Fréttir

Ný reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum

15.11.2006

 
Ný reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum hefur tekið gildi. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að fyrir hendi sé kerfisbundið vinnuverndarstarf innan vinnustaðar. Í því felst einkum að atvinnurekandi ber ábyrgð á að koma á vinnuverndarstarfi sem tekur til fyrirtækisins í heild og allra vinnuaðstæðna sem geta haft áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna.
 
Skv. reglugerðinni ber atvinnurekanda að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem á að marka stefnu varðandi aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustaðnum. Með reglugerðinni eru ákvæði laga nr. 46/1980 um skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði, þ.m.t. áhættumat, nánar útfærð. Frá og með gildistöku reglugerðarinnar er það skilyrðislaus skylda allra atvinnurekanda að gera slíka áætlun fyrir fyrirtæki sitt.
 
Í reglugerðinni er jafnframt að finna ákvæði um tilnefningu, hlutverk og starfshætti öryggisvarða, öryggistrúnaðarmanna og öryggisnefnda í fyrirtækjum. Eldri reglur nr. 77/1982 um sama efni hafa verið felldar úr gildi.
 
Ennfremur er að finna nýmæli í reglugerðinni um skyldur atvinnurekenda sem eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað.