabólgur og valdið hnútum á raddböndum. Hætta á raddþreytu vex við mikið andlegt álag, slæman hljómburð, óloft og aðra óheppilega umhverfisþætti.

Í fyrstu beindust rannsóknir að raddheilsu talandi stétta og hvað væri hægt að gera tilað forðast þennan atvinnusjúkdóm. Í seinni tíð hefur athygli rannsakenda ekki síður beinst að öðrum hliðum þessa vandamáls og þá ekki síst hvaða afleiðingar hásar og litlar raddir hafa á möguleika nemenda til að tileinka sér það sem kennarinn segir. Átak hefur einnig verið gert hjá ýmsum þjóðum til að draga úr þessum atvinnusjúkdómi með ýmsum úrræðum sem nánar verður komið að síðar. Raddþreyta hefur efnahagslegar afleiðingar fyrir einstaklinginn og vinnuveitandann vegna þess að starfsfólk getur verið óvinnufært um lengri eða skemmri tíma.

Greinin ber þess merki að vera skrifuð fyrir grunnskólakennara en á engu að síður erindi til allra sem þurfa að tala mikið í vinnunni. Orðið kennari vísar í mörgum rannsóknum til kennara á öllum skólastigum oftast þó til grunnskólakennara.

RÖDD KENNARA

Eins og áður var sagt hefur lengi verið vitað að hætta á raddþreytu er mikil hjá kennurum. Kennarar þurfa að brýna röddina oft og í langan tíma samfellt. Starfsfólk sem þarf að tala mikið í vinnu sinni og er undir álagi getur oftast hvílt sig á milli þannig að samfellt tal yfir langan tíma kemur sjaldnar fyrir en hjá kennurum. Slík hlé draga verulega úr hættu á raddvandamálum. Almennur kennari talar í nokkra klukkutíma á dag, fimm daga vikunnar, undir miklu álagi. Líkja má álagi á talfæramekanismann við líkamlegt álag íþróttamanna. Knattspyrnumenn spila kappleiki að jafnaði einu sinni í viku og stunda léttar æfingar á milli og komi fram álagsmeiðsli hvíla íþróttamenn sig dögum og vikum saman. Áhorfendur á kappleikjum eru af og til rámir að loknum leik og dugar þá vanalega að spara röddina daginn eftir. Sama á ekki við kennara því raddþreytan er oftast afleiðing af
langvarandi misbeitingu og ofnotkun og lengist þá vanalega afturbatatíminn. Langvarandi álag getur leitt til krónískra vandamála og dugar þá ekki lengur hvíld ein og sér.
Ingo R. Titze, University of Iowa, hvetur kennara til að hvíla röddina sem mest þeir mega og draga úr samfelldu álagi með því að takmarka tíma á dag sem þeir tala af krafti og lengja samfelldan hvíldartíma (recovery time). (Titze 1999)
Rannsókn sem gerð var á röddum eitt þúsund kennara í Frakklandi, af Urrutikoetxeas o.fl., sýndi að 9% þeirra voru komnir með hnúta á raddböndin. (Morton og Watson 1998)
Morton og Watson könnuðu ástand radda kennara og samanburðarhóps fólks sem ekki stundaði kennslu . Sú athugun sýndi að tíðni raddvandamála var algengari hjá kennurum en samanburðarhópnum. Upplýsingar frá he ilsugæslustöðvum og talmeinafræðingum á Norður Írlandi sýndu að kennarar voru í miklum meirihluta þeirra sem vísað var í rannsókn og til meðferðar. Niðurstöðurnar sýndu einnig að kennarar leita sér ekki allir hjálpar þó raddvandamálin séu orðin alvarleg. Þriðjungur þeirra vonar að röddin lagist í sumarleyfinu og að vandinn sé óhjákvæmilegur þáttur starfsins og bregðast seint eða alls ekki við honum. Sú staðreynd að raddvandamál minnka eða hverfa yfir sumartímann hjá mörgum kennurum, undirstrikar að raddþreyta er atvinnusjúkdómur. Í lokaorðum sínum leggja Morton og Watson áherslu á mikilvægi raddþjálfunar
kennaranema og kennara og ekki verði lengur horft fram hjá því sem hægt er að gera til að vernda rödd kennarans.

