Fréttir

Notkun gasgrilla og gasbúnaður

3.6.2004

Vinnueftirlitið og Löggildingarstofa vilja koma eftirfarandi atriðum á framfæri til almennings vegna notkunar gasgrilla og annars búnaðar sem brennir gasi. 

Til þess að koma í veg fyrir slys og brunahættu af völdum gastækja er áríðandi að almenningur kynni sér vel notkunarleiðbeiningar framleiðenda og sinni eðlilegu viðhaldi. Þegar hugað er að viðhaldi eða kaupum á nýjum gasgrillum, gashiturum eða öðrum tækjum sem brenna gasi er því mikilvægt að hafa eftirfarandi í huga:

1. Gasgrill sem seld eru hér á landi eiga að vera CE-merkt til staðfestingar því að tækið uppfylli lámarkskröfur Evrópska efnahagssvæðisins um öryggi.

2. Grillunum og tækjunum skulu fylgja notkunarleiðbeiningar um á íslensku. Fólki er bent á að lesa þær nákvæmlega og fara eftir þeim.

3. Eftir samsetningu gastækja s.s. gasgrilla skal gera lekaprófun með sápuupplausn á öllum gastengingum eins og lýst er í leiðbeiningum.  Sömu prófun skal framkvæma þegar skipt er um gaskút.

4. Nauðsynlegt er að endurnýja gasslöngur og þéttingar eins oft og seljandi eða framleiðandi ráðleggur. 

5. Áríðandi er að kynna sér vel reglur um frágang gashylkja og tengingar gastækja s.s. gasísskápa sem ætlaðir eru til notkunar í sumarbússtöðum.

6. Ef þú ert í vafa um hvort nægilega vel sé gengið frá gastækinu þínu eða hvort tengingar séu réttar,  hafðu þá samband við fagmann.

Nánari upplýsingar veita:

Vinnueftirlitið
Guðbrandur Árnason
g.arnason@ver.is
S: 5504600

Löggildingarstofa
Fjóla Guðjónsdóttir
fjola@ls.is
S: 510 1100