Fréttir

Meðhöndlun epoxy efna

11.2.2008

Í vetur hafa orðið þrjú óhöpp sem Vinnueftirlitið hefur haft spurnir hafa þar sem notkun á epoxy efnum hefur leitt til verulegra einkenna sem kallað hafa á viðbrögð. Epoxy efni eru mikið notuð og viðbúið að þessi tilfelli séu ekki þau einu sem hafa orðið.
Epoxý efni ber að meðhöndla með aðgát og kunnáttu og hvetur Vinnueftirlitið þá sem nota þessi efni að kynna sér þau vel. Stutt kynning á epoxý efnum fylgir hér að neðan.

Efnið epoxý er fjölliða sem er samansett úr mörgum eins eða svipuðum grunneiningum. Þegar epoxy efnum er er blandað saman við réttan hvata (herðir) myndast hiti það verða breytingar á stöðu súrefnisatómsins innan keðjanna sem veldur því að efnið storknar og myndar harða himnu sem hlífir eða límir saman þá fleti sem það er í snertingu við.
Þessa eiginleikar epoxýefna nýta menn sér og eru epoxýefni mikið notuð í málningu og þegar þekja þarf yfirborð með sterkri hlífðarhimnu. Einnig eru epoxýefni notuð til þess að steypa úr því plast og í allskonar lím. Algengt er að epoxý efni séu notuð með resíni og herði sem kemur efnahvarfinu á stað og kallast þá epoxý resín kerfi, en að auki þá innihalda mörg epoxy efni ýmiskonar aukaefni eins og t.d. lífræna leysa, trefjagler, sand eða litarefni. Eiginleikar hins harðnaða efnis er háðir gerð epoxýefnisins, herðisins og því hvaða aukaefni og leysar eru notaðir sem íblöndunarefni í epoxýið.
Eftir að epoxíefnin eru hörðnuð eru þau nánast skaðlaus nema verið sé að meðhöndla þau á einhvern þann hátt að það verði rykmyndun, mesta hættan stafar því af efninu og herðinum áður en þeim er blandað saman. Epoxý efni og herðar geta þó með tímanum valdið ertingu og ofnæmisviðbrögðum í augum, nefi, hálsi, húðertingu og jafnvel húðofnæmi og astma.
Lífrænir leysar eru mikið notaðir sem aukaefni í epoxý blöndur og af þeim stafar annarskonar hætta en epoxýinu sjálfu. Lífrænir leysar eru mjög rokgjarnir og þarafleiðandi umhverfismengandi á vinnustað, ef menn eru útsettir fyrir gufum frá þeim í of miklu magni eða í of langan tíma getur það haft áhrif á miðtaugakerfið og aukaverkanir eins og höfuðverkur, svimi, rugl tilfinning og jafnvel meðvitundarleysi geta gert vart við sig. Þetta eru allt einkenni sem slæva dómgreind og árvekni manna og auka því til muna slysahættu.
Ef ekki er með góðu móti hægt að draga úr mengun frá epoxý efnum á vinnustað ber að nota viðeigandi persónuhlífar, öndunarhlífar og hlífðarhanskar úr réttum efnum.
Mælt með því að þeir sem vinna mikið með epoxýefni láti fylgjast með heilsufari sínu og þá sérstaklega breytingum á lungnastarfsemi og myndun húðofnæmis.

Þeim sem vilja kynna sér frekar áhrif lífrænna leysa er bent á bækling Vinnueftirlitsins " Varúð lífræn leysiefni "