"At stake is not just the well-being of the teacher ? if teachers lose the ability to communicate effectively, their pupils will also suffer." (Morton og Watson 1998, bls. 138)

Í Bretlandi hefur verið gert átak í að leiðbeina kennurum um góða meðferð raddar. British Voice Association stendur fyrir námskeiðum um land allt enda hefur árangur af raddþjálfun verið góður. Einstaklingar sem hafa farið í gegnum raddnámskeið hafa náð skjótum árangri. Fáum kennurum hefur staðið til boða regluleg talþjálfun þannig að þeir geti státað af sambærilegri færni í framsögn og leikarar eða söngvarar hafa aflað sér.
Raddvandamál eru sjaldgæfari hjá þessum hópum og verður að ætla að þeir njóti góðs af vel æfðri raddbeitingu. Af öllum sem leituðu til sérfræðinga í nokkrum borgum í suðurhluta Svíþjóðar vorukomur kennara flestar og af þeim voru 76% konur. Í áttunda sæti voru söngvarar (67% konur) og leikarar voru í15 sæti (67% konur). Fimm prestar leituðu ásjár og þar af 4 konur. (Fritzell 1996)
Algengustu líkamlegu breytingar á raddböndum voru hnútar sem taldir eru myndast við langvarandi raddnotkun á ljósum tónum. Við áreynslu hefur fólk tilhneigingu til að tala fyrir ofan sinn grunntón (196 Hz hjá konum og 98 Hz hjá körlum) og slík raddbeiting er mjög óheppileg. Í þeim tilfellum lemjast raddböndin saman af afli og sár (hnútar) geta myndast á þeim. Eftir að það hefur gerst lekur loft út milli raddbandanna í rödduðum hljóðum og röddin verður hás og málhljóð geta fallið brott (dysphonia).

Fritzell veltir fyrir sér ástæðum þess að fleiri kvenmenn koma til sérfræðinga með raddvandamál sín. Líklegustu ástæðuna telur hann vera þessa:

"Or, is the female voice less fit to cope with the demands and strains of professional life and a noisy work environment?" (Fritzell 1996, bls. 10)

Þrátt fyrir þessa niðurstöður er óþarfi að ætla að konur geti ekki stundað kennslu áfram sem hingað til. Úrræði eru til sem duga til að draga úr raddvandamálum. Nefnd hefur verið nauðsyn á raddþjálfun og síðar í greininni verður fjallað um aðbúnað og umhverfisþætti.

UMHVERFISÞÆTTIR

Raddvandamál hafa löngum verið tengd ýmsum umhverfisþáttum. Þegar leitað er skýringa á raddvandamálum beinist athyglin að þáttum eins og ofnotkun raddar, aðbúnaði á vinnustað, hljómburði, líkamlegu ástandi, líkamsstöðu þegar talað er og streitu. Kennarar þurfa að brýna röddina til þess að hún berist út í öll horn. Mikilvægt er að hún sé notuð mildilega og raddstyrkur sé sem minnstur þó þannig að heyrist vel í kennaranum. Ef bakgrunnshljóð eru til staðar, suð í tölvum, myndvörpum, loftræstikerfum, kliður í bekk, bergmál, hljóð að utan (umferð eða börn í frímínútum ) þarf kennarinn að auka styrk sinn umtalsvert til að börn geti greint það sem hann segir.

Í áttunda kafla byggingarreglugerð nr. 441 frá 1998 er fjallað um hollustuhætti. Þar er sagt að mannvirki skulu hönnuð þannig að heilsu manna sé ekki stefnt í hættu. Staðla um ómtíma (bergmál) er að finna í 175. grein kaflans. Hljóðdeyfing er því meiri sem ómtími er styttri. Ómtími í venjulegum skólastofum má mestur vera 0,8 sekúndur, í sérkennslustofum og hópvinnustofum 0,6 s, í leikfimisölum og sundhöllum 1,5 s og í leikskólum 0,6 s. Kröfurnar gilda um herbergi búin húsgögnum. Bergmál í skólastofum veldur börnum miklum erfiðleikum með heyrnræna úrvinnslu auk þess sem bergmál hefur þau áhrif að hávaði vex í stofum og getur verið svo mikið að börn og starfsmenn kvarta yfir sífelldum höfuðverkjum. Kennari verður að tala a.m.k. sem nemur 15 dB fyrir ofan kliðinn og getur álagið við slíkar aðstæður orðið óbærilegt fyrir hvaða rödd sem er. Í tómri skólastofu er leyfilegur hávaði vegna umhverfishljóða leyfður allt að 35 dB samkvæmt byggingarreglugerðinni.

Raddir barna eru skærari en raddir kennaranna og ef kennari talar í bekk þar sem er kliður þarf hann að auka raddstyrk sinn til þess að í honum heyrist. Það sem kennarar almennt gera sér hins vegar ekki grein fyrir er að í þessum tilvikum leitar tíðni tals kennaranna upp í ljósari raddsvið, fyrir ofan grunntón þeirra. Að tala fyrir ofan grunntón raddar á miklum styrk eykur verulega hættuna á raddþreytu og hnútum. Kennarar verða að hafa þetta í huga og hamla á móti þessari tilhneigingu.

Aðrir þættir sem valda auknu álagi eru t.d. lágt rakastig, ryk og uppgufun frá efnum sem notuð hafa verið í skólabygginguna. Þessir þættir valda þurrki í hálsi og í sumum tilfellum ofnæmisviðbrögðum. Þurrum raddbandavöðvum og þykkum vegna bjúgmyndunar, er erfitt að stjórna og hreyfingar þeirra verða rykkjóttar og þá verður röddin rám og hún getur brostið.

Mikilvægt er að huga vel að líkamsstöðu þegar tala þarf með miklum raddstyrk. Best er að standa og finna að líkaminn sé í góðu jafnvægi. Ef kennari eða ræðumaður er snúinn og skakkur eru vöðvar stífir og erfitt að láta þá hreyfast mjúklega eins ognauðsynlegt er. Áríðandi er að kennarar noti þindaröndun þegar þeir vilja tala með miklum raddstyrk og henni er auðveldast að beita þegar kennarinn stendur.

Finnsk rannsókn á áhrifum raka, líkamsstöðu og mismunandi raddstyrk á raddheilsu kennara, staðfesti að alltaf var mikilvægt að raki væri nægur í lofti en rakt loft gat þó ekki hindrað álagseinkenni af völdum mikils raddstyrks og skaðsemi óheppilegrar líkamsstöðu. (Sihvo o.fl. 1999)

KENNSLUFRÆÐILEGAR AFLEIÐINGAR

Kennarar hafa haft tilhneigingu til að þrauka þrátt fyrir raddþreytu. Virðingarvert þykir fólk sem harkar af sér og ber ekki vanda sinn á torg. Síðustu árin hafa rannsóknir beinst að áhrifum raddþreytu á nemendur og hvort óhreinar og veikar raddir kennara hafi áhrif á hæfni nemenda til að meðtaka það sem hann segir. Og í ljós hefur komið að áhrifin eru veruleg og því er það ekki einkamál kennarans hvort hann leitar sér aðstoðar eður ei.

Margt er þó enn óljóst um afleiðingar á nám barna og því munu þessi áhrif verða rannsökuð enn frekar á næstu árum. Staðfest hefur verið að slæm hlustunarskilyrði hafa neikvæð áhrif á námshæfni. Börnin einbeita sér í skemmri tíma og þau eiga erfiðara með heyrnræna úrvinnslu. (Morton og Watson 2001) Einnig hefur verið sýnt fram á að hljómgæði hafa áhrif á stundarminni heyrnar og skilning á töluðu orði. Samkvæmt námskenningum ræður vinnsluminni miklu um úrvinnslu hljóðáreita og slakt vinnsluminni hefur yfirleitt slæm áhrif á námsgetu. Því er mikilvægt að hlustunarskilyrði í skólum séu eins góð og kostur er.

