Fréttir

Hvers vegna öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður

31.5.2005

Samkvæmt vinnuverndarlögunum skal atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Þeirri skyldu er þeim, sem stjórna fyrirtækjum eða stofnunum þar sem 10 eða fleiri vinna, m.a. ætlað að gegna með því að tilnefna öryggisvörð á vinnustaðnum. Þessum fulltrúa skal falið að annast öryggiseftirlit, þjálfun og fræðslu. Ennfremur skal stuðla að samstarfi hans við öryggistrúnaðarmann, þ.e. þann sem starfsmenn, lögum samkvæmt, kjósa til þess að sinna vinnuvernarverkefnum fyrir sína hönd.

Enn hefur slíkur grunnur að skipulögðu vinnuverndarstarfi ekki verið lagður í nærri öllum fyrirtækjum og stofnunum sem ber skylda til þess lögum samkvæmt. Kosning öryggistrúnaðarmanns og tilnefning öryggisvarðar hefur víða ekki farið fram.
Það er orðið tímabært að ráða bót á því, sýna ábyrgðarkennd í verki.

Ástæðurnar eru m.a.:
  • Heilnæmt og öruggt starfsumhverfi hefur bæði góð áhrif á líðan starfsmanna og rekstur fyrirtækja og stofnana.
  • Í lögum og reglum um vinnuvernd eru ítarleg ákvæði um hvernig vinna skal skipulega að því að skapa öryggi og gott starfsumhverfi fyrir atbeina öryggisvarða.
  • Fjárhagslegt öryggi rekstrarins er m.a. háð því að stjórnendur sinni lögboðnum skyldum sínum. Slys valda margs konar ama og tjóni.
  • Starfsmönnum ber að taka þátt í því starfi.
  • Vinnuverndarlögin kveða á um að starfsmenn skuli kjósa sér fulltrúa í því skyni, öryggistrúnaðarmann.

Hvað segja lögin?
"Í fyrirtækjum, þar sem eru 10 starfsmenn eða fleiri, skal atvinnurekandi tilnefna einn aðila af sinni hálfu öryggisvörð og starfsmenn skulu tilnefna annan úr sínum hópi öryggistrúnaðarmann. Þeir skulu í samvinnu fylgjast með því, að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við lög þessi." (5. gr.)

Kosning öryggistrúnaðarmanns
Í reglunum eru ákvæði um að kosning öryggistrúnaðarmanns skuli vera skrifleg og standa a.m.k. einn vinnudag. Einnig getur kosning farið fram á starfsmannafundi og skal hún vera skrifleg. Öryggistrúnaðarmann skal kjósa til tveggja ára í senn.

Hver á að hafa frumkvæðið að kosningu öryggistrúnaðarmanns?
Í raun getur hver sem er haft frumkvæði að kosningu öryggistrúnaðarmanns á vinnustað þar sem 10 eða fleiri starfa. Þeir sem vilja vinna að málinu geta talað saman og skipulagt kosningu eða tilnefningu þessa fulltrúa síns.
En vilji menn fylgja gildandi lagabókstaf um framkvæmdina þá er hann svona í reglum um heilbrigðis- og öryggisstarfsemi innan fyrirtækja nr. 77/1982:
"Félagslegir trúnaðarmenn starfsmanna eða trúnaðarmenn viðkomandi stéttarfélags skulu sjá um undirbúning og framkvæmd kosninga fulltrúa starfsmanna." (7. gr.)

Öryggisnefnd
"Í fyrirtækjum, þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri, skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og atvinnurekandi tilnefnir tvo fulltrúa. Þessi nefnd skal skipuleggja aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfsmanna um þessi efni og hafa eftirlit á vinnustöðum með því, að ráðstafanir er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi komi að tilætluðum notum." (6. gr.)

Samstarf
"Atvinnurekanda er skylt, ef hann er ekki sjálfur í öryggisnefnd, að skipa í sinn stað aðila með fullu umboði.
Atvinnurekandi skal stuðla að samstarfi þeirra, sem kjörnir eru til þess að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þeirra sem annast heilbrigðisþjónustu. Ennfremur skal hann sjá um að þeir, sem til eru kjörnir að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað, og þeir, sem stija í örygginefnd, fái hæfilegan tíma miðað við verkefnasvið, til þess að gegna skyldum sínum við eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi." (8.gr.)

Réttur til fræðslu
"Atvinnurekandi skal sjá um, að þeir, sem kjörnir eru til að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi í fyrirtæki hans, fái tækifæri til þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og menntunar varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum." (8. gr.)

Þátttaka í skipulagningu
"Atvinnurekandi skal veita nefndum aðilum hlutdeild í skipulagningu að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað." (8. gr.)

Eðli málsins samkvæmt hentar víða vel að tilnefna verkstjóra eða deildarstjóra öryggisvörð.

Hvað eiga öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður að gera?
Í stuttu máli sagt eiga öryggisvörður og öryggistrúnaðarmaður að fylgjast í sameiningu með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi sé í samræmi við lög og reglur - og fylgt sé fyrirmælum Vinnueftirlitsins.
Í 13. gr. "Reglna um heilbrigðis- og öryggisstarfsemi innan fyrirtækja" (nr. 77/1982) er verkefnum þessara fulltrúa lýst.
Meginatriðin eru þessi:
  • Fara eftirlitsferðir um vinnustaðinn og aðgæta að vélar og tæknibúnaður, hættuleg efni og starfsaðferðir stofni ekki lífi og heilsu starfsmanna í hættu.
  • Huga að öryggisbúnaði og notkun persónuhlífa og ástandi þeirra.
  • Gæta að þjálfun og fræðslu starfsmanna með tilliti til hollustuhátta og öryggis.
  • Fylgjast með að tilkynningaskyldu um vinnuslys og atvinnusjúkdóma sé sinnt.

Hvaða réttindi hafa öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður?
Samkvæmt áðurnefndum reglum skal veita öryggistrúnaðarmanni og öryggisverði allar þær upplýsingar sem geta gagnast þeim við vinnu að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað sínum. T.d. skal tilkynna þeim um vinnuslys, atvinnusjúkdóma og óhöpp í fyrirtækinu, bilanir og breytingar sem snerta þau mál og um um ábendingar og fyrirmæli frá Vinnueftirlitinu. Skal þeim gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum um þetta efni á framfæri.

Tími til að sinna öryggistrúnaðarstörfum
Öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður eiga rétt á tíma til að sinna verkefnum sínum og einnig tíma til að afla sér fræðslu án þess að verða fyrir tekjautapi. Orðrétt segir í 9. gr. vinnuverndarlaganna:
"Atvinnurekandi ber kostnað vegna starfs að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi og bætir þeim, sem að því vinna, tekjutap sem af kann að hljótast."

Góð þekking öryggistrúnaðarmanns og öryggisvarðar er forsenda góðs árangurs af starfi þeirra.