Fréttir

Líðan, heilsa og vinnuumhverfi starfsfólks í fjármálafyrirtækjum

14.12.2009

Í marsmánuði 2009 var gerð rannsókn meðal starfsfólks í sparisjóðum hér á landi og þeim þrem viðskiptabönkum sem teknir voru yfir af ríkinu við bankahrunið í október 2008. Þátttakendur eru allir félagsmenn í Samtökum starfsfólks fjármálafyrirtækja. Markmiðið með rannsókninni var að leggja mat á tengsl þeirra endurskipulagninga sem átt hafa sér stað í fjármálafyrirtækjunum, við líðan, heilsu og vinnuumhverfi starfsfólks. Helstu niðurstöður eru að greina má talsvert álag meðal starfsfólks fjármálafyrirtækja og er álagið mest meðal stjórnenda, sérfræðinga og þjónustufulltrúa. Streita og vanlíðan kemur einnig fram í töluverðum mæli og leggst þyngst á þá hópa sem eru undir álagi. Á hinn bóginn má einnig greina að starfsfólk hefur góðan stuðning hvort af öðru sem getur dregið úr vanlíðan og aukið á starfsánægju sem mælist svipuð í þessari könnun og hún var meðal starfsfólks í útibúum banka og sparisjóða árið 2002.

Þegar sá hópur sem hefur upplifað að gerðar hafa verið breytingar á starfi þeirra er skoðaður sérstaklega má sjá að sá hópur metur vinnuumhverfi sitt, líðan og heilsu verr en þeir sem ekki hafa orðið fyrir breytingum á starfi sínu. Þessar niðurstöður undirstrika að gæta þarf vel að vinnuverndarstarfi í fyrirtækjum á tímum efnahagsþrenginga þegar fyrirtæki þurfa að grípa til endurskipulagninga eða niðurskurðar. Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér 

Að rannsókninni stóðu Vinnueftirlit ríkisins, Samtök starfsfólks í fjármálafyrirtækjum, Háskóli Íslands og Rannsóknastofa í vinnuvernd.