Fréttir

Leiðbeiningar um öryggis- og heilbrigðisáætlun

9.5.2006

Leiðbeiningar um öryggis- og heilbrigðisáætlun
fyrir byggingarvinnustaði

Í júní 2002 gaf Vinnueftirlitið út leiðbeiningabækling sem ber heitið Öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir byggingarvinnustaði. Bæklingurinn er gefinn út í tengslum við reglur, sem tóku gildi hér á landi árið 1997, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Reglur þessar voru settar með hliðsjón af tilskipun sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Markmið reglnanna er að samræma öryggis- og heilbrigðisráðstafanir á þessum vinnustöðum. Sérstaklega er fjallað um ábyrgð og skyldur þar sem fleiri en einn verktaki er að störfum. Skilgreint er hlutverk verkkaupa, verkefnastjóra, atvinnurekenda, verktaka og samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana bæði á undirbúnings- og framkvæmdar-stigi verks.


Átak í eftirliti á byggingarvinnustöðum

Í tengslum við útgáfu á leiðbeiningunum gerði Vinnueftirlitið átak í að heimsækja byggingarvinnustaði og kynna bæklinginn fyrir starfsmönnum, verkkaupum og verktökum. Einnig var kynningarbréf sent til fjölda aðila sem tengjast byggingarstarfsemi  og athygli þeirra vakin á leiðbeiningunum. Bæklinginn er hægt að fá hjá umdæmisskrifstofum Vinnueftirlitsins um land allt.


Ábyrgð verkkaupa og skipun samræmingaraðila

Mörg ný ákvæði eru í reglunum sem ekki var að finna í eldri reglum um öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum. Í því sambandi má t.d. nefna ábyrgð verkkaupa. Með þessum reglum eru lagðar á hann skyldur sem honum ber að uppfylla við byggingarframkvæmd. Honum ber t.d. að skipa samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana bæði á undirbúnings- og framkvæmdarstigi verks. Verkkaupa ber einnig að sjá um að gerð sé öryggis- og heilbrigðisáætlun þar sem samtímis starfa tveir eða fleiri atvinnurekendur eða verktakar á sama byggingarvinnustað og starfsmenn eru fleiri en tíu. Slíka áætlun skal einnig gera ef vinna er hættuleg.


Leiðbeiningar um gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunar

Með þessum leiðbeiningabæklingi er reynt að auðvelda öllum þeim, sem vinna að byggingar- og mannvirkjagerð, að átta sig á ábyrgð sinni og skyldum við framkvæmdina. Bæklingnum er skipt upp í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er farið yfir skyldur aðila, s.s. verkkaupa og annarra sem hann hefur valið til að gegna skyldum fyrir sig, s.s. samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana. Í öðrum hluta er fjallað um gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunar, gerð grein fyrir hvernig standa skuli að gerð áætlunarinnar og hvað sé nauðsynlegt að hafa í slíkri áætlun. Í þriðja og síðasta hluta eru  sett fram dæmi um atriði sem þarf að skoða við gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunarinnar eða gátlista sem notaðir verða á byggingarvinnustað.