Fréttir

Neyðarstopp er ekki hlíf!

16.10.2012

Neyðarstopp er ekki hlíf! Það segir sig sjálft, eða hvað...? Hlíf getur reyndar verið ýmislegt, föst hlíf eða færanleg, færanleg og rofatengd, ljósagirðing (fótóselluvörn), nándarskynjari o.fl., o.fl. Allt hefur þetta þann tilgang að tryggja að ekki sé hægt að komast í snertingu við t.d. hættulega hluti á hreyfingu. Neyðarstopp gerir það hinsvegar ekki þó það vissulega stöðvi hreyfingu þessara hættulegu hluta þegar neyðarstoppið er virkjað og geti þannig komið í veg fyrir slys.
Við síðustu breytingar á vélatilskipun ESB sem innleiddar voru hér á landi með reglugerð um vélar og tæknilegan búnað í lok ársins 2009 var sérstaklega hnykkt á þessu atriði, þ.e. því að neyðarstopp er ekki hlíf. Reglugerðin gerir ráð fyrir að hlífarbúnaður sé notaður til að fyrirbyggja snertingu, t.d. við hættulega hluta sem eru hluti af vinnslu, sjá lið 1.3.7 í viðauka I þar sem segir m.a.:

Hreyfanlega vélarhluta skal hanna og smíða þannig að komist verði hjá allri áhættu af snertingu sem valdið gæti slysum eða, sé samt um áhættu að ræða, búnir hlífum eða varnarbúnaði.

Síðan segir varðandi neyðarstoppin, sjá lið 1.2.4.3 í viðauka I:

Neyðarstöðvunarbúnaður skal vera til viðbótar öðrum öryggisráðstöfunum en ekki koma í staðinn fyrir þær.

Þetta er breyting frá eldri reglugerðum og getur í vissum tilvikum þýtt að vélar sem hannaðar voru skv. eldri reglugerðum um vélar og tæknilegan búnað (reglur nr. 580/1995 eða reglugerð nr. 761/2001) getur þurft að uppfæra og breyta séu þær enn í framleiðslu og dreifingu. Reglugerðir eru almennt ekki afturvirkar þannig að vélar framleiddar á árinu 2009 eða fyrr heyra ekki undir reglugerðina nr. 1005/2009 og hún hefur því ekki áhrif á eldri vélar. En vélar sem framleiddar og markaðssettar eru á árinu 2010 eða síðar þurfa hinsvegar að vera þannig að þær séu varðar, t.d. með hlífum yfir hættusvæðum og ekki er nægilegt að vera eingöngu með neyðarstopp.

Framleiðendum véla og tækja er bent á að kynna sér reglugerðina um vélar og tæknilegan búnað, gerð áhættu- og samræmismats, innihald leiðbeininga og annað sem snýr að því að tryggja að búnaðurinn uppfylli þær kröfur sem gilda á EES svæðinu. Bent er á að Staðlaráð býður reglulega upp á námskeið um CE-merkingar véla og tækja í samstarfi við Vinnueftirlitið.