Fréttir

Leiðbeiningar

7.9.2006

Leiðbeiningar um heilsuvernd á vinnustað

fyrir atvinnurekendur, starfsmenn og þjónustuaðila

Drög

 

Inngangur

Hugmyndafræði heilsuverndar á vinnustað byggir m.a. á rammatilskipun Evrópubandalagsins, 89/391/EBE, frá 12. júní, 1989 (http://www.brunnur.stj.is/ees), samþykktum Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (International Labour Organisation, ILO) Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og íslensku vinnuverndarlögunum (lög nr. 46/1980 með síðari breytingum). Alþjóða vinnumálastofnunin skilgreinir heilsuvernd af þessu tagi fyrst og fremst sem forvarnarstarf og ráðgefandi fyrir vinnuveitendur, starfsmenn og fulltrúa þeirra um öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Óumdeilt er að aðstæður á vinnustað hafa áhrif á heilsuna og heilsa starfsmanna hefur áhrif á það hvernig þeir skila störfum sínum, um gagnverkandi áhrif er því að ræða (J. M. Harrington og félagar, 2000).

 

Hugtök tengd vinnuvernd

Í drögum að reglugerð um heilbrigðis- og öryggisstarf á vinnustöðum er að finna skilgreiningar ýmissa hugtaka sem við sögu koma í vinnuvernd:

atvinnurekandi, áhætta, áhættumat, forvarnir, fyrirtæki, heilsuvernd á vinnustað, starfsmaður, viðurkenndur þjónustuaðili, vinnuaðstæður, vinnustaður, öryggisnefnd, öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður (Drög að reglugerð, 2005).

Í reglugerðardrögunum er heilsuvernd á vinnustað skilgreind sem: Forvarnir byggðar á áhættumati og aðrar aðgerðir til að stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna og viðurkenndur þjónustuaðili: Aðili sem hlotið hefur viðurkenningu Vinnueftirlitsins til að veita þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis.

Við listann mætti bæta

Vinnuvernd: Allar aðgerðir sem felast í heilsuvernd á vinnustað

Vinnutengd heilsa: Heilsa sem tengist aðstæðum á vinnustað.

 

 

Heilsuvernd á vinnustað á Íslandi og í grannlöndum

Fáeinir Íslendingar hafa sérhæft sig í vinnutengdri heilsuvernd en um er að ræða sérfag sem byggir á grunnþekkingu á öðrum fræðigreinum. Grunnmenntun þeirra, sem hafa sérhæft sig að einhverju leyti á þessu sviði, er af ýmsum toga; hjúkrunarfræðingar, læknar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, verkfræðingar o.fl. Hérlendis hefur hingað til ekki verið boðið upp á sérstaka menntun á þessu sviði nema stutt námskeið. Finnar hafa náð lengst af Norðurlandaþjóðunum í þessu efni og eru reyndar alþjóðleg fyrirmynd. Þar er heilsuvernd á vinnustað mjög öflug. Finnska félagsmálaráðuneytið og Finnska rannsóknastofnunin í vinnuvernd gáfu í sameiningu út grundvallarrit um góðar aðferðir á þessu sviði á finnsku 1997 og á ensku árið 2001 (Helena Taskinen, ritstj., 2001). Finnska líkanið hefur haft áhrif langt yfir landamæri Finnlands m.a. í Noregi þar sem gæði þjónustunnar var metin sérstaklega árið 2000. Að finnskri fyrirmynd gáfu Norðmenn, árið 2003, út bæklinginn God BHT (God bedriftshelsetjeneste) sem unnt er að finna á netinu; http://www.stami.no/BHT-sekretariatet/God-BHT/ Í Svíþjóð hefur líka verið unnið mikið starf á vegum ríkisstjórnarinnar þar sem mótuð hefur verið framtíðarstefna varðandi heilsuvernd á vinnustað. (Sjá: http://www.regeringen.se/sb/d/264/a/34689). Í Danmörku er þess krafist að öll fyrirtæki og stofnanir hafi samning við eða komi á fót viðurkenndri þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Þjónustuaðilar (bedriftshelsetjenesten, BHT) verða að fá vottun DANAK (Danmarks nationale akkrediteringsorgan) http://webtool.danak.dk/Plone.

