Fréttir

Ofbeldi á vinnustöðum

31.8.2005

Ofbeldi og hótanir
Hróp og öskur, svívirðingar, hurðum skellt, steyttir hnefar og hótanir af ýmsu tagi, er slíkt ofbeldi eða eitthvað annað, og hvað þá!

Sjálfsagt verða menn seint sammála um hvort ofbeldi, í víðustu merkingu þess orðs, hafi aukist eða úr því dregið. Lengi má hugsanlega deila um mörk þess sem kalla má ofbeldi, það sem einn kallar ofbeldi kallar annar kannski leik eða stríðni.

Íslendingar hafa lengi bæði trúað því, og hugsanlega ekki að ástæðulausu, að við værum laus við margskonar ofbeldi og fólskuverk sem við heyrum af hjá stórum og fjölmennum þjóðum.  Það er þá liðin tíð og kannski hefur það aldrei verið svo.

Um nokkurt skeið hafa átt sér stað allmiklar umræður um kynferðislegt ofbelti og einelti á vinnustöðum. Þessi umræða hefur örugglega skilað árangri og gert fólki betur kleyft að skilja alvarleika þess að t.d. leggja fólk í einelti á vinnustöðum. Þá hefur umræðan um kynferðislegt áreiti örugglega orðið til þess að auðveldara hefur orðið að setja ákveðin mörk um hvað sé viðeigandi, og hvað ekki. Sjálfsagt verða seint allir sammála um hvar þessi mörk skulu liggja en opin umræða og fræðsla hefur tvímælalaust hjálpað til við að koma þessum málum í betri farveg.

Áhættuhópar líkamlegs ofbeldis
Ekki verður fram hjá því horft að á síðustu árum hafa  ýmsar stéttir ítrekað við störf sín orðið fyrir grófu líkamlegu ofbeldi þar sem stundum hefur litlu mátt muna að af hlytist alvarleg örkuml eða jafnvel dauði.  Sem dæmi má nefna að starfsmenn verslana og bankastofnanna hafa endurtekið orðið fyrir ofbeldishótunum einstaklinga sem nota hættuleg tól og tæki til að magna ofbeldishótanir sínar.

Þá þurfa t.d. leigubílstjórar iðulega að sitja undir hótunum auk þess sem fjölmörg dæmi eru um gróf ofbeldisbrot gagnvart þeim s.s. hnífstungur og barsmíðar. Bílstjórar á strætisvögnum, fólk sem vinnur á veitingahúsum og hótelum svo ekki sé talað um þá sem sinna eða þjóna fólki sem er undir áhrifum áfengis gjörþekkir ofbeldi og hótanir. Fólk sem sinnir margháttuðum störfum t.d. við aðhlynningu þeirra sem stríða við geðræn vandamál  verður endurtekið fyrir hótunum og beinum árásum. Starfsmenn margskonar meðferðastofnanna og  sjúkrahúsa  þurfa oft að vera í náinni snertingu við skjólstæðinga sína og slíkt bíður vissulega heim hættunni á að verða fyrir líkamlegu ofbeldi.  Þá mætti nefna að í almennu skólastarfi koma á hverju ári upp margvísleg ofbeldismál þar sem starfsmenn verða fyrir hótunum og beinum árásum. Af nógu væri að taka í þessu samhengi en látum þessa upptalningu nægja í bili.

Hvað er sameiginlegt
Til að byrja með má a.m.k. sjá  að þeir hópar starfsmanna sem hér voru taldir upp eiga það að mestu sameiginlegt að umgangast margt fólk og oftar en ekki fólk sem það þekkir lítið eða ekkert. Á þessu eru þó undantekningar eins og t.d. starfsmenn skóla, meðferðastofnanna og stundum sjúkrahúsa.

Með ýmsum rökum má álykta sem svo að þeir sem þurfa starfa sinna vegna að vera í mikilli líkamlegri snertingu við skjólstæðinga sína séu í hvað mestri hættu á að verða fyrir líkamlegu ofbeldi. Sérstaklega á þetta við þegar um er að ræða veika einstaklinga sem af eðlilegum ástæðum eru í litlu jafnvægi. Mörg störf eru þess eðlis að líkamleg nánd er órjúfanlegur hluti af starfinu svo því verður ekki breytt.

Ofbeldi aldrei réttlætanlegt
Einhver grófasta mynd líkamlegs ofbeldis er nauðgun. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á, að þeir sem verða fyrir slíku ofbeldi þjást oft af nánast óbærilegum andlegum sársauka svo árum skiptir. Sektarkennd og sjálfsásakanir verða stundum fyrirferðamestir í því víti sem fólk þarf að lifa í. Út úr slíku víti er nauðsynlegt að hjálpa fólki að komast.

Vægari myndir ofbeldis ef svo má segja eins og t.d. að vera barinn kalla oftar en ekki á viðbrögð sem eru í grunninn skyld þeirri upplifun sem sá er fyrir nauðgun hefur orðið. Er þá m.a. átt við sjálfsásakanir þar sem fólk fer að kenna sjálfum sér um hvernig fór. Bara ef ég hefði ekki gert þetta eða hitt osfrv. Að beita líkamlegu ofbeldi er að sjálfsögðu aldrei réttlætanlegt.

Hvað er til ráða
Þeir hópar starfsfólks sem eru í mestri hættu á að verða fyrir líkamlegu ofbeldi í störfum sínum hafa að því er best verður séð ekki átt margra kosta völ við að undirbúa sig undir það áfall sem líkamlegt ofbeldi getur orðið.

Undirbúningurinn getur verið margvíslegur og með markvissi kynningu og forvarnarstarfi má örugglega draga úr þeim skaða sem líkamlegt ofbeldi getur valdið.

Á einhverjum vinnustöðum hefur fólki verið boðið upp á stutta þjálfun sem m.a. tekur á því hvernig fólk skuli staðsetja sig þegar það t.d. reynir að ræða við reiða einstaklinga, hvernig tökum skuli beita þegar ofur æstu fólki er haldið niðri og fleira í þeim dúr. Miklu getur skipt að kunna réttu tökin og fá þjálfun í að beita þeim.

Þá er ekki síður mikilvægt að sinna þeirri hlið sem snýr að andlega áfallinu sem fólk verður fyrir, en þar liggur fyrir mikil þekking sem auðvelt ætti að vera að koma á framfæri m.a. með fræðslufundum og námskeiðum.

Það má eiginlega segja að það sem nánast glæpsamlegt athæfi að gera ekki allt sem í okkar valdi stendur til að koma á framfæri þekkingu og reynslu sem dregið getur úr sársauka og þjáningu fólks, ekki síst þeirra sem verða fyrir alvarlegum áföllum. Því ættu allir sem hafa með þessi mál að gera að gefa þessum málaflokki athygli á næstu misserum. Orð eru til alls fyrst en verkin skipta mestu máli.

Heilsa starfsmanna er lykilinn að góðum árangri.

Björn Hafberg, fulltrúi í fræðsludeild Vinnueftirlitsins