Fréttir

Nýtt veftímarit helgað rafrænu eftirliti

31.3.2003

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, félagsfræðingur hjá Vinnueftirlitinu vekur athygli á nýju veftímariti sem nefnist Surveillance and Society, sem hægt er að nálgast á slóðinni www.surveillance-and-society.org. Tímaritið mun koma út fjórum sinnum á ári og er ritstjóri þess dr. David Lyon, sem er sumum Íslendingum kunnur eftir að hann kom til Íslands í ágúst sl. sem aðalfyrirlesari á ráðstefnu norrænna félagsfræðinga. Tímaritinu er ætlað að birta vaxandi fjölda vísindagreina sem fást við þætti er lúta að rafrænu eftirliti á vinnustöðum og í þjóðfélaginu almennt.

David Lyon opnar þetta nýuppsetta veftímarit með ritstjórnargrein þar sem hann lýsir í stuttu máli út á hvað rafrænt eftirlit gengur, hvaða tilgangi það þjónar og hverjar afleiðingar þess geta orðið. Þar segir hann meðal annars að  leftirlitsrannsóknir megi sjá sem þverfaglega grein þar sem leitast er við að skilja þær stórauknu leiðir sem notaðar eru til að safna, vista, dreifa, athuga og nota persónulegar upplýsingar sem aðferð til að stjórna eða hafa áhrif á einstaklinga og hópa. Oftast er eftirlitið rafrænt og sjálfvirkt og þar af leiðandi verða persónuleg gögn sjáanleg og nýtileg stofnunum og fyrirtækjum, jafnvel þótt einstaklingarnir sem í hlut eiga viti ekki af því. Það gerir samanburð á milli manna mögulegan og varðveisla og sameiginleg einkenni geta verið mæld og vistuð. Í þessu ferli vakna margvíslegar hugmyndir um óréttlæti og sanngirni.

David Lyon telur að mikilvægt sé að hafa tvö atriði í huga þegar menn reyna að skilja síaukið rafrænt eftirlit á Vesturlöndum. Annað er hin síaukna tölvuvæðing síðastliðin 10-15 ár og hitt eru atburðirnir í Bandaríkjunum hinn 11. september 2001 sem hafa haft mikil áhrif á umræðu um öryggismál Vesturlanda.
Í fyrsta tölublaði tímaritsins má m.a. finna grein eftir Gary T. Marx sem nefnist What´s New About the ?New Surveillance?? Classifying for Change and Continuity.

Í þessari grein veltir Marx fyrir sér skilgreiningum á hugtakinu eftirlit og þeim breytingum sem átt hafa sér stað á skilningi fólks á hugtakinu, með tilkomu nýrrar tækni sem gerir rafrænt eftirlit með einstaklingum æ auðveldara. Marx bendir á að í enskri Oxford orðabók sé eftirlit þýtt sem ?nákvæm athugun á einstaklingum, einkum þegar viðkomandi er grunaður um eitthvað?. Hann telur að í dag sé eftirlit oftar skilgreint sem ?notkun tæknibúnaðar til að vinna eða skapa persónuleg gögn?. Í greininni er að finna yfirlit yfir mismunandi flokka eftirlits og aðaleinkenni þessara flokka. Yfirlitið varpar ljósi á þær miklu breytingar sem er að finna á hinu nýja og hinu hefðbundnara eftirliti.

Í lokaorðum kemur Marx inn á hugtökin réttlæti og einstaklingshyggja. Hann minnir okkur á að það sé ekkert lögmál að áunnin mannréttindi s.s. persónuvernd starfsmanna verði til staðar um alla framtíð. Baráttan fyrir slíku þurfi að halda áfram og taki sífellt breytingum meðal annars með breyttri þjóðfélagsmynd og nýjum möguleikum sem skapast til að safna upplýsingum um einstaklinga.