Fréttir

Hvernig er hægt að vinna gegn atvinnutengdum líkamlegum álagsvanda?

20.1.2005

Launþegar og atvinnuveitendur !
Hvernig er hægt að vinna gegn atvinnutengdum líkamlegum álagsvanda?

Í frétt frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í nóvember 2004 spyr  framkvæmdastjórnin fulltrúa launþega og atvinnurekenda hvernig þeir telji best að bregðast við vaxandi tíðni líkamlegra álagsvandamála. Bakvandamál og álagseinkenni vegna síendurtekinna einhæfra hreyfinga eru stærstu heilsufars- og öryggisvandamál sem evrópskir launþegar eiga við að stríða í dag. Rannsóknir sýna að þetta snertir yfir 40 milljónir starfsmanna í öllum starfsgreinum í löndum Evrópusambandsins og að 40-50% allra vinnutengdra heilsufarsvandamála eru tilkomin vegna líkamlegra álagsvandamála. Kostnaður atvinnurekenda í Evrópusambandsríkjunum vegna þessa nemur billjónum evra. Vandamálið skerðir samkeppnishæfni Evrópu og 0,5 til 2% af vergri þjóðarframleiðslu tapast árlega.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að heilsufarsreglur sem fjalli um þessi mál séu flestar yfir áratuga gamlar og fjalli ekki um vinnutengd líkamleg álagsvandamál. Nokkur aðildarríki hafa sett lög til að takast á við þessi málefni en önnur ekki. Framkvæmdastjórnin biður starfsmenn og atvinnurekendur um álit á því hvernig það gap, sem er í löggjöf aðildarríkjanna hvað þetta varðar, verði best bætt til að stöðva þessi vandamál.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggur áherslu á áhrif vandans á viðskipti þ.e. framleiðslutap, veikindafjarvistir, kostnað vegna læknisþjónustu, tryggingakostnað, tapaða reynslu starfsmanna sem flosna upp frá sínu starfi, kostnað vegna aukinnar starfsmannaveltu og áhrifa á gæðastarf fyrirtækja. Helsta orsök vandamálsins er talin vera léleg vinnuvistfræðileg staða fyrirtækja. Helstu áhættuþættirnir tengjast því að starfsmenn lyfta þungum byrðum og flytji úr stað, endurteknum einhæfum hreyfingum og erfiðum og oft óheppilegum líkamsstellingum við vinnu.

Líkamleg álagsvandamál tengd vinnu  eru jafn algeng meðal kvenna og karla í öllum starfsgreinum. Tölur sýna að vandamál af þessu tagi eru algengari nú en áður.. Til að mynda kvörtuðu yfir þriðjungur launþega ríkjanna  um bakverk árið 2000 en það er þriggja prósentu aukning frá árinu 1995. Starfsmenn í landbúnaðarstörfum þjást einna helst af líkamlegum álagseinkennum  en 57%  þeirra segjast þjakaðir vegna slíkra einkenna. Mesta aukning líkamlegra álagseinkenna er meðal sérmenntaðra starfsmanna (úr 18 í 24%) og tæknimenntaðra (úr 23 í 31%).

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins spyr hvort þörf er á nýrri reglugerð eða hvort hvert ríki eigi að fara sínar eigin leiðir við að meta og leysa þennan vandann. Hvort gera verði ráð fyrir hvoru tveggja; þ.e. reglugerðinni og því að ríkin fari sínar eigin leiðir í lausn vandans. Auk þess spyr framkvæmdastjórnin hver aðaláherslan eigi að vera í forvarnaaðgerðum, t.d. vinnuverndaraðgerðum tengdum líkamlegum álagsþáttum, skipulagningu vinnunnar og sálfélagslegum þáttum. Hlutaðeigandi ríki gætu einnig sjálf komist að samkomulagi um hvernig mæta megi vandanum. 

Álagsvandamál í hreyfi- og stoðkerfi hafa verið eitt af áhersluatriðum í umræðunni í dag milli aðila í iðnaði. Árangur þeirrar umræðu birtist nýlega í samkomulagi hlutaðeigandi aðila um að vinnu gegn streitu á vinnustöðum.

Berglind Helgadóttir, sérfræðingur í vinnuvistfræði hjá Vinnueftirlitinu.