Vinnueftirlitið gaf út bæklinginn Heilsuvernd á vinnustað; Áhættumat, forvarnir og heilsuefling árið 2004. Hann má sækja á www.vinnueftirlit.is undir útgáfa.

 

Heilsuvernd starfsmanna

Í skýrslunni Heilsuvernd starfsmanna, sem Vinnueftirlitið gaf út í júní 1999, er heilsuvernd starfsmanna skilgreind sem ? ? forvarnarstarf innan fyrirtækjanna sem miðar að því að koma í veg fyrir heilsutjón vegna aðstæðna á vinnustað. Forvarnarstarfið er unnið af til þess bæru fagfólki í umboði atvinnurekenda, í samstarfi við þá og starfsmenn. Í grófum dráttum felst starfið í því að greina áhættu og skipuleggja forvarnir. Ennfremur að forgangsraða framkvæmdum sem byggja á þeirri greiningu. Heilsuskoðanir geta fallið undir starfsemina en þær eru þó ekki kjarni hennar.? (Heilsuvernd starfsmanna, 1999).

Sama skilgreining var tekin upp í flugritinu: Heilsuvernd á vinnustað sem Vinnueftirlitið gaf út í samvinnu við Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Samtök atvinnulífsins árið 2000. (Heilsuvernd á vinnustað, 2000). Í drögunum að reglugerð um heilbrigðis- og öryggisstarf á vinnustöðum er skilgreiningin eins og áður segir: Forvarnir byggðar á áhættumati og aðrar aðgerðir til að stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.

Skýrslan Heilsuvernd starfsmanna var á sínum tíma unnin af nefnd á vegum Vinnueftirlitsins, en í nefndinni sátu, auk forstjóra Vinnueftirlitsins, fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Ritari nefndarinnar var starfsmaður Vinnueftirlitsins. Einhugur aðila vinnumarkaðarins ríkti um fyrrgreinda skilgreiningu og þótt nú sé fremur talað um heilsuvernd á vinnustað eða heilsuvernd í vinnunni en heilsuvernd starfsmanna eru markmiðin hin sömu. Heilsuvernd starfsmanna leiðir hugann fremur að einstaklingsbundinni heilsuvernd vinnandi fólks, en heilsuvernd á vinnustað eða heilsuvernd í vinnunni er forvarnarstarf sem tengist vinnunni, vinnustaðnum og vinnuaðstæðunum sem eiga að vera þannig að þær ógni ekki heilsu manna.

Í XI. kafla laga nr. 46/1980( með síðari tíma breytingum) 66. gr. segir svo:

?Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð er á áhættumati, sbr. 65.gr. a, þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir, þar á meðal um aðgerðir sem grípa þarf til í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum.

Markmið heilsuverndar er að:

a)                  stuðla að því, að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni, sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,

b)                  stuðla að því, að vinnu sé hagað þannig, að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi,

c)                  draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað,

d)                  stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmann.

Í áætlun um forvarnir skal koma fram lýsing á hvernig hættum og þeirri áhættu, sem þeim fylgir samkvæmt áhættumati, skuli mætt, svo sem með skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, vali á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingum á vinnustað eða öðrum forvörnum. Leggja skal áherslu á almennar ráðstafanir áður en gerðar eru ráðstafanir til verndar einstökum starfsmönnum.

Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um heilsuvernd, þar á meðal um heilsuvernd sem tekur mið af sérstökum áhættuþáttum, forvarnir með hliðsjón af eðli starfa, stærð vinnustaða og gerð og frágang skjala sem tengjast áætlun um heilsuvernd.? (Lög nr. 46/1980 með síðari tíma breytingum). Í sept. 2006 liggja fyrir drög að reglugerð um heilbrigðis og öryggisstarf á vinnustöðum (Drög að reglugerð um heilbrigðis- og öryggisstarf á vinnustöðum).

