Fréttir

NIVA, Norræni vinnuverndarskólinn 25 ára

1.10.2007

NIVA, sem er ein af stofnunum Norrænu ráðherranefndarinnar hélt upp á 25 ára afmæli sitt 27.september s.l. Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar heimsótti stofnunina og um kvöldið var haldinn afmælisfundur. Skrifstofa NIVA er á finnsku vinnuverndarstofnuninni, sem er ein af stærstu rannsóknarstofnunum í heimi á sviði vinnuverndar. Markmið stofnunarinnar er að vera fræðasetur eða skóli fyrir þá sem vilja afla sér þekkingar á sviði vinnuverndar. Á hverju ári heldur fræðasetrið 10 til 16 námskeið á sviði vinnuverndar. Námskeiðin eru opin öllum, en einkum miðuð við þá sem hafa grunnþekkingu á sviði vinnuverndar, eru í starfi sem tengist vinnuvernd, eða eru í háskólatengdu framhaldsnámi í vinnuvernd eða tengdum greinum. Stofnunin er ein sinnar tegundar í Evrópu, þar sem nokkur lönd sameinast um að kalla saman helstu sérfræðinga á sviði vinnuverndar til þess að halda námskeið um hin margvíslegu fræðasvið sem sérfræðingar þurfa að hafa á valdi sínu þegar verið er að meta áhrif vinnu á heilsu, öryggi og vellíðan. Námskeiðin hafa fram að þessu staðið í eina viku, en stefna stjórnar NIVA er að auka framboð á styttri námskeiðum. Þegar horft er til sögu NIVA þá hefur árangur stofnunarinnar ekki einvörðungu verið sá  fróðleikur sem nemendurnir hafa tekið með sér af námskeiðunum, heldur ekki síður sá að stór hluti þeirra ríflega 300 nemenda sem sótt hafa námskeiðin, hafa komist í tengsl við sérfræðinga, úr hópi nemenda og kennara á sviði vinnuverndar bæði frá Norðurlöndunum og  öðrum löndum. Vinnueftirlitið, er virkur þátttakandi í stjórn skólans og hefur nokkur fjöldi Íslendinga notið góðs af námskeiðum sem skólinn hefur haldið.  Af þessu tilefni vill Vinnueftirlitið hvetja alla þá sem hafa áhuga á vinnuvernd og tengdum greinum að skoða heimasíðu skólans, www.niva.org þar sem hægt er að leita frekari upplýsinga.

Kristinn Tómasson, dr.med.
Yfirlæknir Vinnueftirlitsins