Fréttir

Öryggisráðstafanir við vinnu á efnisflutningabifreiðum ?búkollum?

9.8.2007

Á síðustu þremur árum hafa orðið tvö dauðaslys og eitt alvarlegt slys við vinnu á svokölluðum búkollum. Tvö þessara slysa urðu með þeim hætti að bifreiðunum var ekið aftur á bak við losun á efni. Í öðru tilvikinu lenti bifreiðin út af vegbrún og rann þaðan niður mikinn halla. Í hinu tilvikinu lenti bifreiðin fram af brún jarðvegshaugs og rann þar niður stórgrýttan halla. Í báðum tivikum stukku eða köstuðust ökumenn bifreiðanna út úr stjórnhúsi þeirra með þeim afleiðingum að þeir lentu undir þeim og létust af völdum áverka sem þeir hlutu.
Þriðja slysið varð með þeim hætti að bifreiðinni hafði verið bakkað upp brattan vegslóða við losun á efni þegar hún rann af stað niður vegslóðann og síðan út af honum uns hún stöðvaðist á jarðvegsbarði. Ökumaður bifreiðinnar kastaðist út stjórnhúsinu og slasaðist alvarlega.

Við tæknilega skoðun bifreiðanna kom m.a. eftirfarandi í ljós:
? Hemlar þeirra voru í lélegu ástandi og í einu tilviki reyndist hemlunargetan nánast engin.
? Öryggisbelti bifreiðanna höfðu ekki verið notuð og báru þess merki að hafa ekki verið notuð að staðaldri.

Mat Vinnueftirlitsins er að rekja megi orsakir þessara slysa til eftirtalinna atriða:
? Hemlar bifreiðanna voru í lélegu ástandi.
? Öryggisbelti bifreiðanna voru ekki notuð.
? Hugsanlega hafi verið stokkið út úr bifreiðum í tveim tilvikum í stað þess að sitja áfram í stjórnhúsinu.
? Ekki lá fyrir áhættumat og áætlun um forvarnir varðandi viðkomandi verkþætti.

Ljóst er að veruleg hætta getur skapast ef ítrustu öryggisráðstafana er ekki gætt við þessa vinnu þar sem hafa þarf m.a. eftirfarandi í huga:

? Að fylgst sé stöðugt með því að allur öryggisbúnaður bifreiðanna sé í fullkomnu lagi og þær jafnframt skoðaðar reglubundið af skoðunarstofu eins og reglur mæla fyrir um.
? Að ökumenn þeirra noti öryggisbelti.
? Að við losun á efni fram af háum köntum eða brúnum verði sturtað í öruggri fjarlægð og notuð hentug tæki til að jafna út efninu eða jafngildar ráðstafanir gerðar.

Vinnueftirlitið vill jafnframt benda á ábyrgð atvinnurekenda lögum samkvæmt um að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem m.a. felur í sér mat á áhættu og áætlun um forvarnir.