Fréttir

Ný reglugerð um bann við notkun asbests á vinnustöðum

31.7.2007

Félagsmálaráðuneytið hefur sett reglugerð nr. 430/2007 um bann við notkun asbests á vinnustöðum.  Markmið reglugerðarinnar er að fyrirbyggja atvinnusjúkdóma sem innöndun asbestryks getur haft í för með sér.  Eins og nafn reglugerðarinnar gefur til kynna þá er notkun asbests á vinnustöðum óheimil.  Vinnueftirlitið getur samt veitt undanþágu frá banni við notkun asbests á vinnustöðum ef um er að ræða niðurrif á byggingum, byggingarhlutum, vélum eða öðrum búnaði sem inniheldur asbest.  Til þess að Vinnueftirlitið veiti ofangreinda undanþágu við notkun asbest á vinnustöðum þá þarf að uppfylla ákveðinn skilyrði sem koma fram í reglugerðinni, t.d. notkun öndunargrímna, ákveðnar varnir gegn rykmengun, notkun hlífðarfatnaðar og skilyrði um að þeir einir megi vinna við slíkt niðurrif sem hafa gengist undir námskeið hjá Vinnueftirlitinu.  Reglugerðin kveður einnig á um það, að í þeim tilvikum sem veitt hefur verið undanþága fyrir vinnu með asbest verði að liggja fyrir mat á heilsufari allra starfsmanna áður en þeir hefja vinnu við asbest einnig kveða reglurnar á um það að atvinnurekandi skuli í samráði við Vinnueftirlitið láta fara fram mælingar á asbestryki í andrúmslofti starfsmanna.  Atvinnurekandi skal einnig halda skrá yfir þá starfsmenn í viðvarandi asbestvinnu þar sem lýst er eðli vinnu og lengd vinnutíma. 

 Sjá nánar reglugerð nr. 430/2007 um bann við notkun asbests á vinnustöðum.

 Samhliða setningu þessarar reglugerðar þá falla úr gildi reglur nr. 379/1996, um asbest.

 Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar.