Fréttir

Ný reglugerð um varnir gegn hættu á stórslysum vegna efna

8.3.2007

Félagsmálaráðherra hefur sett reglugerð nr. 160/2007 um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna. Markmið reglugerðarinnar er að fyrirbyggja stórslys vegna efnanna og draga úr afleiðingunum fyrir fólk og umhverfi og stuðla að öryggi á vinnustöðum. Fyrirtæki sem eru með hættuleg efni þurfa nú að tilkynna Vinnueftirlitinu  ef magnið fer yfir ákveðin mörk sem skilgreind eru í reglugerðinni (þröskuldsmagn í I. viðauka). Eldsneyti og eldfim efni, sprengifim, eitruð, ildandi (oxandi), krabbameinsvaldandi og umhverfisspillandi efni eru mögulegir stórslysavaldar. Reglugerðin leggur rekstraraðilum á herðar að gera áætlun um stórslysavarnir og öryggisstjórnunarkerfi ef magnið fer yfir lægri þröskuldsmörkin en ef það fer yfir hærri mörkin þarf að gera umfangsmeiri öryggisskýrslu, þar með talin neyðaráætlun.

Til dæmis þurfa bensín- og gasolíubirgðastöðvar með 2.500 tonn eða meir, vissar flugeldageymslur með 10 tonn og eiturefnigeymslur með 5 tonn eða starfsstöð með 0,5 tonn af krabbameinsvaldandi efnum að gera áætlun um stórslysavarnir.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar.
Sækja reglugerð nr. 160/2007