 

Heilsuvernd á vinnustað er margþætt starfsemi sem krefst þverfaglegrar þekkingar og verður ekki unnin svo vel sé af neinum einum einstaklingi. Heilsuvernd af þessu tagi er lögbundið forvarnarstarf.

Heilsuefling á vinnustað er ekki lagaleg skylda en margir atvinnurekendur kjósa að ganga lengra en lögin kveða á um og efla heilsu starfsmanna sinna með ýmsum ráðum þar eð þeir telja að slíkt skili sér í ánægðara og heilbrigðara starfsfólki sem skili betra starfi.

 

Forvarnir eru lykilatriði

Markmið heilsuverndar í vinnunni er fyrst og fremst að koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar ? ekki að meðhöndla sjúkdóma. Mismunandi áherslur eru þó í mismunandi löndum.

 

Í flugritinu Heilsuvernd á vinnustað þar sem meginatriðin úr skýrslu Vinnueftirlitsins frá 1999 eru dregin fram eru markmið heilsuverndar á vinnustað talin upp:

 

·        Að fyrirbyggja óþægindi, sjúkdóma og slys sem rekja má til atvinnu fólks.

·        Að auka þekkingu atvinnurekenda og launafólks á áhættuþáttum í vinnuumhverfi.

·         Að draga úr fjarvistum vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi, viðhalda heilsu starfsmanna og aðlaga störfin að starfsmönnum.

 

Í skýrslunni Heilsuvernd starfsmanna er fjallað um hvernig ná megi settum markmiðum og raða niður eftir áherslu og forgangsröð:

 

1.      Greining og áhættumat á vinnuumhverfi og ráðgjöf um forvarnir

2.      Fræðsla og ráðgjöf

3.      Heilsufarsskoðanir

 

Lögð er áhersla á að forvarnarstarfið þurfi að vera markvisst á 1. stigi forvarna og snúi fyrst og fremst að því að fjarlægja áhættuþætti í vinnuumhverfi. Vinnuaðstæður skuli metnar, orsakir atvinnutengdra óþæginda, sjúkdóma og slysa greindar og gera skuli raunhæfar tillögur um úrbætur. Leitast skuli við að leggja mælanlegt mat á það hvort starfið miði að settum markmiðum. Í skýrslunni er lýst í stuttu máli hvað felst í hverjum lið fyrir sig. (Skýrsla, 1999).

Tengsl manns og vinnu eru flókin. Sérhver starfsmaður ber með sér margs konar bagga sem tengjast lífsháttum, umhverfi og erfðum, sumt er að einhverju leyti á hans eigin valdi, annað ekki. Veikindi starfsmanna geta tengst vinnunni að einhverju eða öllu leyti, eða þau eru alveg ótengd vinnunni og vinnuumhverfinu.

 

Hverjir sinna heilsuvernd á vinnustað?

Þeir, sem sinna heilsuvernd á vinnustað, þurfa að hafa þekkingu til að greina og átta sig á sambandi vinnuumhverfis og heilsu. Hafa ber í huga að vinnuvernd verður aldrei virk nema innan vinnustaðanna sjálfra. Utanaðkomandi aðilar geta greint vandamálin, veitt ráð og mikilvægar leiðbeiningar en framkvæmdin hvílir fyrst og fremst á vinnuveitendum og starfsmönnum. Ef vel á að vera þurfa forvarnir að fléttast inn í daglegt starf á vinnustöðum.

            Ráðgjöf um heilsuvernd á vinnustað er mismunandi háttað erlendis. Sums staðar er fyrirtækjum og stofnunum skylt að gera samning við ráðgjafa á þessu sviði annars staðar er það frjálst að einhverju eða öllu leyti. Ráðgjöfin og þjónustan er líka mismunandi. Sums staðar er bæði um að ræða fyrirbyggjandi starf og meðferð sjúklinga, annars staðar er eingöngu um fyrirbyggjandi starf að ræða.

