Fréttir

Óbeinar reykingar á vinnustöðum

1.2.2005

Vinnuvernd snýst um að efla og viðhalda heilsu og vellíðan jafnframt því að tryggja öryggi starfsmanna. Heilsutjón vegna reykinga, bæði andlegt og líkamlegt er öllum vel þekkt.

Samkvæmt gögnum sem áfengis ? og vímuvarnaráð lét Gallup safna 2002 þá reykja 31,7% þeirra sem eru í vinnu utan heimilis.  Mun færri námsmenn sem eru á vinnualdri reykja hins vegar eða 17,9%. Meðalfjöldi vinnustunda var svipaður eða 38 stundir hjá þeim sem ekki reykja og 40 stundir hjá reykingarmönnum. Um 26% fólks sem vinnur reglulega dagvinnu reykir en 35% þeirra sem stundar vaktavinnu. Reykingarmenn vinna oftar fasta næturvinnu eða 7 sinnum eða oftar í mánuði og er hlutfallið meðal reykingamanna þar 12 % en 7% meðal þeirra sem ekki reykja. Ef litið er til starfa þá reykja þeir áberandi mest sem vinna sem verkamenn eða einföld þjónustustörf eða milli 40% og 43 % þessara hópa. Hins vegar reykja sérfræðingar í ríkis- og einkageira minnst eða milli 12% og 13% þessara einstaklinga.

Þessu til viðbótar þá eru þeir sem eru að þjóna á veitingahúsum í enn meiri áverkan af tóbaki en vegna eigin reykinga þar sem illa hefur gengið á mörgum veitinga- og skemmtistöðum aðskilja reykrými frá öðru rými. Með tilkomu áhættumats og gagna sem sýna hættu af óbeinum reykingum þá hlýtur það að verða krafa til stjórnvalda að starfsfólki á veitingastöðum, sem og öðru starfsfólki, sé tryggt reyklaust rými, alltaf alls staðar. Í ljósi leiðbeininga og reglna er varða barnshafandi konur og konur með barn á brjósti á vinnumarkaði þá hlýtur að mega krefja vinnustaðinn um aðgerðir til að tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi til handa þessu konum sérstaklega. Á þetta hefur ekki enn reynt. Þessum konum á að tryggja sérlega heilsusamlegt vinnuumhverfi samkvæmt reglum og þá eðlilega gegn þekktustu krabbameinsvá samtímans. 

Ljóst er að vinnustaðir í heilsueflingarstarfi sínu þurfa mjög að taka tillit til þess hve reykingar eru misalgengar í mismunandi hópum starfsfólks, bæði eftir starfi og vinnutíma. Í ákveðnum hópum starfsfólks þá reykja upp undir helmingur. Þetta starfsfólk, tekur sér oftar hlé frá störfum vegna reykinga og er oftar forfallað alveg og aukreitis líklegra til að brjóta reykingabönn á vinnustöðum. Samstarfsfólk verður því fyrir beinum óþægindum vegna reykinga þessa starfsfólks vegna reyks og einnig vegna þess að það mögulega sinnir ekki starfi af fullri elju. Aðhald sem felst í banni við reykingum fyrir þá sem eru að reyna hætta er einnig mikilvæg röksemd sem margir baráttumenn fyrir minni tóbaksnotkun nota líka í þessu samhengi. 

Það er þó ljóst að í baráttunni fyrir reykleysi á vinnustöðum eins og annars staðar í vinnuvernd þá virðast þeir lægst settu á vinnustað standa höllum fæti og er því brýnt að aðgerðir í tóbaksvörnum á vinnustað taki sérstakt mið af því.

Kristinn Tómasson, Dr. Med
Yfirlæknir Vinnueftirlitsins
kristinn@ver.is