Fréttir

NES 2003 - Vinnuvistfræðiráðstefna með yfirskriftina Hugur og hönd í heimi tækninnar

24.7.2003

 

Norræn ráðstefna um vinnuvistfræði verður haldin á Grand Hótel í Reykjavík dagana 10.-13. ágúst nk. Ráðstefnan er haldin af Vinnuvistfræðifélag Íslands í samvinnu við Norrænu vinnuvistfræðisamtökin NES (Nordiska Ergonomisällskapet) og Vinnueftirlitið. Yfirskrift ráðstefnunnar verður Hugur og hönd í heimi tækninnar eða Mind and Body in a technological world.

  • Meðal efnis sem fjallað verður um á ráðstefnunni er áhrif upplýsingatækni á líðan starfsmanna, áhrif breytinga og hagræðingar á vinnustöðum, streita og krónískir verkir, áhættumat, þátttaka og fræðsla/þjálfun starfsmanna, hönnun út frá vinnuvistfræðilegu sjónarhorni, fjárhagslegur ávinningur af vinnuverndarstarfi, íhlutandi rannsóknir og þróun rannsókna í vinnuvistfræði, menntun í vinnuvistfræði, staða vinnuverndar og stefna til framtíðar.
  • Aðalfyrirlesarar verða frá Kanada, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Íslandi.
  • Boðið verður upp á fjölmargar fyrirlestraraðir
  • Í tengslum við ráðstefnuna verður sýning þar sem framleiðendum, seljendum og þjónustuaðilum, sem leggja áherslu á vinnuvistfræðilega hönnun og ráðgjöf, er boðið að kynna vörur sínar og þjónustu.

Markhópar ráðstefnunnar innanlands eru allir þeir sem koma að vinnuverndarstarfi fyrirtækja, hafa áhrif á vinnuumhverfi, hönnun og starfsmenntunarnám, t.d. stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja, hönnuðir, sérfræðingar á sviði heilsu, umhverfis og öryggis, skipuleggjendur starfsmenntunar og starfsfræðslu, fulltrúar samtaka launþega og atvinnurekenda og aðrir stefnumótandi aðilar á þessu sviði.

Vakin er athygli á að hægt er að skrá þátttöku á einstaka daga. Eru allir þeir sem á einhvern hátt hafa með vinnuverndarmál að gera hvattir til að nýta þetta fágæta tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um vinnuvistfræði á Íslandi.

Þórunn Sveinsdóttir formaður VINNÍS
og ráðstefnustjóri NES 2003