            Hérlendis hefur gengið hægt að koma skipulagi á starfsemi af þessu tagi, þótt vinnuverndarlögin hafi allt frá 1980 kveðið á um hana.

            Þegar lögin voru fyrst samþykkt var miðað við það að heilsugæslustöðvar og sjúkrahús veittu þessa þjónustu en með árunum hefur viðhorf manna breyst og nú á dögum þykir nauðsynlegt að fólk með mismunandi menntun og reynslu leggi hönd á plóginn í þessu efni. Meðal þeirra sem koma að verki eru t.d. heilbrigðisstarfsmenn (læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfarar), arkitektar, hönnuðir, tæknimenn (verkfræðingar, tæknifræðingar, öryggisfulltrúar), efnafræðingar, eiturefnafræðingar, líffræðingar, félagsvísindamenn (sálfræðingar, félagsfræðingar, félagsráðgjafar).

 

Þjónustuaðilar á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum

Samkvæmt 66. gr.a í lögum nr. 46/1980 með síðari breytingum segir svo m.a.:

?Þegar gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd, krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita aðstoðar til þess hæfra þjónustuaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til þeirra starfa. Skal atvinnurekandi upplýsa þjónustuaðila um þá þætti sem vitað er eða grunur leikur á að hafi áhrif á öryggi og heilbrigði starfsmanna. Enda þótt atvinnurekandi njóti þjónustu slíkra aðila ber hann engu að síður ábyrgð á að áætlunin sé gerð og henni fylgt eftir.?

Þjónustuaðilar heilsuverndar á vinnustað eiga að vera þekkingarbrunnar um vinnuvistfræði sem fyrirtæki, samtök og opinberir aðilar geta ausið af. Til frekari fróðleiks má benda á ýmsa bæklinga á heimasíðu Vinnueftirlitsins s.s. Heilsuvernd á vinnustað; Áhættumat, forvarnir og heilsuefling, Vellíðan í vinnunni, Líkamlegt álag í vinnu o.fl. http://www.vinnueftirlit.is/page/publications#heilsuvernd. Heilsuvernd á vinnustað skal byggjast á áhættumati.

 

Þverfagleg þekking nauðsynleg

Góð heilsuvernd á vinnustað, sem hefur forvarnir að leiðarljósi, stuðlar að betri heilsu og líðan starfandi fólks og ætti þar með að draga úr samfélagslegum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustunnar.

            Heildstæð þjónusta af þessu tagi er þverfagleg. Einstakir ráðgjafar geta ekki gegnt hlutverki þjónustuaðila nema innan eigin fagsviðs. Grundvallarhugmyndin er að þjónustuaðilar skuli hafa mismunandi menntun að baki og ráða yfir víðtækri þekkingu en sameiginleg sé þeim heildarsýn á samspil manneskju og vinnuumhverfis. Þverfaglegt samstarf er einn helsti styrkur þjónustunnar, allir leggja sitt af mörkum og hafa þannig betri möguleika en ella til að finna lausnir á ólíkum vandamálum.

            Mikilvægt er að þjónustuaðilar séu faglegir, óháðir og óhlutdrægir í starfi sínu. Þeir eiga að geta greint vandamálin, tengsl vinnuumhverfis eða vinnuaðstæðna og heilsu eða líðanar starfsmanna, og bent á leiðir til úrbóta. Þegar fólk kemur aftur til starfa eftir veikindi getur það þurft á endurhæfingu að halda til að geta sinnt fyrra starfi eða lausnin getur verið fólgin í því að viðkomandi fari til annarra starfa innan fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Sú ráðabreytni skal alltaf vera í samráði við starfsmanninn sjálfan. Þjónustuaðilarnir eiga að starfa á faglegum grundvelli og gæta hlutleysis gagnvart atvinnurekendum, starfsmönnum og fulltrúum þeirra.

 

Viðurkenning þjónustuaðila

Þjónustuaðilar skulu fá viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins áður en þeir hefja starfsemi. Þeir skulu senda skriflega umsókn til Vinnueftirlits ríkisins um viðurkenningu. Eins og áður segir er heilsuvernd á vinnustað sérfag sem byggir á grunnmenntun innan ýmissa fræðigreina. Almenn grunnmenntun á heilbrigðis- félags- eða tæknisviði, svo dæmi séu tekin, er ekki nægileg undirstaða fyrir þjónustuaðila á sviði vinnuverndar. Þeir, sem óska eftir að fá viðurkenningu Vinnueftirlitsins, verða að sýna fram á að þeir hafi aflað sér undirstöðuþekkingar á vinnuverndarsviði svo sem með sérnámi, námskeiðum eða starfsreynslu. Mælt er með því að allir þjónustuaðilar hafi sótt námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði sem haldin eru á vegum Vinnueftirlitsins. Þar er farið yfir grunnatriði vinnuverndar og heilsuverndar á vinnustað.

 

Heildstæð þjónusta

Þjónustuaðilar, sem vilja veita heildstæða þjónustu í vinnuvernd, en hafa sjálfir aðeins þekkingu á takmörkuðu sviði vinnuverndar, skulu leggja fram með umsókn sinni afrit skriflegra samninga um samstarf við sérfræðinga á sviði eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra, vistfræðilegra og sálfræðilegra þátta. Þessir aðilar þurfa að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir viðurkenningu Vinnueftirlitsins á þjónustuaðilum. Þjónustuaðili, sem hefur fengið viðurkenningu hjá Vinnueftirliti ríkisins til að veita heildstæða þjónustu, ber ábyrgð á að þjónustan, sem veitt er, uppfylli kröfur Vinnueftirlits ríkisins.

 

Endurmenntun

Mikilvægt er að þjónustuaðilar, sem hafa fengið viðurkenningu Vinnueftirlitsins, viðhaldi þekkingu sinni með endurmenntun á vinnuverndarsviði. Æskilegt er að endurmenntunin vari minnst viku á ári. Atvinnurekendur ættu að kynna sér hvort viðkomandi þjónustuaðili hafi tilskilda menntun til að geta unnið starfið af fagmennsku.

            Endurmenntun þjónustuaðila getur verið af ýmsu tagi. NIVA (Nordic Institute for Advanced Training in Occupational Health) er norræn menntastofnun í vinnuvernd sem stendur fyrir margs konar námskeiðum fyrir sérfræðinga í vinnuvernd (www.niva.org). Boðið er upp á framhaldsnám í vinnuvernd víða um heim annað hvort sem sérnám að loknu grunnnámi til háskólagráðu eða í námskeiðsformi. Nám af þessu tagi fer ýmist fram á vegum háskóla eða vinnuverndarstofnana. Á Íslandi hefur verið boðið upp á nokkur námskeið á þessu sviði og ýmiss konar námskeið hjá háskólunum fjalla um vinnutengda heilsu og vinnuvernd. Vinnueftirlitið stendur fyrir tveggja daga námskeiðum fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði sem allir þjónustuaðilar á sviði vinnuverndar ættu að hafa sótt.

 

Mat á gæðum þjónustunnar

Heilsuvernd á vinnustað miðar vissulega að því að gæta vinnutengdrar heilsu einstaklingsins en þar á ofan verður þjónustan að standa undir kröfum annars staðar frá, þ.e. frá atvinnurekendum og þjóðfélaginu. Afrakstur starfsins er unnt að meta á mismunandi vegu. Hefur þjónustan skilað sér í betri heilsu og/eða líðan starfsfólksins, færri slysum, minni fjarvistum frá vinnu og minni tilkostnaður þjóðfélagsins vegna sjúkratrygginga og örorku? Viðskiptavinir þjónustuaðila meta það yfirleitt mikils að fá hjálp við að greina vandamál og fá tillögur um lausnir, aðstoð við úrræði og mat á árangri. Þegar þannig er unnið finnst viðskiptavinunum þjónustan bæði gagnleg og kostnaðarins virði.

            Vegna þess að verkkaupinn veit ekki alltaf hvað felst í heilsuvernd á vinnustað er mikilvægt að þjónustuaðilinn gæti ítrustu fagmennsku og útskýri fyrir verkkaupanum að þessi tegund heilsuverndar byggir á áhættumati á vinnustað. Einstaklingsbundnar heilsufarsskoðanir geta fallið þar undir en þá í tengslum við skilgreinda áhættu á vinnustaðnum. Annars flokkast þær undir almenna heilsugæslu.

 

Hlutverk heildstæðra þjónustuaðila

Mikilvægt er að þjónustuaðilar, sem veita heildstæða þjónustu, kynnist vel aðstæðunum á viðkomandi vinnustað og hlusti bæði á stjórnendur og starfsmenn. Atvinnurekendum er skylt að láta þjónustuaðilum í té allar nauðsynlegar upplýsingar sem koma honum að gagni í starfi. Ef þjónustuaðilum er eingöngu falið að vinna sérstök störf, t.d. bólusetningar, er hætta á að þekking þeirra á vinnustaðnum verði takmörkuð og þjónusta þeirra komi ekki að nægu gagni. Slík samskipti eru ekki nægileg til að skapa þau tengsl og þann trúnað sem miklu máli skiptir. Þjónustuaðilinn getur ekki með þessu móti gert sér grein fyrir hvar skórinn kreppir á vinnustaðnum. Til frekari skýringar ber að taka það fram að almenn heilsuvernd er ekki lagaleg ábyrgð atvinnurekenda en þeim er á hinn bóginn skylt að sjá til þess að vinnuumhverfið sé öruggt og ógni ekki heilsu starfsmanna. Heilsuvernd á vinnustað ætti því byggjast á áhættumati á hverjum stað.

Samkvæmt vinnuverndarlögunum er atvinnurekanda skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd. Hafi atvinnurekandi eða starfsmenn hans ekki yfir að ráða nægilegri færni til að leysa þetta verkefni af hendi ber honum að leita aðstoðar hæfra þjónustuaðila, sem hlotið hafa viðurkenningu Vinnueftirlitsins til þessara starfa. Tiltekin þjónusta er almenn s.s.:

·        Aðstoð við að skipuleggja og styðja við vinnuverndarstarf sem er fyrir hendi innan fyrirtækisins, aðstoð við stefnumótun og gerð verklagsreglna.

·        Árleg þarfagreining á vinnuumhverfinu og aðgerðaáætlun fyrir vinnustaðinn, jafnvel þátttaka í öryggisnefndarstarfi, eftirliti á vinnustaðnum og mælingum í vinnuumhverfi.

·        Gerð áhættumats og tillögur um lausnir, upplýsingar um lög, reglur og viðmið, t.d. út frá vísindalegum rannsóknum.

·        Ýmiss konar mat á vinnuumhverfi (t.d. mælingar á raka, hávaða o.s.frv.)

·        Aðgerðir til að fyrirbyggja heilsutjón t.d. vegna álagsmeina, sálfélagslegra þátta, mengunar hættulegra efna, hávaða, kulda o.s.frv.

·        Mat á starfsgetu starfsmanna. Mat á vinnutengdu heilsutjóni, með það að markmiðið að fyrirbyggja að aðrir lendi í því sama, og aðstoð við starfstengda endurhæfingu starfsmanna.

·        Aðstoð við úrbætur á vinnustað sem miða að því að efla heilsu og líðan starfsmanna. Vekja t.d. athygli á sambandi of mikils álags, streitu og heilsufars. Verkefnin geta einnig falist í heilsueflingu s.s. ráðgjöf um mataræði, reykinga- og vímuefnavarnir, námskeiðum í skyndihjálp og mati á heilsufari starfsmanna.

