Fréttir

Opnun Evrópsku vinnuverndarvikunnar 2004

29.4.2004

Byggjum á öryggi

Evrópska vinnuverndarstofnunin í Bilbao stendur árlega fyrir Evrópsku vinnuverndarvikunni. Þetta sameiginlega átak 31 Evrópuþjóðar verður vikuna 18.-22. október nk. Markmiðið með vinnuverndarvikunni er að vekja athygli manna á ákveðnum þáttum í vinnuumhverfinu í þeim tilgangi að gera vinnustaðina heilsusamlegri og öruggari.Vinnueftirlitið sér um framkvæmd verkefnisins hér á landi.

Að þessu sinni beinist kastljósið að byggingarstarfsemi. Er þetta í fyrsta skipti sem vinnuverndarvikan er tileinkuð sérstakri atvinnugrein þar sem starfsemin er skoðuð allt frá hönnunarstigi byggingar. Í hin fjögur skiptin, sem vinnuverndarvikan hefur verið haldin, hefur hún beinst að sérstökum vinnuverndarþáttum eins og bakverk, vinnuslysum, streitu ? og á síðasta ári hættulegum efnum.

Opnun vinnuverndarvikunnar 30. apríl

Undirbúningur vinnuverndarvikunnar hefst 30. apríl með formlegri setningu hennar í Dublin á Írlandi en Írar hafa tekið við forystu í Evrópusambandinu. Allar þátttökuþjóðirnar hefja þennan dag undirbúning vinnuverndarvikunnar hver í sínu landi. Af þessu tilefni eru fyrirtæki  í byggingariðnaði hvött til að beina sjónum sínum sérstaklega að því að bæta öryggi, hollustuhætti og aðbúnað á vinnustöðum. Framundan er mesti annatíminn í greininni með þeim fjölmörgu hættum sem í starfseminni felast. 

Í sjálfri vinnuverndarvikunni 18.-22. okt. nk. verður sérstök dagskrá um öryggi og aðbúnað í byggingariðnaði.

Evrópskt eftirlitsátak gegn fallslysum í byggingariðnaði 

Til viðbótar vinnuverndarvikunni er í gangi evrópskt eftirlitsátak í byggingariðnaði sem beinist m.a. að því að fækka fallslysum í greininni. Vinnuslys eru tíð í byggingariðnaði og um 40% allra vinnuslysa í þessari atvinnugrein eru fallslys. Átakið hófst á árinu 2003 en heldur áfram á þessu ári með nýju átaki sem mun standa yfir dagana 17. maí ? 17. júní en þá munu eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins heimsækja byggingarvinnustaði víða um land.

Nánari upplýsingar um vinnuverndarvikuna  og eftirlitsátakið gefa Sigfús Sigurðsson fagstjóri og Kristinn Tómasson yfirlæknir í síma 550 4600; netföng: sigfus@ver.is; kristinn@ver.is