Fréttir

Líkamlegt álag við vinnu - dreifibréf

25.1.2006

Líkamlegt álag við vinnu - dreifibréf


Eftirfarandi dreifibréf var sent 15. des. 2005 til atvinnurekenda og stjórnenda
fyrirtækja í veitingarekstri og fyrirtækja í öl- og gosdrykkjaframleiðslu og dreifingu

Efni: Líkamlegt álag við vinnu

Vinnueftirlitið annast eftirlit með ákvæði vinnuverndarlaganna og reglum á sviði vinnuverndar og fylgist með því að ákvæði þeirra séu haldin. Nú er aukin áhersla í eftirliti stofnunarinnar á störf sem fela í sér líkamlegt álag. Verður starfsgreinum sem fela í sér að þungum byrðum er lyft eða þær færðar úr stað sérstakur gaumur gefinn á komandi mánuðum.

Sýnt hefur verið fram á að líkamleg álagsmein eru meðal algengustu orsaka þess að fólk er frá vinnu og því brýn ástæða til að vinna að forvörnum gegn slíku.

Áhættumat er á ábyrgð atvinnurekenda

Samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað (65.gr, 65. gr.a  og 66. gr.) og  reglum nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar ber atvinnurekendum að sjá til þess að gert sé mat á áhættu í starfi með tilliti til öryggi og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfinu svo koma megi í veg fyrir heilsutjón.

Samkvæmt fyrrgreindum reglum skal atvinnurekandi gera skipulagsráðstafanir eða nota viðeigandi léttitæki, einkum vélbúnað, til að komast hjá því að starfsmenn lyfti byrðum eða færi úr stað. Þegar ekki verður komist hjá slíku skal atvinnurekandinn skipuleggja vinnuaðstæður, nota viðeigandi búnað eða sjá starfsmönnum fyrir léttitækjum til að daga úr þeirri áhættu sem felst í starfi þeirra. Jafnframt er kveðið á um það í reglunum að atvinnurekendum beri að tryggja að starfsmenn fái tilsögn í réttri líkamsbeitingu, kennslu í réttri notkun léttitækja og upplýsingar um þá áhættu sem þeir kunna að taka, einkum ef verkin eru ekki unnin rétt.

Vinnueftirlitið vill sérstaklega vekja athygli á að þar sem fleiri atvinnurekendur eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað skulu þeir sameiginlega stuðla að því að tryggja góðan aðbúnað, heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum, sbr. 17. gr. laga nr. 46/1980. Því eru eigendur veitingahúsa sérstaklega hvattir til að skoða og meta vinnuaðstæður þeirra starfsmanna sem dreifa vörum til veitingahúsa.

Fræðslubæklingur og verkfæri við áhættumat

Til að auðvelda atvinnurekendum og starfsmönnum að koma auga á hugsanlegar hættur í vinnuumhverfinu sem geta valdið heilsutjóni vegna líkamlegs álags, að meta hætturnar og að finna leiðir til úrbóta hefur verið gefin út fræðslubæklingurinn Líkamlegt álag við vinnu ? vinnustellingar, þungar byrðar og einhæfar hreyfingar.

Jafnframt hafa verið gefnir út þrír vinnuumhverfisvísar; til að auðvelda atvinnurekendum og starfsmönnum að meta vinnuna með tilliti til líkamlegs álags. Þessar vísar eru:

Bæklinginn og vinnuumhverfisvísana er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins www.vinnueftirlit.is. Bæklinginn er einnig hægt að fá hjá umdæmisskrifstofum Vinnueftirlitsins um land allt (sjá staðsetningu og símanúmer umdæmisskrifstofa á www.vinnueftirlit.is) og kostar hann 600 kr. Jafnframt er hægt að panta hann í síma 550-4600 eða í tölvupósti; vinnueftirlit@ver.is. Þeir sem óska þess að fá bæklinginn sendan skulu taka fram nafn viðtakanda, kennitölu greiðanda og heimilisfang og verður bæklingurinn sendur viðtakanda ásamt gíróseðli.


Námskeið um áhættumat

Vinnueftirlitið mun gangast fyrir námskeiðum um gerð áhættumats og forvarnir á komandi vetri. Er áhugasömum bent á að skoða heimasíðu Vinnueftirlitsins og/eða hafa samband við Inghildi Einarsdóttur hjá Vinnueftirlitinu til að fá nánari upplýsingar um þau.

Vinnueftirlitið vill hvetja atvinnurekendur til þess að hefja gerð áhættumats og áætlunar um forvarnir í fyrirtækjum sínum og beina sjónum í upphafi að líkamlegu álagi sem er einn af áhættuþáttum starfa í veitingahúsum og ölgerð og dreifingu. Eftirlitsmenn munu í væntanlegum eftirlitsheimsóknum kanna hvernig fyrirtækinu hefur miðað áfram með þá vinnu.

Viðtakendur þessa bréfs eru vinsamlega beðnir um að kynna innihald bréfsins sérstaklega fyrir öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum en einnig öðrum starfsmönnum vinnustaðarins.


Berglind Helgadóttir     
sérfræðingur í rannsókna- og heilbrigðisdeild  

Þórunn Sveinsdóttir
deildarstjóri þróunar- og eftirlitsdeildar