Fréttir

Ný eftirlitsaðferð ? AÐLAGAÐ EFTIRLIT - í þróun.

14.5.2001

Hjá Vinnueftirlitinu er verið að þróa nýja eftirlitsaðferð við fyrirtækjaeftirlit. Aðferðin hefur hlotið nafnið aðlagað eftirlit og byggir á danskri eftirlitsaðferð. Nýja aðferðin mun hefjast í janúar 2002 í fyrirtækjum sem hafa 50 starfsmenn eða fleiri í 12 atvinnugreinum. Síðar verður atvinnugreinum fjölgað. Meginmarkmið aðlagaðs eftirlits eru að tryggja samræmt, kerfisbundið, heildstætt eftirlit í fyrirtækjum og að styrkja innra vinnuverndarstarf fyrirtækja. Áherslur breytast nokkuð frá því sem nú er. Rík áhersla verður lögð á virka þátttöku yfirstjórnenda og öryggisnefnda fyrirtækjanna og skipulegt innra vinnuverndarstarf þeirra. Það felur m.a. í sér að atvinnurekandi geri skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir í samvinnu við starfmenn en lagabreytinga þess efnis er að vænta innan skamms. Lagabreytingarnar byggja á EB-tilskipun nr. 89/391 og ná til allra fyrirtækja. Áhættumatið á að ná til allra þátta í vinnuumhverfinu sem geta skapað áhættu fyrir öryggi og heilsu starfsmanna. Í aðlöguðu eftirliti verður lögð áhersla á opnar, gagnlegar viðræður milli aðila og athyglinni ávallt beint að helstu vandamálunum í vinnuumhverfinu. Eftirlitsheimsóknin mun skiptast í þrjá hluta:
  • Kynningarfund með yfirstjórnendum og öryggisnefnd fyrirtækjanna. Á fundinum er innra starf fyrirtækisins rætt og metið á kerfisbundinn hátt.
  • Skoðunarferð um fyrirtækið þar sem helstu vandamál eru skoðuð og metin.
  • Lokafund þar sem niðurstaða mats á innra starfi fyrirtækisins og vinnuumhverfinu er kynnt. Matið leiðir til þess að fyrirtækið hlýtur ákveðna flokkun. Flokkarnir eru þrír og endurspegla þeir vilja og getu fyrirtækisins til að skapa gott vinnuumhverfi en segja jafnframt til um raunverulegt ástand vinnuumhverfisins. Viðbrögð og samskipti Vinnueftirlitsins við fyrirtækin ráðast af flokkun þess. Fyrirtæki í flokki 1 og 2 fá aukið sjálfstæði frá því sem nú er. Þessi fyrirtæki munu sjálf gera tímasetta áætlun um úrbætur helstu vandamála, sem send er til Vinnueftirlitsins til samþykktar. Fyrirtæki í flokki 3 fá hins vegar tímasett fyrirmæli á sama hátt og nú er gert í hefðbundnu eftirliti. Ef til staðar eru bráðavandamál í vinnuumhverfinu sem ógna öryggi eða heilsu starfsmanna er brugðist við á sama hátt óháð flokkun fyrirtækisins, þ.e. gefin fyrirmæli um tafarlausar úrbætur eða beitt þvingunaraðgerðum.. Með nýrri aðferð er lögð áhersla á innra vinnuverndarstarf fyrirtækjanna sjálfra og árangur af því, gæðastýringu í eftirliti og góðan árangur af starfi stofnunarinnar. Vinnueftirlitið mun því í framtíðinni beina kröftum sínum þangað sem þörfin er mest. Það felur m.a. í sér að fyrirtæki í flokki 3, sem hafa lakari vinnuaðstæður, verða heimsótt oftar en fyrirtæki í flokki 1 og 2 sem hafa vilja og/eða getu til að skapa gott vinnuumhverfi og vinnuaðstæður. Það er von Vinnueftirlitsins að aðferðin efli frumkvæði og verði hvetjandi fyrir bæði stjórnendur og starfsmenn til að vinna saman að heilsusamlegu og öruggu starfsumhverfi. Haldin verða námskeið hjá Vinnueftirlitinu fyrir öryggisnefndir þeirra fyrirtækja sem hefja aðlagað eftirlit og verða þau kynnt síðar á heimasíðu Vinnueftirlitsins. Einnig verður gefinn út kynningarbæklingur um nýja aðferð sem hægt verður að sækja á heimasíðuna (www.vinnueftirlit.is). F.h. Gæðaráðs VER Þórunn Sveinsdóttir deildarstjóri Þróunar- og eftirlitsdeildar