Fréttir

Örtækni, gullin tækifæri, en...

10.9.2008

Á fundi yfirlækna vinnuverndarstofnanna á Norðurlöndum þann 27. og 28. ágúst 2008 varð veruleg umræða um s.k. nanótækni eða örtækni sem er vaxandi að umfangi bæði gagnvart vinnustöðum og almenningi. Örtækni er breitt svið þar sem örsmáir hlutir eru búnir til með því að raða saman fáum eða jafnvel einu lagi af frumeindum (atómum). Unnið er að þróun tækninnar sem gefur gífurlega möguleika  í framleiðslu tækja eða búnaðar þar sem efni, hvort sem er þræðir, rör eða annað, eru á nanó (10-9  m) stærðarskalanum, venjulega á bilinu 1 til 100 nm á þykkt. Þegar er hafin iðnaðarframleiðsla á hlutum með örtækni

Miklar vonir eru bundnar við tæknina bæði til almenningsnota og þróaðri nota, s.s.á sviði rafeindatækni, líf- og læknisfræði. Með þessari tækni verða til tæki sem eru firnasterk en jafnframt létt og/eða örsmá. Í dag eru til mörg dæmi um notkun örtæknihluta, sem almenningur kemur í snertingu við, t.d. í bifreiðum, farsímum, íþróttavörum og jafnvel fatnaði.

Heilsufarsáhyggjur hafa fyrst og fremst tengst framleiðslu þessara efna úr ótengdum efnaeindum sem geta komist inn í líkama manna gegnum öndunarveg, meltingarveg eða jafnvel við snertingu.  En það sem sérstaklega hefur gert það að verkum að stofnanir með sambærilegt hlutverk og Vinnueftirlitið hafa ákveðið að fylgjast með þróun þessara mála er að upp eru komnar vísbendingar í músatilraunum um að kolefnisörþræðir geti haft áhrif sem svipar til áhrifa asbests. Þetta kallar fram spurningar um hvort hætta sé á því að ákveðnir nanóþræðir geti verið krabbameinsvakar og framkallað fleiðruþekjuæxli.

Ljóst er að það er allra hagur að hægt sé að nýta örtækni til hagsbóta fyrir einstaklinga og samfélag. Vinnueftirlitið mun fylgjast með þessari þróun  og vera vakandi yfir þeim áhættum sem nýrri tækni fylgir og hvetur jafnframt þá sem vinna í þessum spennandi geira að fylgjast vel með framvindu mála þannig að greina megi rétt hættur sem  geta stafað af þessu. Með þeirri leið má hámarka ávinning sem í þessari tækni getur falist.

Hér fyrir neðan má finna nokkra tengla inn á þetta efni

Kristinn Tómasson, dr.med
Yfirlæknir Vinnueftirlitsins

1. Occupational Medicine Implications of Engineered Nanoscale Particulate Matter: Lawrence Berkeley National Laboratory 2008 http://repositories.cdlib.org/cgi/viewcontent.cgi?article=6203&context="lbnl

2. Nanotechnology, risk and the environment: a review.J Environ Monit. 2008 Mar;10(3):291-300. Epub 2008 Feb 14. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/18392270

3. Carbon nanotubes introduced into the abdominal cavity of mice show asbestos-like pathogenicity in a pilot study. Nat Nanotechnol. 2008 Jul;3(7):423-8. Epub 2008 May 20. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/18654567?ordinalpos=1&itool="EntrezSystem2.PEntrez.Pubmed.Pubmed_ResultsPanel.Pubmed_RVDocSum

4. CDC Approaches to Safe Nanotechnology:An Information Exchange with NIOSH 2008

5. Measurement of the physical properties of aerosols in a fullerene factory for inhalation exposure assessment.J Occup Environ Hyg. 2008 Jun;5(6):380-9. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/18401789?ordinalpos=8&itool="EntrezSystem2.PEntrez.Pubmed.Pubmed_ResultsPanel.Pubmed_RVDocSum

6. Schulte P, Geraci C, Zumwalde R, Hoover M, Kuempel E.Occupational risk management of engineered nanoparticles. J Occup Environ Hyg. 2008 Apr;5(4):239-49. Review. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/18260001?ordinalpos=9&itool="EntrezSystem2.PEntrez.Pubmed.Pubmed_ResultsPanel.Pubmed_RVDocSum