Fréttir

Norræna vinnueftirlitsráðstefnan 2008

10.2.2009

Norræna vinnueftirlitsráðstefnan var haldin í Reykjavík 2.-4. júní 2008. Ráðstefnan var mjög vel sótt en þátttakendur voru alls 79 talsins frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Noregi, Svíþjóð og Íslandi. Voru þátttakendur bæði úr röðum stjórnenda, sérfræðinga og eftirlitsmanna þessara stofnanna. Ráðstefnur sem þessar eru haldnar annaðhvort ár í löndunum til skiptis og var því haldin hérlendis síðast 1998. Á slíkum ráðstefnum gefst einstakt tækifæri til að miðla reynslu og þekkingu milli Norðurlandann og mynda tengslanet sem styrkir og samhæfir starf landanna í vinnuvernd.

Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var ?Globaliseringens påverkan ? utfordringer i tillsyn och arbetsmiljöarbete? eða ?Áhrif hnattvæðingar og áskoranir í vinnuvernd?. Hrannar Björn Arnarson, aðstoðarmaður þáverandi félags- og tryggingamála­ráðherra opnaði ráðstefnuna. Fulltrúar allra norrænu vinnueftirlitanna fluttu alls 11 erindi en auk þess fluttu einn danskur gestafyrirlesari og fjórir íslenskir fyrirlesarar erindi. Farið var í heimsóknir á fjóra vinnustaði, þ.e. bygginga­fyrirtækið ÍAV, HB Granda, Hrafnistu í Reykjavík og Landspítalaeldhúsið, til að kynnast vinnuumhverfi og aðstæðum erlendra starfsmanna á Íslandi. Í kjölfarið skiptust þátttakendur í vinnuhópa, þar sem fjallað var um stöðuna og sérstakar áskoranir í þessum starfsgreinum í löndunum og hvað löndin gætu lært hvert af öðru. Öll erindi og niðurstöður hópvinnu hafa verið gefin út í ráðstefnubók, sem er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins.