Fréttir

Mismunandi heilsufar starfs- og þjóðfélagshópa

15.5.2001

Erlendis hefur verið sýnt fram á það með endurteknum rannsóknum að heilsufar er mismunandi hjá ólíkum starfs- og þjóðfélagshópum og dánartíðni er hærri meðal þeirra sem hafa litla menntun, búa við lítil efni og vinna ófaglærð störf. Fram til þessa hafa tiltölulega fáar rannsóknir verið gerðar hérlendis á þessu sviði en þær rannsóknir, sem til eru, sýna að svo virðist sem Íslendingar skeri sig ekki úr öðrum þjóðum að þessu leyti. Í rannsóknum á tengslum vinnu og heilsufars hefur annars vegar verið litið til áhættuþátta í vinnunni sjálfri, hins vegar hefur starfið oft verið notað sem mælikvarði á þjóðfélagslega stöðu. Flestar rannsóknir á tengslum vinnu og heilsufars hafa verið gerðar á karlahópum. Með aukinni atvinnuþátttöku kvenna hefur vaknað áhugi á að kanna heilsufar ólíkra starfs- og þjóðfélagshópa kvenna. Þótt starfið sé notað til að afmarka hópinn beinist athygli rannsakenda ekki endilega að starfinu sem slíku heldur hópnum sem tileinkar sér þá lífshætti og býr við þær efnahagslegu aðstæður sem starfinu tengjast. Meðal þeirra rannsókna sem unnið hefur verið að á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlits ríkisins eru rannsóknir á krabbameinum og dánarmeinum iðnverkakvenna sem greiddu í lífeyrissjóð Iðju/Framsýnar á árabilinu 1975-1995/1997. Rannsóknin á krabbameinum þessara iðnverkakvenna leiddi í ljós aukna tíðni lungnakrabbameins og krabbameins í legi en krabbamein í eggjastokkum var á hinn bóginn fátítt í hópnum. Ályktað var sem svo að lungnakrabbameinið tengdist reykingum í hópnum og því talin ástæða til að hvetja iðnverkakonur til að hætta að reykja. Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Rafnsson unnu að rannsókninni en grein um niðurstöðurnar birtist í Læknablaðinu 1999;85:787-796. Rannsókn á dánarmeinum iðnverkakvenna er nú lokið. Niðurstöður benda til þess að mannslát vegna ytri orsaka (umferðaslysa, annarra slysa og sjálfsmorða) séu algengari í þessum hópi en hjá öðrum íslenskum konum. Um orsakir er ekki vitað en það væri þess virði að athuga þetta frekar. Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Kristinn Tómasson unnu að rannsókninni. Grein um niðurstöðurnar hefur verið send til birtingar.