Fréttir

Óhapp í rennistiga

3.1.2013

Óhapp í rennistiga.
Nýlega varð óhapp í rennistiga í verslunarmiðstöð í Hafnarfirði þegar barn festi stígvél í stiganum en móðirin náði að losa barnið áður en alvarleg meiðsli hlutust af.
     Slys og óhöpp í rennistigum eru þekkt vandamál og er talið að tilvikin skipti þúsundum árlega á heimsvísu. Oftast sleppa menn við alvarleg meiðsli en engu að síður eru til dæmi þess að einstaklingar, einkum börn, hafi misst tær eða fingur auk þess sem til eru dæmi um enn alvarlegri tilvik. 
     Rennistigar eru stór og öflug tæki og ýmislegt sem getur farið úrskeiðis í tengslum við uppsetningu og rekstur þeirra. Má þar nefna atriði eins og viðhald og þjónustu, en þetta er búnaður sem er í gangi flesta daga og í fleiri klst. á dag og þarf því umtalsverða þjónustu og viðhald. Ef því er ekki sinnt er aukin hætta á slysum auk hærri bilanatíðni. Aðvörunarmerkingar fyrir notendur, staðsetning og merkingar neyðarstöðvunarhnappa og hegðun þeirra sem nota rennistiga skipta jafnframt miklu máli. Þar sem ekki er ávallt hægt að stjórna hegðuninni á þessum vettvangi þarf að vinna mjög markvisst að öðrum þáttum er lúta að öryggi til að koma í veg fyrir slysin. Hönnun rennistiga  og umgjörðin um þá, viðhald, rekstur og þjónusta verða að vera þannig að komið sé í veg fyrir hættu eins og frekast er unnt. 
     Við búum svo vel hér á landi að hérna er þjónusta og viðhald á þessum búnaði yfirleitt í nokkuð góðu lagi. Eigendum og rekstraraðilum er skylt að vera með skriflegan þjónustusamning við þjónustuaðila sem kemur og sinnir reglubundnu eftirliti og þjónustar og lagfærir búnaðinn eftir þörfum. Síðan er Vinnueftirlitið með árlegt eftirlit með búnaðinum og þar er m.a. innifalið að yfirfara hvort þjónustusamningur sé til staðar og að reglubundið eftirlit og viðhald fari fram.
     Alltaf má þó gera betur og í framhaldi af þessu tilviki hefur eftirlitsmaður vinnuvéladeildar Vinnueftirlitsins ásamt með sérfræðingi úr tæknideild stofnunarinnar skoðað aðstæður og umgjörð við umræddan rennistiga og fundað með rekstrar- og þjónustuaðilum. Niðurstaðan varð að utanumhald sé þar nokkuð gott og búnaður í nokkuð góðu lagi en þó var ákveðið að bæta við frekari merkingum neyðarrofa og auka merkingar hættusvæða.
     Vinnueftirlitið ítrekar að slys eru alltaf óásættanleg og eitthvað sem verður að fyrirbyggja. Í ljósi umrædds óhapps er Vinnueftirlitið því að yfirfara verklag og skoðunarhandbækur sem um búnaðinn gilda með það fyrir augum að kanna hvað sé hægt að gera umfram það sem gert hefur verið fram að þessu til að fyrirbyggja frekari óhöpp við rennistiga almennt og þá ekki eingöngu á umræddum stað.