Fréttir

Málþing um vestnorrænar velferðarannsóknir

1.6.2005

Á morgun 2. júní verður haldið í Norræna húsinu málþing um Vestnorrænar velferðarrannsóknir. Norrræna velferðarrannsóknaprógramið sem Norræna ráðherranefndin setti á laggirnar árið 2001 stendur fyrir þinginu. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna mun ávarpa þingið í upphafi.

Fyrirlesarar fjalla um velferðarmál á  Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.  Annars vegar verður fjallað um vinnumarkaðsmál, vinnuumhverfi og kynjasjónarmið.  Hins vegar um heilsu barna og uppeldisaðstæður þeirra.Opinber stefnumótun í vestnorrænu samhengi verður einnig til umfjöllunar.

Meðal fyrirlesara eru Ívar Jónsson prófessor sem fjallar um það hversu viðkæm efnahagskerfi smáríkjanna geta verið og áhrif þess á vinnumarkaðinn.  Anna Karlsdóttir fjallar um  stöðu kvenna í fiskeldi og áhrif þess á flótta frá landsbyggðinni.  Mariekatherine Poppel fjallar um tengsl heimilisofbeldis karla á Grænlandi við aðstæður þeirra á vinnumarkaði. Anna Karin Berglund greinir frá verkefninu ?Konur flytjast burt af landsbyggðinni en karlar eru um kyrrt?.

Geir Gunnlaugsson greinir frá styrk og veikleika í heilsufari  íslenskra barna.  Högni Debes Joensen fjallar um heilsu og velferðarmál barna í Færeyjum og sama mun Henning Sloth Petersen gera út frá stöðu grænlenskra barna. Birgir Poppel kynnir tölulegar upplýsingar um lífsskilyrði barnafjölskyldna á Grænlandi.

 

Birgir Ármannsson formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins flytur ávarp og Benedikte Thorsteinsson veltir fyrir sér stöðu velferðarmála og því hvort það sé goðsögn eða veruleiki að Grænland sé velferðarsamfélag.  Eva Sundström hefur tekið saman yfirlit um  velferðarannsóknir í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi og kynnir niðurstöður sínar í lok dagsins.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir mun í lokin taka saman viðfangsefni dagsins og Harald Nyböen formaður stjórnar verkefnisins flytur lokaávarp.