Fréttir

Líðan ýmissa starfshópa

15.5.2003

Á undanförnum árum hafa verið gerðar kannanir á vegum Vinnueftirlitsins á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi fólks í mismunandi störfum. Teknar hafa verið saman helstu niðurstöður ýmissa kannana og voru þær birtar á netsíðu verkefnisins Hið gullna jafnvægi en Vinnueftirlitið er einn af hollvinum þess. Hér eru raktar helstu niðurstöður þeirra.

Kannanirnar voru gerðar í: a) leikskólum í Reykjavík, b) á öldrunarstofnunum alls staðar á landinu, c) í fjármálafyrirtækjum í Reykjavík, d) í útibúum banka og sparisjóða e) meðal flugfreyja. Með því að skoða niðurstöðurnar má gera sér nokkra grein fyrir hvaða vandamál er helst við að glíma á hverjum stað en kannanirnar eru ekki samanburðarhæfar að því leyti að mismunandi áherslur voru lagðar á ýmsa vinnuverndarþætti.

Almennt má segja að svarendur voru almennt mjög ánægðir með starf sitt, þótt það sama gilti um flesta að þeir teldu það bæði andlega og líkamlega erfitt og margir væru bæði andlega og líkamlega úrvinda að loknum vinnudegi. Starfsandi og samskipti eru víðast hvar sögð vera góð. Þegar slík svör eru skoðuð ber að hafa í huga að líklegt er að nokkur tregða sé hjá flestum að segjast vera óánægður með starf sitt og samskipti við aðra, þótt ýmislegt bjáti á, einkum ef möguleikar á breytingum eru takmarkaðir.

Leikskólar

Yngra fólkið og þeir, sem skemmst höfðu unnið á leikskólum, voru óánægðastir með ýmislegt í vinnuumhverfinu. Yngra starfsfólkið var líka meira fjarverandi frá vinnu vegna veikinda en þeir sem eldri voru. Starfsfólkið taldi starfið bæði andlega og líkamlega erfitt, oft þyrfti að lyfta þungu og vinna í óþægilegum vinnustellingum. Hávaði og óþægilegt inniloft voru tíð umkvörtunarefni. Um fjórðungur hópsins reykti. Um 14% höfðu orðið fyrir áreitni, árásum eða hótunum í vinnunni. Eftir að þessi könnun var gerð hafa verið gerðar umbætur í leikskólunum og endurtekin könnun hefur leitt í ljós að þær aðgerðir hafa skilað árangri.

Öldrunarstofnanir

Meirihluti starfsmanna sagði að starfið væri líkamlega og andlega erfitt en álagið var ólíkt eftir starfsgreinum. Sjúkraliðar og ófaglærðir í umönnum voru meðal þeirra sem oftast voru líkamlega úrvinda eftir vinnu. Meirihluti svarenda taldi starfið líkamlega fjölbreytt. Rúmlega helmingur heildarhópsins taldi starfið andlega fjölbreytt en einhæfni var mest áberandi meðal ræstitækna. Um þriðjungur alls starfsfólks reykti en um 50% ófaglærðra starfsmanna, yngri en 25 ára. Um 12% höfðu orðið fyrir áreitni, ofbeldi eða hótunum í vinnunni. Í tengslum við þessa könnun var farið í eftirlitsferðir á viðkomandi stofnanir og bent á það sem betur mætti fara.

Fjármálamarkaðir

Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og Vinnueftirlitinu. Flestir nefndu álagstoppa, streitu, tímaskort, utanaðkomandi áreiti og markaðsaðstæður það neikvæðasta í vinnunni. Meirihluti þeirra sem unnu í opnu rými taldi að það ylli streitu. Í ljós kom að samspil var á milli óþæginda vegna hávaða, innilofts og hitastigs og líkamlegrar og andlegrar líðanar starfsfólks. Í þessari könnun var ekki spurt um reykingar né áreitni í vinnunni.

Bankar og sparisjóðir

Rúmlega níu af hverjum tíu töldu vinnuálagið nokkuð eða mikið og hjá 40% var oft eða alltaf of mikið að gera. Álagið var misjafnt eftir starfshópum. Álag var m.a. vegna mannfæðar, anna kringum mánaðamót, skipulagsleysis og ónæðis. Rúmlega 80% starfsmanna unnu í opnu rými og fannst 13% það oft eða alltaf valda streitu. Fjórðungur starfsfólksins reykti. Fimmtán prósent starfsmanna höfðu orðið fyrir áreitni af ýmsu tagi í tengslum við starfið. Stærsti hópurinn hafði orðið fyrir einelti eða 8%, 5% fyrir hótunum, 2% kynferðislegri áreitni og innan við 1% fyrir líkamlegu ofbeldi.

Flugfreyjur

Þessi könnun var unnin í samstarfi við Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 2002. Miklum meirihluta flugfreyja, 75%, fannst starfið mjög eða frekar líkamlega erfitt. Það sem mesta athygli vakti í niðurstöðum þessarar könnunar samanborið við aðrar er hve stór hluti flugfreyja sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað eða tæp 40%. Rúm 30% höfðu verið áreittar kynferðislega tvisvar eða oftar, þar af tæplega helmingur fjórum sinnum eða oftar. Fjöldi þeirra, sem höfðu orðið fyrir einelti, líkamlegu ofbeldi eða hótunum á síðastliðnu ári, var á hinn bóginn svipaður og hjá konum í öldrunarþjónustunni en heldur minni en meðal starfsfólks á leikskólunum. Niðurstöðurnar eru reyndar ekki sambærilegar að því leyti að spurt var um þessa viðburði á síðustu sex mánuðum hjá flugfreyjunum en einhvern tíma hjá hinum. Þegar tekið er tillit til þessa má ætla að tölurnar hjá flugfreyjunum yrðu hærri. Yngri flugfreyjur voru fremur fjarverandi vegna eigin veikinda en þær sem voru fimmtugar eða eldri. Um 13% flugfreyja reyktu daglega.

Gagnsemi kannana af þessu tagi

Niðurstöður kannana eins og þeirra, sem hér hafa verið teknar til umræðu, varpa ljósi á vinnuaðstæður starfshópa á þeim tíma þegar kannanirnar voru gerðar. Þversniðsrannsóknir af þessu tagi geta á hinn bóginn engar upplýsingar gefið um orsakir óþæginda eða vanlíðunar. Þær eru augnabliksmyndir sem gefa vísbendingar um hvað helst þarf að bæta. Þegar úrbæturnar hafa verið gerðar er síðan vel til þess fallið að gera aftur könnun og athuga hvort aðgerðirnar hafi skilað tilætluðum árangri.

Skýrslur um niðurstöður kannana á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi starfsfólks á leikskólum, í öldrunarþjónustu og flugfreyja eru aðgengilegar á heimasíðunni (

Fréttir