Fréttir

Morgunverðarfundur 8. des. nk. í tilefni nýrrar reglugerðar um aðgerðir gegn einelti á vinnustað

6.12.2004

Ný reglugerð Aðgerðir gegn einelti á vinnustað er að líta dagsins ljós. Markmiðið með reglugerðinni er að stuðlað að forvörnum og aðgerðum gegn einelti á vinnustöðum.  Reglugerðin verður kynnt á morgunverðarfundi miðvikudaginn 8. desember kl. 8.30 til 10.00 á Grand Hóteli Reykjavík. Á fundinum verður auk þess fjallað um hlutverk Vinnueftirlitsins er varðar eineltismál á vinnustöðum og nýja rannsókn um einelti á vinnustað, vinnuskipulag og líðan starfsmanna. Loks má geta þess að nýr fræðslu- og leiðbeiningabæklingur, sem gefinn er út af Vinnueftirlitinu, um einelti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum fylgir fundargögnum. Sjá dagskrá með nánari upplýsingum um efni fundarins.

Alþjóðavinnumálastofnunin hefur vakið máls á vandamálum er tengjast einelti og öðru ofbeldi á vinnustöðum. Í félagsmálasáttmála Evrópu, 2. mgr. 26. gr., er kveðið á um rétt fólks til mannlegrar reisnar í starfi. Þar kemur fram að stuðla skuli að aukinni vitund og forvörnum gegn endurtekinni, ámælisverðri eða ótilhlýðilegri og móðgandi háttsemi sem beinist að einstökum starfsmönnum á vinnustað eða starfi þeirra.

Í íslensku reglugerðinni kemur m.a. fram að atvinnurekandi skal skipuleggja vinnu þannig að dregið sé úr hættu á að þær aðstæður skapist í vinnuumhverfi, sem leitt geti til eineltis eða annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi.

Atvinnurekandi skal gera starfsfólki það ljóst að einelti og önnur ótilhlýðileg háttsemi er óheimil á vinnustað. Atvinnurekanda ber skylda til að láta slíka háttsemi á vinnustað ekki viðgangast og skal hann leitast við að koma í veg fyrir ótilhlýðilega háttsemi sem hann fær vitneskju um, í samráði við vinnuverndarfulltrúa á vinnustaðnum þegar við á.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, fagstjóri og Svava Jónsdóttir, sérfræðingur í rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins