Fréttir

Lóð á vogarskálarnar - ISS Ísland og Landsvirkjun hlutu viðurkenningu fyrir samhæfingu vinnu og einkalífs

24.11.2004

Viðurkenningin Lóð á vogarskálarnar var veitt öðru sinni á ráðstefnunni Heima og heiman, samræming starfs og einkalífs í fjölmenningarsamfélagi, sem Hollvinir Hins gullna jafnvægis stóðu fyrir 17. nóvember sl. ISS Ísland og Landsvirkjun hlutu viðurkenninguna að þessu sinni.

Um 100 tilnefningar bárust sem vörðuðu alls 52 fyrirtæki, sem ýmist starfa á almennum markaði eða eru í eigu opinberra aðila. Vinnuhópur á vegum Hollvinanna fór yfir þessar tilnefningar og ákvað einróma að í ár skyldu ISS Ísland og Landsvirkjun hljóta Vogarskálarnar. Viðurkenninguna afhenti Þórólfur Árnason borgarstjóri en hún ber heitið Vogarskálin og er hönnuð af Sigurði Steinþórssyni gullsmiði. Vogarskálin er veitt fyrir framúrskarandi starf innan fyrirtækja eða stofnana í þágu þess markmiðs að auka sveigjanleika og auðvelda starfsfólki samræmingu starfs og einkalífs. Á myndinni eru frá vinstri: Jón Trausti Leifsson aðstoðarframkvæmdastjóri og Ólöf Þórðardóttir starfsmannastjóri frá ISS Ísland, Þórólfur Árnason borgarstjóri, Friðrik Sóphusson forstjóri Landsvirkjunar, Linda Rut Benediktsdóttir ritstjóri hgj.is og Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar

Bæði fyrirtækin sem unnu í ár hafa glímt við að brjóta upp gamalt vinnufyrirkomulag og hefðir hvert á sínu sviði, sem hingað til hafa verið hamlandi þegar samræming starfs og einkalífs er annars vegar. Þau hafa bæði náð að sýna fram á að samræming starfs og einkalífs er málefni sem varðar bæði almenna starfsmenn og stjórnendur og bæði karla og konur.

ISS Ísland
ISS Ísland er fjölþjóðlegt hreingerningafyrirtæki sem hefur komið upp sveigjanlegu vinnuskipulagi þar sem fyrst og fremst er fylgst með árangri og verkefnaskilum fremur en vinnutíma. Starfsfólk á því auðvelt með að haga vinnutíma í samræmi við persónulegar þarfir, hvort sem þær eiga rót í fjölskylduaðstæðum, námi með vinnu eða öðrum slíkum þáttum. Starfsánægja hefur af þessum sökum mælst mjög há. Í fjölmörgum ábendingum sem um fyrirtækið bárust var líka greint frá margháttuðum stuðningi stjórnenda og samstarfsmanna við starfsfólk, en lykilorð í öllum þeim ábendingum er ríkt traust milli starfsfólks og stjórnenda.

Landsvirkjun
Landsvirkjun hefur um árabil haldið uppi dugmiklu starfi að því auka sveigjanleika í fyrirtækinu og sett sér metnaðarfull markmið á því sviði. Þegar lýsa á ráðstöfunum Landsvirkjunar er af nógu að taka. Allt frá árinu 1999 hefur fyrirtækið unnið markvisst að því að breyta fjölmörgum atriðum í innri starfsháttum sínum til að koma til móts við kröfur nútímans um sveigjanlegra vinnufyrirkomulag, jákvæða starfsmannastefnu og virka jafnréttisstefnu sem nýtist bæði konum og körlum. Vaktafyrirkomulagi hefur verið breytt þar sem því hefur verið við komið, reglulega fylgst með viðhorfi starfsfólks og vinnustaðagreiningar verið framkvæmdar. Þar hefur verið spurt um samræmingu starfs og einkalífs og mælanlegur árangur hefur verið staðfestur. Landsvirkjun sem er fyrirtæki á tæknisviði með hátt hlutfall karla hefur með þessu starfi sýnt fram á að sé ríkur vilji fyrir hendi sem fylgt er eftir með hvatningu og aðgerðum, er hægt að ná árangri í þágu allra starfsmanna.

Hollvinir hins gullna jafnvægis
17 samtök, fyrirtæki og stofnanir eiga aðild að Hollvinum hins gullna jafnvægis, en þeir eru: Alþýðusamband Ísland, Efling stéttarfélag, Félagsmálaráðuneytið, Hugsmiðjan, IMG Gallup, Íslandsbanki hf., Jafnréttisráð, Jafnréttisstofa, Landsbanki Íslands hf., Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Samtök atvinnulífsins, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun.