Fréttir

Lágmarksaldur fyrir störf við barnagæslu

25.4.2003

Vinnueftirlitinu hafa borist fyrirspurnir um leyfilegan lágmarksaldur til að starfa við barnagæslu. Hér á eftir verður farið yfir reglur sem um það gilda.
 
Um vinnu barna og unglinga gilda lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga. Vinnueftirlitið hefur eftirlit með því að lögunum og reglunum sé framfylgt.

Tilgangur reglna um vinnu barna og unglinga er að ýta undir skynsamlega atvinnuþátttöku barna og unglinga og koma í veg fyrir að þau vinni störf sem geta verið þeim hættuleg andlega og líkamlega.

Börn eru einstaklingar undir 15 ára aldri og eru þau í skyldunámi. Börn má aðeins ráða í vinnu í undantekningartilvikum. Unglingar eru einstaklingar sem náð hafa 15 ára aldri en eru undir 18 ára aldri og eru ekki lengur í skyldunámi.


Vinna barna yngri en 13 ára

Vinna barna yngri en 13 ára er ekki leyfð nema í eftirfarandi undantekningartilvikum: Heimilt er að ráða börn undir 13 ára aldri til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og í íþrótta- eða auglýsingastarfsemi að fengnu leyfi frá Vinnueftirlitinu. Þannig er engin heimild til þess að börn yngri en 13 ára starfi við barnagæslu.

Vinna barna sem eru 13 og 14 ára

Í reglunum eru tilgreind ákveðin störf sem börn 13 og 14 ára eða eldri sem eru í skyldunámi mega vinna við. Þau mega vinna þau störf sem falla undir skilgreininguna ?starf af léttara tagi? og talin eru upp í viðauka 4 með reglunum. Meðal þeirra starfa sem þar eru upp talin er má nefna vinnu í skólagörðum undir umsjón kennara, létt skrifstofustörf, létt fiskvinnslustörf án véla, sala dagblaða, létt störf í verslunum en þó ekki við greiðslukassa. Barnagæsla er ekki meðal þeirra starfa sem talin eru upp í viðaukanum. Þar kemur þó fram að upptalning starfa þar er ekki tæmandi og að Vinnueftirlitið geti veitt leyfi fyrir vinnu barna við létt störf sem ekki eru talin þar enda séu þau sambærileg.

Að bera ábyrgð á lífi og líðan lítilla barna er ábyrgðarmikið starf. Sú ábyrgð sem felst í barnagæslu getur valdið þeim sem ekki eru búnir að taka út fullan þroska of miklu andlegu álagi. Ábyrgðin er gífurleg ef eitthvað bregður út af. Í því sambandi má geta þess að slys á heimilum eru meðal algengustu slysa á Íslandi og flest verða þau í aldurshópnum 0-4 ára. Þannig er barnagæsla ekki í eðli sínu sambærileg við þau störf sem upp eru talin í áðurnefndum viðauka. Þannig er ljóst að ekki er heimilt að ráða börn yngri en 15 ára til starfa við barnagæslu.

Heimilisaðstoð á einkaheimili atvinnurekanda

Reglurnar taka ekki til heimilisaðstoðar á einkaheimili atvinnurekanda ef hún er tilfallandi eða varir í skamman tíma og er ekki hættuleg eða skaðleg ungmenninu. Barnagæsla gæti auðvitað fallið hér undir heimilisaðstoð, en öll skilyrðin þurfa að vera uppfyllt til að undanþágan eigi við. Af þessu má ráða að möguleiki sé á að reglurnar næðu ekki yfir þau tilvik þar sem ungmenni passa börn á heimili foreldra barnsins eða forráðamanna þess í stuttan tíma í senn eða óreglulega. Sú undantekning getur aðeins átt við ef vinnan er ekki skaðleg eða hættuleg ungmenninu, sbr. það sem áður segir um að öll skilyrðin verði að vera uppfyllt.

Eins og áður segir er barnagæsla ábyrgðarmikið starf og ekki æskilegt að fela barni að gæta annars barns nema undir eftirliti fullorðinna. Ungmenni getur stafað hætta af því að axla of þunga ábyrgð sem það ræður ekki við vegna ungs aldurs. Túlkun Vinnueftirlitsins á reglunum er því sú að barnagæsla falli ekki undir þessa undantekningu nema hún fari fram undir eftirliti fullorðinna.

Vinna unglinga 15  ára og eldri

Vinna unglinga er almennt heimil nema þegar unnið er með hættuleg tæki, hættuleg efni eða við hættuleg verkefni. Það er því túlkun Vinnueftirlitsins á reglunum að 15 ára og eldri sé heimilt að starfa við barnagæslu.