Fréttir

Öldrunarstofnanir

24.8.2001

Könnun á heilsufari, líðan og vinnuaðstöðu á öldruarstofnunum og öldrunardeildum. Almennt hafa umönnunarstörf á öldrunarstofnunum og öldrunardeildum verið talin líkamlega erfið og mannaskipti eru tíð. Starfsmenn öldrunarstofnana og deilda kynnast vistmönnum vel vegna langvarandi samveru og hafa talsverð samskipti við aðstandendur þeirra. Starfsfólkið vinnur við þær aðstæður að oftast er ekki um bata að ræða hjá vistmönnum heldur hrörnun og dauða. Vinnuskipulag, stjórnun og samskipti við samstarfsmann, stjórnendur og vistmenn skipta miklu um líðan starfsmanna í vinnu. Mikið er verið að lyfta einstaklingum, snúa og hlúa að þeim í rúmi, baða, aðstoða við flutning á milli stóls og rúms eða baðkars. Oft er um erfiðar aðstæður að ræða vegna þrengsla, skorts á hjálpartækjum eða vegna manneklu. Til að meta heilsufar, líðan og vinnuumhverfi starfsmanna í umönnunarstörfum á öldrunarstofnunum og deildum réðst Vinnueftilitið í að gera könnun á þeim þáttum meðal allra starfsmanna í þeim störfum á öllum öldrunarstofnunum og deildum landsins með fleiri en 10 vistrými. Spurningalisti var unninn í samstarfi nokkurra starfsmanna Vinnueftirlitsins þeirra; Berglindar Helgadóttur, Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur, Hólmfríðar K. Gunnarsdóttur, Kolbrúnar Óskar Hrafnsdóttur, Kristins Tómassonar, Svövu Jónsdóttur og Þórunnar Sveinsdóttur. Þann 1. nóvember 2000 voru afhendir alls 1886 spurningalistar. Til að ná til erlendra starfsmanna sem sífellt fer fjölgandi í umönnunarstörfum voru sendir út 100 enskir spurningalistar. Tæplega 7% starfsmanna kusu að svara ekki en skil voru um 85%. Framkvæmd svona viðamikillar könnunar er tímafrek og kostnaðarsöm. Stærstu stofnanirnar styrktu verkefnið með fjárframlögum og sýnir það góðan skilning stjórnenda á þörfinni og áhuga þeirra á að bæta vinnuumhverfi og líðan starfsmanna í þessum störfum. Ljóst er að þörf er á að minnka líkamlegt og andlegt álag í umönnunarstörfum og fækka þannig fjarvistum og minnka starfsmannaveltu. Til að tryggja góða þátttöku og skil voru fulltrúar starfsmanna fengnir til liðs við Vinnueftirlitið til að dreifa spurningalistanum um sína stofnun og halda utan um að þeim væri skilað. Samstarf við starfsmenn og stjórnendur stofnananna gekk mjög vel og eiga þeir þakkir skildar fyrir. Slíkt er mjög mikilvægt til að tryggja árangur slíkrar könnunar. Verið er að ljúka gerð skýrslu um niðurstöður könnunarinnar. Niðurstöður verða kynntar stjórnendum og starfsmönnum öldrunarstofnana og deilda nú í haust. Eftirlitsátak á öldrunarstofnunum og deildum Í kjölfar könnunarinnar fór Vinnueftirlitið síðan í eftirlitsátak á þessum sömu stofnunum og deildum þar sem áhersla var fyrst og fremst lögð á að skoða aðbúnað starfsmanna m.t.t. líkamlegra áhættuþátta. Sérstaklega var verið að skoða aðgengi, rými og vinnuskipulag, sem og aðgengi að hjálpartækjum. Verkefnisstjóri var Berglind Helgadóttir og var átakið framkvæmt í vikunni 26.-30. mars 2001. Eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins í öllum umdæmum þess heimsóttu 52 öldrunarstofnanir og deildir, eingöngu þær sem hafa fleiri en 10 starfmenn. Nýtt form var haft á eftirlitsheimsóknunum. Haldnir voru fundir með yfirmönnum og fulltrúum starfsmanna í upphafi heimsóknarinnar þar sem farið var yfir þau atriði sem áhersla var lögð á í þessu átaki. Síðan var farið um stofnunina / deildina og hún skoðuð, skráðar athugasemdir og kröfur ef þörf var. Niðurstöður úr eftirlitátakinu verða birtar í næsta Fréttabréfi um vinnuvernd. Berglind Helgadóttir.