Fréttir

Örugg viðhaldsvinna

1.11.2010

Hættur sem leynast við þessi störf eru margvíslegar. Slysahættur koma fyrst upp í hugann en undanfarin ár er ljóst að vinna í mannvirkjagerð hefur verið hvað áhættusömust meðal íslenskra starfa. Í viðhaldsvinnu geta leynst óvæntar slysahættur, t.d. fallhættur vegna þess að leyndar gryfjur eru til staðar, sem framkvæmdaaðilum er ekki kunnugt um eða að frágangur á styrktarbitum var með öðrum hætti við upphaflega gerð en nú tíðkast og kemur á óvart. Þá leynist oft í þessum mannvirkjun asbest sem hefur verið notað til að einangra þau hvort sem er frá kulda utandyra eða frá hita sem stafar af ýmsum tækjum og búnaði. Asbest er hættulegt efni þegar unnið er með það og þeir sem það gera eru í hættu að fá áratugum seinna fleiðruþekjuæxli, steinlunga og lungnakrabba auk annarra illkynja sjúkdóma. Frá stofnun Vinnueftirlitsins hafa 139 einstaklingar látist í vinnuslysum og fleiri en 40 látist vegna fleiðruþekjuæxlis, en eina þekkta orsök þess er vinna við asbest. Ætla má að dauðsföll vegna annarra sjúkdóma sem rakin eru til asbests séu ekki færri.
Það er ljóst að markmið með vinnu okkar er vellíðan og velmegun, til þess að ná því þurfum við að þekkja hættur í umhverfi okkar. Vinnueftirlitið hvetur því alla, verktaka, iðnaðarmenn, byggingarfulltrúa, heilbrigðisfullrúa og aðra þá sem koma að viðhaldsvinnu að vera vakandi fyrir slysahættum jafnt sem og hættum vegna efna og búnaðar.