Fréttir

Niðurstöður úr eftirlitsátaki í byggingariðnaði í september 2003

5.11.2003

Kröfur gerðar um úrbætur á 65% byggingarvinnustaða

Vinnueftirlitið tekur þátt í Evrópsku eftirlitsátaki á byggingarvinnustöðum sem fram fer árin 2003 og 2004. Alls taka 17 þjóðir þátt í átakinu þ.e.a.s. öll 15 aðildarríki Evrópusambandsins auk Íslands og Noregs sem eru aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Átakið er framkvæmt samtímis í öllum löndunum. Fyrsti hluti átaksins fór fram í júní 2003 og hafa þegar verið birtar niðurstöður úr því átaki. Næsti hluti og sá seinni sem framkvæmdur er á árinu 2003 fór fram 8. til 19. september. (sjá nánar skýrslur neðar á síðunni, grein um átakið og sérstakan kynningarbækling).

Í átakinu í september var skoðað m.a. sérstaklega hvernig staðið var að fallvörnum t.d. á vinnupöllum, þökum, umhverfis göt í gólfi og alls staðar þar sem hætta er á falli. Metið var hvernig verktakar standa að vali, notkun og viðhaldi tækja og búnaðar og hvernig verktakar velja sér undirverktaka.

Einnig var sérstaklega skoðað hvernig verkkaupar og verktakar standa sig í að uppfylla kröfur sem fram koma í reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum. Í því sambandi voru eftirfarandi atriði skoðuð:

 • hafði samræmingaraðili öryggis- og heilbrigðismála verið skipaður
 • hafði verið gerð öryggis- og heilbrigðisáætlun
 • hafði byggingarframkvæmdin verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins
 • var öryggis- og heilbrigðishandbók fyrirliggjandi.

Helstu niðurstöður átaksins í september voru eftirfarandi:

 • heimsóttir voru 92 byggingarvinnustaðir í öllum umdæmum
 • starfsmannafjöldi á þessum 92 byggingarvinnustöðum var alls 1335
 • fjöldi verktaka og undirverktaka á þessum 92 byggingarvinnustöðum var alls 277
 • gerðar voru skriflegar kröfur um meiri eða minni úrbætur hjá  60 af þessum 92  byggingarvinnustöðum sem gerir 65% staða
 • vinna var bönnuð á 2 stöðum
 • öryggis- og heilbrigðisáætlanir vantar á u.þ.b. 43% byggingarvinnustaða
 • byggingarvinnustaðir með fleiri en 50 starfsmenn uppfylla kröfur best.

Hér fyrir neðan má sjá niðurstöður átaksins. Skilað var skýrslu eftir stærð fyrirtækja, en stærðarflokkarnir eru fyrirtæki með 1-5 starfsmenn, 6-20, 21-50 og fleiri en 50 starfsmenn. Einnig er skýrsla þar sem sjá má útkomuna hjá öllum fyrirtækjum samanlagt.

 • Öll fyrirtæki
 • Fyrirtæki með 1-5 starfsmenn
 • Fyrirtæki með  6-20 starfsmenn
 • Fyrirtæki með 21-50 starfsmenn
 • Fyrirtæki með  >50 starfsmenn

Átakið heldur áfram árið 2004. Jafnframt verður Evrópska vinnuverndarvikan 2004 tileinkuð byggingariðnaði.