Fréttir

Öryggisráðstafanir við löndun á bræðslufiski og vinnu í hráefnisgeymum og hráefnisþróm.

12.2.2009

·        Atvinnurekandi skal tryggja að íslenskir og erlendir starfsmenn séu upplýstir um þær hættur sem fylgja þessum verkum þannig að þeir geti unnið störf sín á öruggan hátt. Ganga verður úr skugga um að erlendir starfsmenn hafi skilið þá fræðslu og leiðbeiningar sem þeir hafa fengið.
 
·        Jafnframt skal atvinnurekandi tryggja að starfsmenn annarra fyrirtækja, sem hafa með höndum verk innan fyrirtækis hans, hafi í raun fengið viðeigandi leiðbeiningar um áhættu er varðar viðkomandi verkþætti. Sama á við hafi atvinnurekandi undir stjórn sinni starfsmenn frá starfsmannaleigu eða öðrum atvinnurekanda.
 
·        Vinnueftirlitið vill jafnframt benda á að atvinnurekendi ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlum um öryggi og heilbrigði á vinnustað áður en hafist er handa við þá verkþætti sem um ræðir hverju sinni. Slík áætlun skal m.a. fela í sér áhættumat og áætlun um forvarnir Hvorutveggja skal fylgt eftir og kynnt fyrir starfsmönnum á fullnægjandi hátt, sbr. ákvæði 65. og 66. gr. vinnuverndarlaganna nr. 46/1980 og ákvæði reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnu­stöðum.
 
Í samræmi við reglur nr. 429/1995 um öryggisráðstafanir við vinnu í lokuðu rými skal gera nauðsynlegar öryggisráðstafanir og vinnan skipulögð, undirbúin og framkvæmd þannig að hún ógni ekki öryggi og heilsu starfsmanna. Þær ráðstafanir fela m.a. í sér að atvinnurekandi eða annar sem hann tilnefnir gefi heimild til vinnu í geymum, þróm og lestum skipa áður en vinna hefst. Heimildin er bundin eftirfarandi skilyrðum:
 
·        Rýmið skal hafa verið loftræst og loftræsting tryggð allan tímann sem vinna fer fram.
 
·        Mæla skal súrefni og gas í rýminu við upphaf vinnu.
 
·        Nota skal viðeigandi persónuhlífar.
 
·        Viðkomandi starfsmenn skulu búnir öryggisbelti með línu.
 
·        Stöðug vakt skal vera yfir þessum starfsmönnum og reglur um samskipti vaktmanns við þá ljósar.
 
·        Búnaður skal vera fyrir hendi til að ná mönnum upp.
 
Leitast skal við að haga vinnu þannig að sem minnst þurfi að fara ofan í lestar og þrær eða inn í geyma.
 
Á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is, er að finna viðkomandi lög, reglur og reglugerðir.
 
Undir flipanum Gagnabrunnur ? áhættumat á heimasíðunni eru ýmsar leiðbeiningar og upplýsingar sem að gagni mega koma við gerð áhættumats og skipulagningu forvarna.