Fréttir

Niðurstöður rannsóknar meðal starfsfólks í bönkum á Íslandi

29.11.2010

Í rannsókninni var kannað hvort líðan starfsfólks bankanna væri ólík eftir því hversu miklum breytingum vinnuumhverfi þeirra hafði tekið. Þannig var kannað hvort starfsfólk sem starfar í deild þar sem uppsagnir höfðu átt sér stað og/eða þeir sem höfðu upplifað breytingar á starfi sínu væri líklegra til að finna fyrir vanlíðan í starfi en aðrir starfsmenn bankanna.
Niðurstöður sýndu að þeir sem störfuðu í deildum þar sem samstarfsfólki hafði verið sagt upp, þeir sem höfðu verið fluttir milli deilda og þeir sem höfðu lækkað í launum voru líklegri til að upplifa vanlíðan í kjölfar falls bankanna og hafði þá verið tekið tillit til bakgrunnsþátta eins og aldurs, kyns, hjúskaparstöðu, menntunar og starfi innan bankanna.
Þennan mun á líðan starfsfólks eftir því hversu miklar breytingar urðu á starfsumhverfi í kjölfar fallsins, var ekki hægt að skýra með því að aukið álag hefði skapast í störfum þess, að þeir berðu minna traust til stjórnenda, hefðu minna sjálfræði í starfi eða upplifðu vinnuandann verr en aðrir. Hins vegar var hægt að skýra aukna vanlíðan þeirra sem störfuðu í deildum þar sem samstarfsfólki hafði verið sagt upp út frá því að þeir mátu starfsöryggi sitt verra en aðrir.
Niðurstöður þessar eru samhljóma erlendum rannsóknum sem endurtekið hafa sýnt fram á að niðurskurður eða endurskipulagningar á vinnustöðum geta haft áhrif á líðan og heilsu starfsfólks til hins verra. Slíkar breytingar geta t.d. leitt til þess að aukið álag verði á starfsfólki, starfsánægja þverr sem og hvatning í starfi og síðast en ekki síst getur það ýtt undir óöryggi í starfi og ótta við að missa starf sitt. Ef ekki er unnið markvisst að því að draga úr neikvæðum áhrifum niðurskurðar eða endurskipulagninga getur það haft langvarandi afleiðingar fyrir heilsu og líðan starfsfólks. Niðurstöður þessar undirstrika því mikilvægi vinnuverndar og þess að vinna markvisst að því að koma í veg fyrir áhættuþætti í starfsumhverfi svo útiloka megi neikvæðar afleiðingar fyrir vinnuumhverfi og starfsfólk.