Fréttir

Myndbanda- og veggspjaldskeppni - Örugg frá upphafi!

22.9.2006

Myndbanda- og veggspjaldakeppni, sem er opin börnum og ungu fólki að 20 ára, verður haldin 25. sept. - 15. okt. nk. Keppnin er haldin í tengslum við árlegt átak er kallast Vinnuverndarvikan og hefur hún að þessu sinni yfirskriftina Örugg frá upphafi og er helgað ungu fólki og vinnuvernd. 

Markmiðið með keppninni er að veita börnum og ungu fólki tækifæri til að koma skilaboðum eða hugmyndum sínum á framfæri um hvaða þættir stuðla að öryggi, heilbrigði og vellíðan í vinnu og hvaða hættur geta fylgt henni. Leitað er eftir frumleika og vönduðum vinnubrögðum.

Myndband/stuttmynd

Myndbandið/stuttmyndin getur verið heimildamynd, leikin mynd eða teiknimynd, auglýsing eða fréttatilkynning - hámark 15 mínútur að lengd.

Veggspjöld

Veggspjöldin geta verið á margvíslegu formi en skulu innihalda texta sem er myndskreyttur með  ljósmyndum og eða teikningum.

Öllum velkomið að taka þátt

Myndbanda og veggspjaldakeppnin hefst 25. september og frestur rennur út 15. október til skila myndbandi og veggspjaldi til Vinnueftirlitsins. Bæði einstaklingar og hópar geta tekið þátt. Sigurvegararnir fyrir bestu veggspjöldin og stuttmyndina fá myndbandsupptökuvél í verðlaun auk þess sem fleiri glæsileg verðlaun eru í boði. 

Úrslit myndbanda- og veggspjaldakeppninnar verða kunngjörð  24. október nk. á málþingi á Grand Hóteli en upplýsinga- og fræðsluátak tengt Vinnuverndarvikunni mun ná hámarki í vikunni 23. - 27. október.

Mikilvægt er að sem flestir taki þátt virkan þátt í átakinu svo sem skólar (bæði grunn- og framhaldsskólar), íþrótta- og tómstundaheimili, félagsmiðstöðvar og aðrir er sinna málefnum barna og ungs fólks. Virk þátttaka sem flestra er grundvöllur þess að skilaboðin nái eyrum unga fólksins og þátttaka þeirra sé tryggð í keppninni.

Upplýsingaefni tengt Myndbanda- og veggspjaldakeppninni ? Örugg frá upphafi  hefur verið sent til allra grunn- og framhaldsskóla auk tómstunda- og félagsmiðstöðva.

Nánari upplýsingar ætlaðar:
Þátttakendum (nemendum)
Kennurum og leiðbeinendum
Veggspjald - Örugg frá upphafi

Í tengslum við Vinnuverndarvikuna verða skólar og vinnustaðir heimsóttir og fræðsla veitt um vinnuverndarmál. Vinnueftirlitið áætlar ennfremur að gefa út námsefni um vinnuvernd, ætlað  9. og 10. bekk,  í október nk. í samstarfi við Námsgagnastofnun.

Sendið eða komið stuttmyndinni (stafrænu DVD formi) og veggspjaldinu til

Vinnueftirlitsins -Merkt: Örugg frá upphafi
Bíldshöfða 16
110 Reykjavík

Nánari upplýsingar veitir:

Ása G. Ásgeirsdóttir
verkefnisstjóri Vinnuverndarvikunnar 2006