Fréttir

Norrænn verkefnishópur um lýðheilsu

14.10.2005

Norðurlöndin eru fyrirmyndir annarra þjóða varðandi lýðheilsu og velferð. Þótt réttindakerfi og örlæti sé mismunandi í þessum löndum er velferðin mikil miðað við annars staðar í heiminum, ungbarnadauði fátíður og meðalævilíkur háar.
Nefnd á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, sem hefur það verkefni að skoða félagslega áhrifaþætti heilsufars (WHO Commission on Social Determinants of Health), hafði forgöngu um að koma á fót norrænum vinnuhópi sem hefur það verkefni að varpa ljósi á hvað Norðurlöndin geta kennt öðrum þjóðum til að bæta lýðheilsu. Verkefnið heitir Norræn reynsla: velferðarríki og lýðheilsa (The Nordic Experience: Welfare States and Public Health, skammstafað NEWS). Ekki er langt síðan Norðurlandaþjóðirnar voru fátækar, barnadauði tíður og lífslíkur allt aðrar en nú á dögum. Hvað skipti mestu máli til að sá árangur næðist sem náðst hefur á Norðurlöndum? Þetta er spurningin sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin vill fá svar við.

Fræðimenn frá öllum Norðurlöndum hafa valist í verkefnahópinn en verkefnisstjórar eru Johan Fritzell og Olle Lundberg prófessorar við stofnun sem sinnir rannsóknum á jafnræði í heilsufari, CHESS (Center of Health Equity Studies) og tengist Stokkhólmsháskóla og Karólínsku stofnuninni.

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknastofu í vinnuvernd og rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins, situr í verkefnishópnum fyrir Íslands hönd.