Morton og Watson könnuðu getu barna til að endursegja stuttar sögur sem voru annars vegar sagðar af kennurum með heilbrigðar raddir og hins vegar með óhreinar raddir.
Öll börnin lýstu því yfir að erfitt hefði verið að hlusta á kennara með raddvandamál og þau hafi þurft að leggja sig fram við að heyra það sem sagt var.
Gæði endursagna barna sem hlustuðu á hásu raddirnar voru lakari og þau mundu minna en hin börnin. Einnig virtust óhreinu raddirnar draga úr áhuga barnanna.
Áhugasamir nemendur eru síður líklegir til að valda ókyrrð í bekk og trufla kennslu.
Morton og Watson benda á að dregið geti úr áhrifum óhreinna radda kennara á námshæfni nemendanna þegar þau hafa vanist þeim. En þeir minna líka á að nemendur í yngstu bekkjunum hafa margir glímt við þrálátar eyrnabólgur sem geti haft áhrif á hlustunarhæfni þeirra og ef saman fari slæmur hljómburður og óhrein rödd kennarans geti þetta haft alvarlegar afleiðingar á nám barnanna.

TILLÖGUR TIL ÚRBÓTAR

Kennarastarfinu, eins og mörgum öðrum störfum, fylgir álag og hætta áatvinnusjúkdómum. Átak hefur verið gert í mörgum starfsgreinum til að fyrirbyggja skaðsemi vinnuaðstæðna með bættu vinnuumhverfi. Málarar vinna með heilsusamlegri efni, eyrnahlífar eru notaðir þar sem ekki hefur verið hægt að draga úr skaðlegum hávaða, vinnustellingum skrifstofufólks hefur verið gefinn gaumur og skrifstofustólar batnað og ný gerð hárra borða og stóla er komin í skólastofur í Reykjanesbæ fyrir nemendur. Kennarar geta nú staðið uppréttir við vinnu sína og það mun stuðla að heppilegri líkamsstöðu þegar kennari ávarpar bekkinn og minnka hættu
á bakverkjum.

Kennarinn sjálfur mun aldrei geta varpað allri ábyrgð frá sér og mun þurfa að fara vel með röddina sína. Framsögn og raddbeitingu þarf að þjálfa við kennaraskóla og með reglulegu millibili verður að bjóða upp á námskeið í framsögn. Kennarar geta ekki þjálfað góða raddbeitingu nema undir handleiðslu sérmenntaðra raddþjálfara. Þeir verða að hafa góða þekkingu á góðri raddmyndun og hvernig þeir geta brugðist við
þegar rödd er að gefa sig. Þeir geta gripið til einfaldra ráða í kennslustofunni sem minnkar hættu á raddþreytu eins og að hindra ofþornun raddbanda, tala ekki meira en þörf er á, gæta að líkamsbeitingu sinni og gæta þess að hvílast og slaka vel á fyrir og eftir kennslu.

Þrátt fyrir að kennarar geri allt sem í þeirra valdi stendur, dugir það ekki alltaf til að koma í veg fyrir raddþreytu. Hönnun og bygging skóla getur verið með þeim hætti að án lagfæringa verði aldrei hægt að tryggja að kennarar komist með heilbrigðar raddir frá starfi sínu.
Mikilvægt er að ómtími sé innan marka byggingarreglugerðar og mælt er með að ómtími verði mældur í öllu kennslurými í Reykjanesbæ, jafnt í grunnskólum sem leikskólum. Ef í ljós kemur að ómtími er yfir leyfilegum mörkum er áríðandi að bætt verði úr hljóðvist kennslurýmisins.

Mæla þarf ryk og raka í lofti í skólastofum og bregðast við ef þess gerist þörf. Ef loft er þurrt og ryk er mikið í andrúmsloftinu ætti að leita orsakanna.

