Fréttir

Könnun á heilsufari á leikskólum

16.8.2001

Könnun á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi starfsmanna á leikskólum ? Liður í undirbúningi heilsueflingar á vinnustað Undirbúningur að heilsueflingu á vinnustað Sem lið í undirbúningi heilsueflingar á vinnustað í Leikskólum Reykjavíkur tók Vinnueftirlitið að sér að gera ítarlega könnun á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi starfsmanna í nokkrum leikskólum í Reykjavík. Spurningalisti var unninn í samstarfi nokkurra starfsmanna Vinnueftirlitsins sem jafnframt eru höfundar skýrslunnar Könnun á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi starfsfólks á leikskólum í Reykjavík. 1) Spurningalistinn var lagður fyrir alla starfsmenn í 16 af 72 leikskólum Reykjavíkur, 11. og 12. maí 2000. Stjórnendur LR völdu leikskólana sem áttu að vera dæmigerðir fyrir helstu gerðir skólanna bæði gamalla og nýrra. Starfsmenn á þessum tíma voru 320 talsins. Aðeins tveir starfsmenn kusu að taka ekki þátt en 287 starfsmenn svöruðu spurningalistunum. Telst það vera 90% svörun sem er mjög gott og sýnir áhuga starfmanna á því að taka þátt í þeim umbótum sem fyrirhugaðar eru. Annar hluti verkefnisins fólst í að meta vinnuaðstöðu starfsmanna. Matið var unnin af Ágústu Guðmarsdóttur sjúkraþjálfaraog var byggt á þriggja klukkustunda heimsóknum á hvern leikskóla. Vinnuumhverfið var skoðað og rætt var við starfsmenn um hver væru helstu vandamálin að þeirra mati. Niðurstöður könnunarinnar Erfitt starf en góður starfsandi Spurningalistakönnunin leiddi tvímælalaust í ljós að starfsmenn eru almennt ánægðir með starf sitt. Þótt meirihluti þeirra telji starfið bæði andlega og líkamlega erfitt og segist oft eða stundum úrvinda að loknum vinnudegi, telja allflestir að á vinnustaðnum sé góður vinnuandi, að samskiptin séu góð, að þeir séu hafðir með í ráðum og að fyrir hendi sé svigrúm til að sinna persónulegum erindum. Flestir starfsmenn telja sig geta sinnt starfi sínu vel og án þess að vera í tímapressu. Það gildir þó síst um stjórnendur. Líkamleg óþægindi og hávaði Þegar svör leikskólastarfsmanna eru skoðuð vekur athygli hve stór hluti viðmælenda eru ungir, ófaglærðir starfsmenn og að meira en helmingur starfsmanna hefur unnið á leikskólum í 5 ár eða skemur. Þetta ber að hafa í huga við túlkun niðurstaðnanna, einkum í ljósi þess að í mörgum tilfellum virðist sem yngra starfsfólk og þeir sem skemmst hafa unnið, séu óánægðastir með ýmislegt í vinnuumhverfinu. Yngra starfsfólkið er auk þess meira fjarverandi frá vinnu vegna veikinda. 9 af hverjum 10 starfsmönnum hafa fundið til einhverra óþæginda á síðastliðnu ári. Flestir í herðum eða öxlum, neðri hluta baks og hálsi eða hnakka. Rúmlega helmingur þeirra telja að samband sé á milli starfsins á leikskólanum og óþæginda þeirra. Fimmtungur starfsmanna hefur þurft að vera frá vinnu vegna höfuðverkja og annarra verkja en orsakir geta verið margvíslegar. Talsvert var um vinnutengd slys á leikskólunum og því nauðsynlegt að hyggja vel að slysagildrum. Þótt starfsmenn virðist almennt ekki hafa áhyggjur af smithættu benda niðurstöðurnar til að tíðni umgangs- og kvefpesta sé há meðal starfsmanna. Þess vegna er mikilvægt að hugað sé betur en nú er gert að vörnum gegn smitsjúkdómum. Vegna þess að álag í starfi getur komið fram hvort heldur í líkamlegum eða andlegum einkennum er mikilvægt að hyggja að hvorutveggja þegar unnið er að úrbótum á vinnustað. Niðurstöður úttektar á vinnuaðstöðunni Niðurstöður úttektar á vinnuaðstöðunni voru í stórum dráttum þær að á yngstu deildunum væri líkamlegt álag mest og einnig virðist hávaði mestur þar. Húsgögn sem unnið er við eru oft á tíðum miðuð við þarfir barnanna en ekki starfsmanna. Þetta veldur því að mikið er um slæmar vinnustellingar og líkamsbeitingu starfsmanna, s.s. setu á litlu stólum og bogur við lítil borð, vaska og bekki. Jafnframt er töluvert um það að starfsmenn eru að lyfta börnunum og halda á þeim á yngstu deildunum. Þetta veldur auknu líkamlegu álagi og hættu á heilsutjóni. Hávaði er algengt umkvörtunarefni og mældist almennt hár. Því voru 14 deildir mældar nákvæmlega og lágu meðaltalshljóðgildin á bilinu 77,5 til 88,5. Ef meðaltalsgildi hávaða eru yfir 85dB geta áhrifin á líkamann verið heyrnaskemmdir, aukin adrenalín myndun og því streituaukning, aukinn hjartslátt, æðasamdráttur, útvíkkun augnsteina, höfuðverkur, og vöðvasamdráttur. Þegar það er haft í huga og það að eðli starfsins eru mikil mannleg samskipti má leiða að því líkum að það tengist því hve algengt er að starfsmenn kvarti undan andlegri þreytu eftir vinnudaginn. Tillögur til úrbóta Þegar niðurstöður könnunarinnar og úttektar á vinnustað lágu fyrir voru lagðar fram tillögur til úrbóta. Þær breytingar sem helst þarf að grípa til svo hægt sé að bæta vinnuumhverfi starfsfólks á leikskólum er m.a. að draga úr hávaða og bæta inniloft. Auk þess er knýjandi að dregið sé úr álagsþáttum sem valda líkamlegum óþægindum en mikið er um að starfsmenn vinni við erfiðar aðstæður. Skipta þarf um húsgögn víða og lagfæra innréttingar sem og bæta við vinnustólum og öðrum hjálpartækjum. Bent var á að mikilvægt væri að auka fræðslu um líkamsbeitingu og vinnutækni inn á leikskólunum sjálfum, þ.e. í réttu vinnuumhverfi. Samhliða úrbótum sem hófust strax og skýrslan lá fyrir er hafin fræðsla og þjálfun í líkamsbeitingu og vinnutækni inn á hverjum leikskóla fyrir sig. Heilsuefling á vinnustað Niðurstöður spurningalistakönnunarinnar og úttektar á vinnuaðstöðu starfsmanna LR verður lögð til grundvallar við skipulagningu heilsueflingar á vinnustað hjá Leikskólum Reykjavíkur. Með slíku fæst góð mynd af því hvar skórinn kreppir, hvar helst er þörf á úrbótum til að minnka líkur á atvinnutengdum álagaseinkennum af líkamlegum, andlegum og félagslegum toga, auka ánægju og vellíðan í starfi, fækka þannig fjarvistum vegna veikinda og draga úr mannaskiptum. Berglind Helgadóttir sjúkraþjálfari hjá Vinnueftirlitinu 1) Berglind Helgadóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Kolbrún Ósk Hrafnsdóttir, Kristinn Tómasson, Svava Jónsdóttir,Þórunn Sveinsdóttir