Fréttir

Jafnræði í vinnunni: viðfangsefni til úrlausnar

12.9.2007

Nýlega kom út skýrsla á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um þann vanda sem við er að glíma varðandi mismunun á vinnustöðum, mismunun sem byggist á ýmiss konar fordómum.  Fólki er mismunað t.d. vegna kynferðis, kynhneigðar, þjóðernis, trúarbragða, lífshátta, aldurs, fötlunar, smits og fyrir að eiga á hættu á að fá arfgenga sjúkdóma. Fyrsta skýrslan um þetta efni, sem send var frá Alþjóðavinnumálastofnuninni, kom út 2003.
     Í þessari síðari skýrslu er farið yfir það hvernig ástandið er í heiminum í dag, að því er þetta varðar, hvað hefur áunnist, hvað hefur staðið í stað, hvað hefur versnað og hvaða ný vandamál hafa komið til sögunnar.
     Bent er á að mismunun hefur alla tíð fylgt mannkyninu og því ekki hægt að ganga út frá því að jafnrétti skapist af sjálfu sér. Vinnustaðirnir séu á hinn bóginn kjörinn vettvangur til að stuðla að jafnrétti og það skili sér þegar fram í sækir bæði efnahagslega og heilsufarslega.
     Bent er á ýmis lög og reglur sem settar hafa verið um þetta efni en jafnframt er ljóst að oft skortir á að þeim sé fylgt eftir.
     Enn eru konur að jafnaði lægra launaðar en karlar þótt þær hafi aflað sér góðrar menntunar. Bent er á nauðsyn þess að brúa launabilið og veita báðum kynjum sömu möguleika til að byggja upp starfsferil sinn. Liður í þessu er m.a. að feður taki virkari þátt í uppeldi barna sinna og að þeir hafi möguleika á feðraorlofi þegar barn fæðist.
     Enn er fólki mismunað eftir litarhætti og uppruna. Eftir 11. september 2001 jukust fordómar gagnvart fólki frá tilteknum löndum og gagnvart þeim sem aðhyllast Múhammeðstrú. Þetta hefur leitt til vandamála víða á vinnustöðum.
     Í skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er bent á nauðsyn þess að lagaákvæðum, sem banna mismunun, sé betur fylgt eftir um leið og aðilar vinnumarkaðarins og aðrir þeir sem að málinu koma taki á málinu. Á vinnustöðum þurfi að leysa vandann um leið og hann kemur upp og jafnframt er lagt til að Alþjóðavinnumálastofnunin hafi þetta málefni hátt á stefnuskrá sinni í framtíðinni.
     Skýrsluna má lesa í heild á: http://www.ilo.org/wcmsp5/groups/public/---dgreports/---dcomm/---webdev/documents/publication/wcms_082607.pdf

HKG.