Draga mun úr tíðni raddþreytu hjá kennurum ef vinnuaðstæður eru góðar og raddir vel þjálfaðar. Engu að síður er ljóst að starfi kennarans mun alltaf fylgja mikið álag á röddina og í framtíðinni verða þráðlaus hljóðkerfi í skólastofum staðalbúnaður. Niðurstöður könnunar á röddum kennara í Heiðarskóla í haust, rannsóknir Valdísar Jónsdóttur talmeinafræðings á Norðurlandi og ýmsar erlendar rannsóknir sýna að grípa verður til ráðstafana strax til að forða kennurum frá krónískum raddmeinum og að nemendur, allir sem einn, geti heyrt það sem kennarinn segir.
Sumir kennarar þurfa meira á hljóðkerfum að halda en aðrir. Þráðlaus hljóðkerfi ættu að vera í stærstu skólastofunum, íþróttasölum og sundlaugum og í skólastofum fjölmennra bekkja. Einnig ætti kennurum með "litlar" raddir að standa til boða hljóðkerfi og kennurum sem eru við það að þurfa að taka sér frí frá störfum vegna raddþreytu. Kennarar sem þannig er ástatt um ættu samtímis að komast í meðferð til að ná sér góðum af raddmeinum sem gætu verið að þróast. Almannatryggingar og margir sjúkrasjóðir stéttarfélaga greiða að hluta eða að fullu talþjálfun þeirra félagsmanna sem þjást af raddmeinum.

Þráðlaus hljóðkerfi hafa verið notuð í nokkrum skólum á Akureyri og er almenn ánægja með breytingarnar, bæði meðal kennara og nemenda. (Valdís Jónsdóttir 2001)

Tæknibúnaður verður að vera vandaður og framleiddur fyrir talað mál. Ófullnægjandi búnaður er verri en ekki neitt því hann verður ekki notaður til lengdar og til að nemendur hafi full not af honum verða hljómgæði að vera góð. Hljóðnemar þurfa að vera góðir og kennara þurfa að geta valið hvort þeir vilji festa þá við barminn eða krækja á eyra þannig að hljóðneminn sé við munn. Magnarar verða að vera góðir og hátalarar geta þurft að vera allt að fjórir í stærri stofum.

Tónabúðin á Akureyrir og Paff í Reykjavík eru með góð tæki og starfsmenn þeirra hafa reynslu af að setja upp búnað í skólum. Í Heiðarskóla eru þráðlaus hljóðkerfi í íþróttasal og fjölnýtisal og þarf að kanna hvaða tíðni þessi kerfi nota. Söluaðilar sjá um samskipti við Póst- og fjarskiptastofnun en hugsanlegt er að leyfi þurfi frá þeirri stofnun.

Búnaður frá Tónabúðinni kostar á bilinu107.000 kr til 127.000 kr með æskilegasta magnaranum. Hver eining samanstendur af magnara, sendi, hljóðnema og tveimur hátölurum. Sent er út á VHF tíðni en einnig er hægt að fá leyfi fyrir UHF tíðni. Tónabúðin geta sett upp búnað í allt að 10 skólastofur.

Hljóðkerfi frá Paff í hverja kennslustofu fyrir sig kostar kr. 130.000, með fjórum hátölurum. Hægt er með hljóðkerfinu frá Paff að setja upp 16 sjálfstæðar einingar, þ.e. í 16 stofur án þess að hafa áhyggjur af truflun í aðrar stofur. Rekstrarkostnaður liggur í rafhlöðum sem eru í sendunum og endast þær í 8 tíma. Hægt er að fá hleðslurafhlöður. Þær þola fimm til sex tíma samfellda notkun og þarf því að endurhlaða þær að loknum kennsludegi.

Mælt hefur verið með að í Heiðarskóla verði gerð tilraun með þráðlaus hljóðkerfi.

A.m.k. verði keyptur búnaður í fjórar kennslustofur og reynslan verði skráð. Nokkrir kennarar hafa skipst á að nota tækin sem er í fjölnýtisalnum. Tækin voru fluttu milli kennslustofa og eru bæði kennarar og nemendur ánægðir með reynsluna og hafa verið tregir að láta hann af hendi. Undirbúa þarf slíka tilraun þannig að læra megi af reynslu kennara og nemenda og liggja þarf fyrir mat á tækjabúnaði og þjónustu söluaðila. Meta þyrfti ástand radda kennara í upphafi og í lokin, skrá raddstyrk með og án hljóðkerfis og end urtaka mat á röddum í lok tilraunatímabils. Mikilvægt er einnig að fá álit nemenda og kennarannasjálfra á kostum og göllum kerfisins. Á slíkum gögnum og reynslu annarra væri síðan hægt að byggja frekari ákvörðunartöku um kaup á búnaði í aðra skóla. Dr. Valdís Jónsdóttir talmeinafræðingur á Akureyri hefur boðist til að aðstoða okkur og miðla af reynslu sinni.

