Fréttir

Ný rannsókn: LÍÐAN Í VINNUNNI hjá þeim sem hafa greinst með krabbamein og viðmiðunarhópi

21.6.2005

Rannsóknastofa í vinnuvernd, Krabbameinsmiðstöð LSH og Tryggingastofnun ríkisins taka þátt í norrænni rannsókn sem ber heitið Líðan í vinnunni hjá þeim sem hafa greinst með krabbamein og viðmiðunarhópi. Markmið rannsóknarinnar er að leiða í ljós hvaða atriði hafa áhrif á endurkomu til starfa, starfsgetu og starfsánægju þeirra sem hafa greinst með krabbamein. Spurningalistar hafa verið sendir út til beggja fyrrgreindra hópa.

Að greinast með krabbamein getur haft í för með sér ýmis áhrif á líf og lífsafkomu fólks. Tekjutap, atvinnumissir og breytingar á líðan í vinnu eru á meðal áhrifavalda. Endurkoma til starfa á vinnumarkaði, möguleikar til breytinga í starfi og starfsframi eru veigamiklir þættir í bataferli fólks eftir veikindi. Það er því mikilvægt að gera sér grein fyrir hvaða atriði hafa áhrif á endurkomu þess til starfa. Þátttaka í rannsókninni mun auka skilning á þessum þáttum og skapa grundvöll til úrbóta á vinnumarkaði fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein.

Íslendingum hefur boðist tækifæri til að taka þátt í þessari rannsókn sem fer fram á öllum Norðurlöndunum. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar, varðandi þá sem eru í viðmiðunarhópnum og ekki er vitað til að hafi fengið krabbamein, er Dr. Hólmfríður K. Gunnarsdóttur, sérfræðingur á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins og Rannsóknastofu í vinnuvernd. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar varðandi þá sem greindust með tiltekin krabbamein á árabilinu 1998-2002 er Dr. Helgi Sigurðsson, forstöðulæknir Krabbameinsmiðstöðvar LSH. Upplýsingar um einstaklinga, sem greinst hafa með krabbamein, fengust hjá Krabbameinsskránni en til viðmiðunar var valið hendingsúrtak fengið frá Hagstofu Íslands úr Þjóðskrá.

Finnska rannsóknastofnunin í vinnuvernd hefur forgöngu um rannsóknina. Rannsókn af þessu tagi hefur að því er best er vitað ekki verið gerð áður hvorki hér á landi eða á hinum Norðurlöndunum.

Þátttaka í rannsókninni er fólgin í að svara spurningalista og senda hann útfylltan til baka. Þeir sem greinst hafa með krabbamein senda listann til Dr. Helga Sigurðssonar, forstöðulæknis Krabbameinsmiðstöðvarinnar, Kópavogsbraut 5-7, 200 Kópavogur en þeir sem tilheyra hópnum sem ekki hefur fengið krabbamein senda listann til Dr. Hólmfríðar K. Gunnarsdóttur, Rannsóknastofu í vinnuvernd, Bíldshöfða 16, 110 Reykjavík. Það tekur um 15-20 mínútur að svara spurningunum.

Rannsóknin hefur hlotið umfjöllun og samþykki Vísindasiðanefndar heilbrigðisráðuneytisins og Persónuverndar. Öll meðferð gagna verður í samræmi við kröfur nefndanna.