·        Heilsufarsskoðanir geta verið liður í þjónustunni en ekki er gert ráð fyrir að almenn heilsugæsla falli þar undir. Heilsufarsskoðanir, án tengsla við áhættumat, eru fremur á verksviði almennrar heilsugæslu.

·        Ráðgjöf og stuðningur til einstaklinga og hópa á vinnustað vegna mála sem upp koma, t.d. vegna líkamlegs eða andlegs álags, samskiptaörðugleika, streitu, sjúkdóma- og slysavarna, innilofts, öryggismála, eineltis, áreitni, ofbeldis og hótana, áfalla, vímuefnavanda, reykinga, fjarvista, fyrirhugaðra breytinga á vinnustaðnum, skorti á fræðslu um lög og reglur ?  svo nokkuð sé nefnt

 

Áhættumat

Heilsuvernd á vinnustað skal byggjast á áhættumati. Drög að reglugerð um heilbrigðis- og öryggisstarf á vinnustöðum er til skoðunar hjá félagsmálaráðuneytinu (sept. 2006), en styðjast má við: Leiðbeiningar um gerð áhættumats og vinnuumhverfisvísa starfsgreina sem er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins undir útgefið efni og reglugerð um heilbrigðis og öryggisstarf á vinnustöðum http://www.vinnueftirlit.is/page/publications#ahaettumat

Þegar áhættumat liggur fyrir þarf að forgangsraða verkefnum, greina orsakir, leita lausna, hrinda lausnum í framkvæmd, fylgja umbótum eftir og að lokum meta árangur.

            Áhættuþættir í vinnuumhverfi geta verið margir og margs konar. Einstakir starfsmenn eða hópar starfsmanna geta þurft á sérstakri vinnuvernd að halda. Má þar t.d. nefna þungaðar konur, börn og unglinga, fólk sem ekki hefur fullt starfsþrek vegna veikinda og fólk sem hefur skerta starfsgetu af öðrum ástæðum. Sérákvæði í reglum eða reglugerðum um áhættumat og forvarnir vegna ákveðinna áhættuhópa gilda framar almennum ákvæðum reglugerðar um áhættumat. Reglurnar má finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins; http://www.vinnueftirlit.is og eru margar þeirra sérstaklega taldar upp í flugritinu Heilsuvernd á vinnustað; Áhættumat, forvarnir og heilsuefling sjá: http://www.vinnueftirlit.is/page/publications#heilsuvernd svo og í lista yfir ítarefni í lok þessara leiðbeininga.

 

Áhættumat í starfsumhverfi kvenna

Ef konur á barnseignaraldri eða þungaðar konur eru á vinnustaðnum ber að hafa í huga að það, sem getur verið hættulaust fyrir aðra, getur verið varhugavert ef þunguð kona á í hlut. Til eru Leiðbeiningar um áhættumat í starfsumhverfi þungaðra kvenna og kvenna sem hafa nýlega alið barn eða eru með barn á brjósti; http://www.vinnueftirlit.is/document/1000229

 

Börn og unglingar á vinnumarkaðinum

Við öll störf ungmenna undir 18 ára aldri skal leggja áherslu á að öryggi og að andlegu og líkamlegu heilbrigði ungmenna sé ekki hætta búin og að vinnan hafi ekki truflandi áhrif á menntun þeirra eða þroska. Taka skal tillit til viðmiða um vinnutíma fyrir mismunandi aldur, sem fram koma í reglugerð um vinnu barna og unglinga, sjá heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is -reglur.

Við mat á áhættu skal sérstaklega taka tillit til hættunnar sem stafar af ungum aldri, skorts á reynslu og meðvitund um hættur starfsins, ásamt því að ungmennin eru ekki fullþroska. Við mat á varúðarráðstöfunum skal jafnframt taka tillit til líkamlegra og andlegra áhrifa sem ungmenni geta orðið fyrir um lengri eða skemmri tíma vegna vinnunnar.

Fréttir