LOKAORÐ

Raddheilsa margra kennara er bágborin og í sumum tilfellum svo slæm að kennarar eiga í erfiðleikum með að stunda vinnu sína. Í grein þessari er bent á ýmsar afleiðingar fyrir kennarann sjálfan, vinnuveitandann og nemendur.
Tillögur eru gerðar um úrbætur og eru þær allar jafn mikilvægar. Tillögurnar eru eftirfarandi:

  • kennarar fari vel með röddina sína og beiti henni af kunnáttu. Mælt er með að þeir sæki reglulega framsagnarnámskeið og viðhaldi færni sinni með æfingum.
  • vinnuveitandinn láti taka út skólastofur og lagfæri það sem ábótavant kann að reynast þannig að vinnuaðstæður séu í samræmi við 8. kafla byggingarreglugerðar og heilbrigðisreglugerðir
  • þráðlausu hljóðkerfi verði komið í nokkrar skólastofur. Raddheilsu kennara má bæta og hægt á að vera að fyrirbyggja raddþreytu. Margartalandi stéttir hafa brugðist við raddþreytu og gripið til ráða sem hafa dugað. Í flestum kirkjum landsins eru nú komin hljóðkerfi, margar líkamsræktarstöðvar bjóða leiðbeinendum sínum upp á hljóðkerfi, símaverðir nota höfuðbúnað sem tengdur er símatækinu og fundarsalir eru flestir búnir hljóðkerfum. Afleiðingar raddvandamála eru grafalvarlegar fyrir einstaklingana sjálfa, atvinnurekandann sem og viðskiptavinina.

Raddþjálfun hefst vanalega seint á lífsleiðinni og oft ekki fyrr en í óefni er komið. Við ættum að læra á unga aldri að hafa góða stjórn á röddinni. Börnum ætti að kenna að leika sér með rödd sína, rannsaka möguleika hennar og kenna þeim að hrópa og kalla þannig að slíkt skaði ekki röddina.

Allir leikskólakennarar ættu að fá öfluga raddþjálfun í námi sínu þannig að þeir hafi fullt vald yfir henni í erfiðustu aðstæðum. En þeir þurfa ekki eingöngu þessa þjálfun til að geta varðveitt eigið heilbrigði heldur einnig til að geta kennt börnum strax á unga aldri góða meðferð raddar.

Kristinn Hilmarsson talmeinafræðingur á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.

Heimildir

  • Benninger, M.S. (1995) Voice Dysfunction in the Brodcasting Professional. American Journal of Speech-Language Pathology; 4 (1): 8-10.
  • Byggingarreglugerð nr. 441 / 1998.
  • Fritzell, B. (1996) Voice disorders and occupations. Logopedics Phoniatrics Vocology; 21 (1): 7-12.
  • Morton, V. og Watson, D.R. (1998) The teaching voice: problems and perceptions. Logopedics Phoniatrics Vocology; 23 (3): 131 ? 139.
  • Morton, V. og Watson, D.R. (2001) The impact of impaired vocal quality on children's ability to process spoken language. Logopedics Phoniatrics Vocology; 26 (1): 17-25.
  • Sihvo, M. o.fl. (1999) Effects of ergonomic and environmental factors on phonation at a low pitch. Logopedics Phoniatrics Vocology; 24 (2): 84-91.
  • Titze, I.R. (1999) Toward occupational safty criteria for vocalization. Logopedics Phoniatrics Vocology; 24 (2): 49-54.
  • Valdís Jónsdóttir (2001) Kennarar! Heyra nemendur til ykkar? Skólavarðan Málgagn Kennararsambands Íslands; 1 (2): 12 ? 13.