Fréttir

Nýjar reglur um vélar og tæknilegan búnað

16.11.2001

Nýlega hefur stjórn Vinnueftirlitsins sett nýjar reglur (nr. 761/2001) um vélar og tæknilegan búnað. Reglurnar hafa nú þegar tekið gildi og birtst í Stjórnartíðindum. Um leið féllu úr gildi reglur nr. 580/1995 um vélar og tæknilegan búnað. Reglurnar nýju voru settar til innleiðingar á nýrri tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/37/EB frá 22. júní 1998 um samræmingu laga aðildarríkjanna um vélar. Einkum var þessi nýja vélatilskipun samin vegna þess að þeirri gömlu (nr. 89/392/EBE) hafði verið breytt svo oft og í veigamiklum atriðum. Var því talið rétt til glöggvunar og hagræðingar að steypa þeirri gömlu og breytingum við hana (í þremur breytingartilskipunum) saman í einn texta einnar nýrrar tilskipunar. Í stuttu máli má segja að ákvæðin í nýju reglunum eru svo til óbreytt frá þeim gömlu en textanum (orðalagi og einstökum orðum) hefur verið verið breytt þó nokkuð til glöggvunar og hagræðingar. Viðaukanir með reglunum haldast svo til alveg óbreyttir. Þess skal getið að nýrri grein, 7. gr. varðandi tilkynnta aðila, hefur verið bætt inn í reglurnar. Fjallar þessi nýja grein fyrst og fremst um mat á þeim aðilum sem óska eftir að sjá um samræmismat samkvæmt reglunum. Löggildingarstofa mun annast þetta mat. Félagsmálaráðuneytið mun síðan tilkynna þá aðila, sem Löggildingarstofa mun e.t.v. viðurkenna skv. þessu mati, til Eftirlitsstofnunar EFTA og annarra aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Reglurnar er nú þegar hægt að skoða hér á heimasíðu Vinnueftirlitsins og prenta út.