Fréttir

Í framhaldi af dauðaslysi við vinnu í hæð

4.8.2006

Þann 25. júlí s.l. varð dauðaslys í tengivirki við Hellisheiðarvirkjun þegar starfsmaður féll til jarðar af vörubretti á göfflum lyftara sem valt á hliðina  Áður hafa orðið alvarleg slys af svipuðum toga. Vegna þessa vill Vinnueftirlitið leggja áherslu á eftirfarandi:

Einungis er heimilt að lyfta mönnum með tækjum og búnaði sem til þess er ætlaður.  Í undantekningartilvikum, við minniháttar verk,  má þó nota tæki sem ekki eru sérstaklega hönnuð til þessa, að því tilskyldu að fullnægjandi öryggisráðstafanir séu gerðar. Eftirfarandi skal m.a. haft til viðmiðunar:

  • Við val á tæki skal hafa til hliðsjónar við hvaða vinnuskilyrði og aðstæður skal nota tækið og þá áhættu sem verkinu fylgir. Gera skal áhættumat fyrir verkið í heild og fylgja því eftir með fullnægjandi öryggisráðstöfunum og eftirliti.
  • Að öllu jöfnu skal nota tæki sem gerð eru til að lyfta fólki, t.d. körfubíl, körfulyftu eða skæralyftu.
  • Ekki er heimilt að nota vörulyftara til að lyfta fólki nema við minniháttar verk. Skilyrði fyrir slíkri notkun er að lyftarinn sé búinn viðurkenndri mannkörfu. Lyftarinn þarf að standa á láréttum, sléttum og traustum fleti. Séu slíkar aðstæður ekki fyrir hendi skal einungis nota tæki sem gerð eru til að lyfta fólki og gera kleift að tryggja öryggi við þær aðstæður sem til staðar eru.
  •  Fjarskiptasamband skal vera við þann sem verið er að lyfta.
  •  Til að forðast fallhættu, þrátt fyrir aðrar ráðstafanir, er mælt með notkun öryggisbeltis (gripbelti) með höggdeyfandi öryggislínu.
  • Einungis má aka með menn í körfu þegar hún er í minna en í 1 metra hæð og þá hægt og varlega.
  • Stjórnandi tækis hafi tilskilinn réttindi.

 Vinnueftirlitið minnir forvarsmenn fyrirtækja og stjórnendur tækja á ábyrgð þeirra lögum samkvæmt.