Fréttir

Latexofnæmi í fyrirtækjum

11.12.2007

Komið hefur fram latexofnæmi sem rekja má til notkunar latexhanska á dekkjaverkstæði. Þetta gerir starfsmönnum sem fyrir verða ókleyft að halda áfram slíkum störfum nema með því að ofnæmisvakinn sé fjarlægður. Þ.e. í þessu tilviki að hætt sé að nota latexhanska. Vinnueftirlitið telur brýnt að sökum þess hve öflugur ofnæmisvaki latex getur verið að fyrirtæki og stofnanir reyni að takmarka eftir föngum notkun á latexhönskum, þannig að sem fæstir verði fyrir því að fá ofnæmi af þeim sökum. Með þessu verður vonandi hægt að fækka þeim sem þurfa að skipta um starf eftir að hafa fengið atvinnutengdan ofnæmissjúkdóm.
Þrátt fyrir þessar leiðbeiningar þá er rétt að hafa í huga að viss störf og verkefni verða ekki unnin nema með notkun á vörum og búnaði sem inniheldur latex en þá er mikilvægt að áhættumat fyrirtækis og áætlun um starfsmannaheilsuvernd hjá því endurspegli þessa staðreynd.

Frekari fróðleik um latex má m.a. afla sér í grein eftir læknana Davíð Gíslason og Unni Steinunni Björnsdóttur

 

Kristinn Tómasson, dr.med
Yfirlæknir Vinnueftirlitsins