Fréttir

Nýtt skipurit Vinnueftirlitsins

4.4.2001

Á síðastliðnu ári var hafin heildarendurskoðun á skipiriti Vinnueftirlitsins með aðstoð ráðgjafarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers. Tilgangur verkefnisins var að vinna með stjórnendum og starfsmönnum stofnunarinnar að framsetningu nýs stjórnskipulags fyrir stofnunina. Það skyldi byggja á skýrri verkaskiptingu, og stula að mati á árangri og hafa að leiðarljósi að fjármunir stofnunarinnar nýttust sem best til þeirra verkefna sem henni er lögum samkvæmt falið að sinna. Framkvæmd var greining á verkþáttum með samtölum við stjórnendur og starfsmenn í þeim tilgangi að fá fram verkefna- og ábyrgðarskiptingu innan stofnunarinnar og kanna virkni ríkjandi stjórnskipulags. Meginniðurstaða greiningarinnar var sú að núverandi stjórnskipulag stofnunarinnar einkenndist fyrst og fremst af mjög breiðri stjórnunarspönn forstjóra. Er þetta álitið vera vegna þess að stofnunin hefur stækkað mikið á undangengnum 10 árum. Þar hefur bæði verið um að ræða fjölgun starfa í einstökum umdæmum og í vinnuvélaeftirliti og aukin sérfræðistarfsemi til stuðnings eftirlitinu og til öflunar og miðlunar þekkingar. Í kjölfarið voru eftirtaldar breytingar ákveðnar:

  • Ný Þróunar- og eftirlitsdeild tekur til starfa og annast verkefni sem áður voru hjá eftirlitsdeild, þróunar- og gæðastjóra og Tæknideild (byggingamál) en umdæmin eru nú hluti af þessari nýju deild.
  • Tæknideild er breytt þannig að byggingamálefnin eru ekki lengur þar og stjórnsýsluþáttur þrýstihylkjamála er sameinaður henni.
  • Vinnuvéladeild er nýtt heiti á fyrrum Farandvinnuvéladeild, en skoðun þrýstihylkja bætist við verkefni deildarinnar.
  • Bókasafnsfræðingur hefur verið færður undir Fræðsludeild frá skrifstofu.
  • Rannsókna- og heilbrigðisdeild tekur við af Atvinnusjúkdómadeild. Starf félagsfræðings er nú innan þeirrar deildar.
  • Skilgreindir verða staðgenglar forstjóra og allra deildarstjóra, til að tryggja aukna samfellu í störfum.
  • Yfirstjórnarfundur tekur við deildarstjórafundi, (sem var of fjölmennur). Fundurinn verður fámennari og er honum ætlað að verða markvissari en deildarstjórafundirnir voru. Því skipulagi sem stofnunin hefur tekið upp er ætlað að stuðla að þverfaglegri vinnu, enda ganga mjög mörg verkefni Vinnueftirlitsins þvert á fagdeildir. Gert er ráð fyrir því að sérhver starfsmaður tengist slíku samstarfi með einum eða öðrum hætti á hverjum tíma. Í stjórnskipulagstillögunni felst einnig að yfirstjórn stofnunarinnar þarf á hverjum tíma að leggj mat á það hvernig farið skuli með öll ný úrlausnarefni sem stofnuninni eru falin eða hún tekur að sé að leysa. Forstjóri Vinnueftirlitsins ber sem fyrr endanlega ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar eru um allt það sem varðar stofnunina og skulu stjórnendur einstakra deilda stofnunarinnar upplýsa hann, á hverjum tíma, um hvaðeina sem telst vera stefnumarkandi ákvörðun. Meginmarkmiðið með þessum breytingum er eins og fyrr segir að gera stjórnskipun stofnunarinnar einfaldari og markvissari en áður var. Sérstaklega er ætlunin að styrkja þróun og samhæfingu eftirlitsstarfsins og auka stuðning sérfræðideilda við það starf.